Verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu

Þriðjudaginn 24. febrúar 2004, kl. 17:09:33 (4578)

2004-02-24 17:09:33# 130. lþ. 70.3 fundur 564. mál: #A verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu# (heildarlög) frv., umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 130. lþ.

[17:09]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þær umræður sem hér hafa farið fram um þetta mál. Segja má að þrennt standi upp úr eftir umræðurnar, að mínu mati.

Í fyrsta lagi skynja ég umræðuna þannig að það sé almenn samstaða um þær hugmyndir sem fram koma í frv., um að gildissvið laganna verði þrengt. Alla vega hafa háttvirtir þingmenn sem hafa talað hér fyrir hönd stjórnmálaflokkanna orðað það að þeir vilji skoða slíka þrengingu með jákvæðum hætti, opnum huga o.s.frv. Þó hefur enginn bundið sig við að styðja það beint. Í því felst að gildissviðið nái ekki til alls Skútustaðahrepps eins og í dag, heldur til mikilvægustu svæðanna, þ.e. Mývatns og Laxár, 200 m bakka og helstu votlendissvæða. Þetta er eitt atriðið. Mér virðist almenn samstaða um að skoða þetta jákvætt.

Í öðru lagi hefur umræðan snúist um umhverfismat, þ.e. hvort hægt sé að fara í umhverfismat á framkvæmdinni eða ekki. Gagnvart því atriði hefur verið nokkur misskilningur í umræðunni. Sumir telja hægt að fara í umhverfismat eins og lögin eru í dag á þeirri framkvæmd sem hér hefur verið til umræðu, aðallega í bráðabirgðaákvæðinu. En svo er ekki. Það er veruleg réttaróvissa um hvort hægt sé að fara í umhverfismat á framkvæmd sem ekki er lagastoð fyrir. Það er eiginlega algjörlega órökrétt. Því þarf til bráðabirgðaákvæði til að hægt sé að fara í matið.

Í þriðja lagi hefur verið mikil umræða um bráðabirgðaákvæði III. Helsti ágreiningurinn gagnvart frv. er um þetta ákvæði. Það eru mjög skiptar skoðanir um það. Hér hefur maður verið sakaður um að rjúfa grið og rjúfa sáttargjörð. Ég er algjörlega á öndverðum meiði. Hér er ekki verið að rjúfa sáttargjörð eða að rjúfa grið vegna þess að í bráðabirgðaákvæðinu er því haldið til haga að landeigendafélagið þurfi að samþykkja hækkun á stíflunni ef hún á að verða að veruleika. Landeigendafélagið hefur því neitunarvald.

Eins og hér hefur margoft verið rakið eru núverandi lög þrengri en ákvæði sáttargjörðarinnar tiltaka. Það stendur í sáttargjörðinni að ekki sé hægt að breyta rennsli Laxár nema með leyfi landeigendafélagsins en í lögunum stendur að það megi ekki breyta rennsli Laxár nema til verndunar og ræktunar, það er sem sagt þrengra.

Hér hafa nokkrir þingmenn talað um að þeir vilji draga einhvers konar mörk, að þarna hljóti að vera ákveðin mörk gagnvart náttúruvernd og það eigi alls ekki að fara í þessar framkvæmdir undir nokkrum kringumstæðum. Jú, það er ágætis afstaða í sjálfu sér. Það er mjög skýr afstaða að vera á móti öllum hugmyndum um breytingar og ekki hægt að gagnrýna þá afstöðu. Það er bara ákveðin afstaða. En ég er ekki sammála þeirri afstöðu. Mér finnst eðlilegt að þetta mál verði skoðað. Mér finnst eðlilegt að skoða það með umhverfismati, það verði rannsakað hvaða umhverfisáhrif verða við ákveðnar framkvæmdir sem eru hugsanlegar á svæðinu. Nái menn saman og telji allir aðilar máls, þ.e. Landsvirkjun, landeigendafélagið og Umhverfisstofnun, að niðurstaðan sé ásættanleg þá væri hægt að fara í slíka framkvæmd. Mér finnst eðlilegt að það sé skoðað. Ég vil ekki fyrir fram útiloka að einhverjar breytingar megi gera á stíflunni. Það er mín afstaða. Þess vegna hef ég stutt þetta mál.

