Verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu

Þriðjudaginn 24. febrúar 2004, kl. 16:57:26 (4575)

2004-02-24 16:57:26# 130. lþ. 70.3 fundur 564. mál: #A verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu# (heildarlög) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 130. lþ.

[16:57]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Hvers vegna skyldi Landsvirkjun frekar vilja hætta fé sínu í umhverfismat, í óvissu um afstöðu landeigendafélagsins eða jafnvel vitandi um andstöðu þess við tiltekna framkvæmd, að breyttri lagaheimildinni? Ég sé ekki hvers vegna það ætti að vera. Ég held að þetta snúi akkúrat allt saman öfugt og tel að byrjað sé á öfugum enda. Fyrst þarf að ná samkomulagi heima fyrir um mögulegar aðgerðir, hvort sem þær fela í sér breytingar á inntakslóninu, minni háttar hækkun stíflunnar, sandfangara uppi í Kráká eða hvað það gæti verið, eða blöndu af þessu öllu saman. Þá er hægt að fara í rannsóknir og meta áhrifin af slíkum aðgerðum. Þegar það liggur allt fyrir í samkomulagi er tímabært að fara með málið fyrir Alþingi.

Svona liggur þetta auðvitað. Það sjá allir heilvita menn. Telja menn ástæðu til að óttast að Alþingi fallist ekki á ráðstafanir af því tagi sem fullt samkomulag væri orðið um? Ástæðan fyrir því að menn vilja ekki fara í leiðangurinn eins og hann er lagður upp af hálfu stjórnvalda er auðvitað að sporin hræða mjög í þessum efnum. Menn vilja ekki hætta á að málin lendi inni í átakafarvegi af gamla taginu. Menn sjá að orðalag bráðabirgðaákvæðisins er ekki þannig að niðurstaða úr umhverfismati þurfi að vera jákvæð. Orðalagið er þannig að nóg sé að umhverfismatið fari fram. Þá hefur Umhverfisstofnun heimild til að samþykkja stífluna og stjórnvöld gætu gefið framkvæmdaleyfi. Það eina sem eftir stæði væri bremsuvald landeigendafélagsins gagnvart framkvæmdum sem eru bannaðar með lögum í dag. Auðvitað hljóta allir að sjá að þessa röskun á réttarstöðu milli aðila vilja menn ekki taka á sig.