Hér hefur verið mikil umræða um 12 m, að stíflan hækki um 12 m. Ég skil hvernig umræðan leiddist inn á þær brautir. Það er vegna þess að Landsvirkjun lagði á sínum tíma fram drög að matsáætlun um 10--12 m hærri stíflu (MÁ: Á sínum tíma? Í sumar.) Já, fyrir ekki mjög löngu síðan (MÁ: Í sumar.) og því er mjög eðlilegt að umræðan sé um 10--12 m hærri stíflu. Ég hins vegar veit, eftir fund sem ég átti með stjórn landeigendafélagsins, og get fullyrt að það er ólíklegt að menn fallist á 12 m hækkun. Ég held að það sé bæði vegna náttúruverndarhagsmuna og vegna þess að þá þurfi að tæma þetta lón af sandi. Menn vilja skoða aðrar leiðir þannig að umræðan er að vissu leyti á villigötum þegar hún snýst um 10--12 m.

[17:15]

Ég heyrði að stjórn landeigendafélagsins vildi skoða aðrar útfærslur og þær hafa líka verið umtalsefni, þ.e. að skoða að fella sandinn mun ofar, þ.e. í Kráká eða fyrir neðan Haganes, og hreinsa þannig sandinn í efri hlutanum áður en hann kemur niður í virkjunina sjálfa og í hugsanlegt inntakslón þar. Þannig mætti hlífa efri hluta Laxár við sandburðinum og ekki þyrfti að koma til eins hárrar stíflu og menn hafa talað um, þ.e. 10--12 m eins og var skoðað í sumar --- eins og kom fram í frammíkalli --- hjá Landsvirkjun.

Heimamenn hafa því viljað láta skoða þessa möguleika og mér er kunnugt um að Landsvirkjun er að ræða möguleikana við heimamenn sem er mjög eðlilegt því Landsvirkjun veit að hún getur ekkert farið fram með einhverju offorsi í málinu, það gengur ekki. Heimamenn hafa sitt að segja og það er mjög eðlilegt í ljósi forsögunnar og í ljósi þess hvernig þetta mál er vaxið. Heimamenn, samkvæmt bráðabirgðaákvæðinu, þurfa að samþykkja hækkun eigi hún að verða að veruleika og þá þýðir ekkert fyrir Landsvirkjun að fara fram með einhverju offorsi og láta skoða einhverjar hugmyndir í umhverfismati sem heimamenn hafa engan áhuga á að fallast á. Að sjálfsögðu verða menn að ræða saman og ná sátt um hvað eigi að skoða í hugsanlegu umhverfismati, verði bráðabirgðaákvæðið að lögum.

Ég hef heyrt í stjórn landeigendafélagsins og forustu þeirra og það hefur líka verið sagt opinberlega t.d. í Morgunblaðinu að heimamenn vilja gjarnan skoða hvort hægt sé að ná sátt og það hefur verið haft eftir þeim opinberlega. Mér finnst því að málið geti náð ágætislendingu af því að við erum að halda því til haga að það þarf að skapast sátt um málið eins og bráðabirgðaákvæðið hljóðar upp á. Það er enginn einn sem getur leyft þetta. Það er ekki einn aðili og ekki tveir, það eru þrír aðilar sem þurfa að koma að því, landeigendafélagið, Umhverfisstofnun þarf að gefa leyfi, að undangengnu umhverfismati og að því gefnu að landeigendafélagið fallist á hugmyndir Landsvirkjunar, og sveitarfélagið þarf að gefa út framkvæmdaleyfi. Það þarf því að skapast víðtæk sátt eigi þetta að verða að veruleika.

Ég hef verið spurð að því hvert hlutverk umhverfisráðherra sé í þessu, af hverju iðnrh. sé ekki með þetta mál. Ég skil alveg af hverju menn spyrja að því. Málið er í eðli sínu ekki þannig að menn skyldu halda að umhvrh. ætti að bera það hingað inn. En lögin um vernd Mývatns og Laxár falla undir umhvrh., þar sem ákvæði er núna inni um að það er ekki hægt, að mínu mati, hvorki í umhverfismati né með öðrum hætti, að skoða lausn á þessu máli, lausn á því hvort hægt sé að koma eitthvað til móts við virkjunina þannig að hún geti áfram verið í rekstri.

Þess vegna kemur þetta inn í frv. sem ég flyt sem umhvrh. og það er mitt hlutverk samkvæmt lögum að bera ábyrgð á þessum lagabálki.

Það er stundum látið að því liggja í umræðunni að umhvrh. eigi að vera á móti öllum hugmyndum af þessu tagi, eins og að hækka stífluna. Þetta er gamall kunningi úr umræðunni um Kárahnjúkavirkjun, af hverju styður umhvrh. svona mál?

Ég vil í því sambandi segja að það er þannig með ráðherra almennt sem sitja í ríkisstjórn og bera ábyrgð á sínum málaflokkum að þeir verða að taka tillit til fleiri atriða og taka tillit til margra sjónarmiða. Ef umhvrh. ætti einungis að horfa til þrengstu náttúruverndarsjónarmiða þyrfti hann varla að vera til staðar. Þá væri bara eitt stórt nei gagnvart öllum hugmyndum af þessu tagi.

Hið sama má segja um aðra ráðherra. Á fjmrh. að vera á móti öllum skattalækkunum því þá fær ríkissjóður inn minni tekjur? Auðvitað ekki. Hann þarf að líta til annarra sjónarmiða eins og til einstaklinganna og til þess fjármagns sem þeir geta sjálfir nýtt með mjög góðum hætti, ekki í gegnum ríkissjóð. Það er hægt að fara yfir hlutverk allra ráðherranna og færa rök fyrir því að auðvitað verða þeir að líta til annarra sjónarmiða en þrengstu sjónarmiða sem undir þá falla. Það er ekki hægt að ætlast til þess að umhvrh., hver sem hann er á hverjum tíma, neiti að horfa til heildarhagsmuna.

Hér hefur einnig verið spurt um svæði eins og Dimmuborgir. Hv. þm. Sigurjón Þórðarson spurði mikið út í það atriði í gær: Á bara ekkert að gefa þar? Á bara að fella vernd af Dimmuborgum út og búa við það?

Nei, það er ekki þannig. Eins og hv. þm. geta lesið í frv., í ákv. til brb. II, á að vernda ákveðin svæði sem hafa hátt verndargildi á grundvelli náttúruverndarlaga. Það verður farið í þá vinnu og að sjálfsögðu verður haft mikið samráð við sveitarfélagið þar að lútandi.

Hér var einnig spurt í gær út í lagatæknileg atriði, hv. þm. Atli Gíslason nefndi nokkur lagatæknileg atriði sem honum fannst að rækjust á bráðabirgðaákvæðið. Ég tel að það séu ekki neinir lagatæknilegir gallar á frv. en það er eitthvað sem umhvn. mun að sjálfsögðu skoða í sinni umfjöllun.

Hér var einnig spurt: Af hverju var ekki sett inn í ákv. til brb. nr. III einhver metratala? Það var spurt: Ætti umhvn. að setja inn einhverja metra?

Ég verð að viðurkenna að ég skoðaði þetta atriði svolítið: Á að setja inn einhverja metra? Í ákv. til brb. III standa engir metrar, það stendur bara að það sé, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, unnt að hækka stífluna. Það hefði verið hægt að setja inn að unnt væri að hækka stífluna um allt að 12 metra, allt að 10 metra, allt að einhverjum öðrum tilgreindum metrum. Ég sé ekkert faglegt á bak við það. Af hverju ætti að setja inn einhverja tölu? Það er ekkert faglegt á bak við þá tölu.

Sumir heimamenn töldu að það væri mjög leiðandi ef það væri sett inn metratala, ef það stæði ,,allt að 10 metrum``, ,,allt að 12 metrum``, væri nánast eins og þingið væri að segja að það væri eiginlega það sem væri stefnt að. En það er alls ekki svo, alla vega hef ég ekki viljað hafa áhrif á það hvernig menn ræða saman og um hvaða metratölur. Ég tel að það sé ekki okkar hlutverk á þessu stigi, heldur eigi menn að ræða þetta í fullri vinsemd á milli heimamanna, Landsvirkjunar og Umhverfisstofnunar --- hún þarf auðvitað að taka afstöðu eftir að umhverfismatið hefur farið fram --- þá kemur sú útfærsla í ljós sem menn geta talið sig ná sátt um. Þess vegna voru engir metrar tilgreindir í ákv. til brb.

Eins og hefur verið rakið í umræðunni er málið mjög torsótt fyrir Landsvirkjun, þó að sumir þingmenn hafi látið líta svo út að það sé verið að opna þetta allt upp á gátt og þetta verði auðveldur eftirleikur o.s.frv. Það er ekki þannig. Þetta er mjög torsótt mál. Það er viðkvæmt, það er líka hægt að gera það miklu viðkvæmara ef menn vilja efna til slíks, en ég ber fullt traust til aðila og miðað við hvernig ég skynjaði heimamenn tel ég að það séu verulegar líkur á því að menn nái saman.

Það er m.a. vegna þess hvernig ferlið er hugsað. Það þarf að meta umhverfisáhrifin og menn meta ekki umhverfis\-áhrifin af framkvæmd sem er ólíklegt að sátt náist um. Það væri mikið glapræði ef Landsvirkjun mundi gera það. Að sjálfsögðu hlýtur Landsvirkjun að átta sig á þeirri stöðu, enda eru þeir að tala núna um allt aðra útfærslu en 10--12 metra við heimamenn.

Eftir að umhverfismat hefur farið fram þar sem umhverfisáhrifin eru metin þarf landeigendafélagið --- eigi einhvers konar útfærsla að verða að veruleika --- að vera sátt við framkvæmdina og leyfa hana, styðja hana. Ég ber fullt traust til þeirra að þeir muni skoða það mál og hafa til grundvallar þau atriði sem þeir hafa haft áhyggjur af, aðallega verndarhagsmunum, eins og ég hef skilið þá.

Í fjórða lagi þarf Umhverfisstofnun að veita leyfi fyrir framkvæmdinni og einnig öðrum framkvæmdum á svæðinu. Þetta svæði er mjög sérstakt gagnvart lögum því að Umhverfisstofnun þarf að veita leyfi fyrir framkvæmdum. Það er ekki þannig með flest önnur svæði á Íslandi, en það gildir samkvæmt lögum um þetta svæði. Umhverfisstofnun hefur að sjálfsögðu umhverfismatið til hliðsjónar en er ekki bundin af matinu, hún er alveg sértækur leyfisveitandi. Ég býst þó við því að umhverfismatið muni hafa veruleg áhrif á Umhverfisstofnun.

Síðan þarf sveitarfélagið að gefa út framkvæmdaleyfi.

Þetta er því torsótt mál og ekki hægt að ná því fram nema með víðtækri sátt. Ég tel að menn hafi talað hér á þeim nótum að það væri hægt að fara í hækkun með mjög auðveldum hætti, en það er ekki þannig.

Það hefur verið komið inn á þann möguleika hérna hvort hægt sé að klippa málið í tvennt. Er hægt --- eins og hefur verið meginviðfangsefnið sem ég hef verið upptekin af --- að skoða umhverfisáhrifin? Mér finnst mjög erfitt að ræða um þetta mál sem umhvrh. af því að ég veit ekki hver umhverfisáhrifin eru, þau hafa ekki verið skoðuð og það er ekki heldur búið að ákveða útfærslu til að skoða. Þess vegna er ég mjög hrifin af því að við skoðum umhverfisáhrifin.

Er hægt að gera bara það og taka síðar annað skref, þ.e. að þingið mundi samþykkja útfærslu sem heimamenn, Landsvirkjun og hugsanlega Umhverfisstofnun hefðu sameiginlega fallist á þannig að Alþingi ætti síðasta orðið en ekki heimamenn, Umhverfisstofnun og sveitarfélagið í samstarfi við Landsvirkjun? Mér finnst mjög sérstakt að koma því þannig fyrir. Mér finnst órökrétt að heimila umhverfismat á framkvæmd sem ekki er heimiluð, sem er faktískt ólöglegt samkvæmt gildandi lögum. Mér finnst það lýsa því viðhorfi að menn treysti því ekki að þessir aðilar geti náð saman í sátt og hafi ekki trú á því. Mér finnst þetta samt hugmynd sem menn ættu að skoða í umhvn. Aðalatriðið af minni hálfu hefur verið það að mér finnst að það eigi að vera hægt að skoða möguleika á svona útfærslu. Ég hef skilið þetta þannig að eðlilegt væri að menn gætu klárað það mál með öllum þeim girðingum sem hér hefur verið lýst án þess að þingið kæmi að því aftur. En vilji menn skoða það að klippa málið í tvennt og telja að það sé eitthvað til bóta, sem ég er ekki sannfærð um, verða menn að skoða það í umhvn.

Málið er viðkvæmt og alls ekki hugsað þannig, alla vega ekki af minni hálfu, að það eigi að koma heimamönnum í einhvers konar erfiðleika, alls ekki, þeir hafa neitunarvaldið. Ég veit að þeir þurfa að ræða þetta mjög mikið núna, enda talsverðir erfiðleikar í rekstri virkjunarinnar. Frv. er alls ekki hugsað þannig af minni hálfu að það eigi að koma þeim í nokkra erfiðleika, heldur á það að opna fyrir umhverfismatið, láta það fara fram þannig að við getum séð umhverfisáhrifin, menn nái saman um útfærslur og menn gætu klárað einhvers konar útfærslu, hækkun á stíflunni sem er ekki há. Ég held að það sé algerlega útilokað að stífluhækkunin verði há. Það mundi enginn fallast á það, en eftir breytingarnar stæðu lögin ekki í vegi fyrir slíkri lausn. Eins og lögin eru núna þá standa þau í vegi fyrir slíkri lausn.

Hæstv. forseti. Þannig er þetta mál hugsað af minni hálfu og ég vænti þess að umhverfisnefndin, í ljósi þess hvernig málið er vaxið, muni skoða það vel í sínu nefndarstarfi.