Verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu

Þriðjudaginn 24. febrúar 2004, kl. 17:37:14 (4581)

2004-02-24 17:37:14# 130. lþ. 70.3 fundur 564. mál: #A verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu# (heildarlög) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 130. lþ.

[17:37]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Frú forseti. Ég tel út af fyrir sig að í þessari umræðu hafi málið þokast áleiðis, að málið hafi opnast hvað varðar störf hv. umhvn. Það er í sjálfu sér þakkarvert. Sömuleiðis óskaði formaður iðnn. eftir því að iðnn. tæki þann þátt málsins að sér sem snýr að raforkuöflun, færi yfir hann og yfirheyrði Landsvirkjun, og það held ég að sé sömuleiðis mjög þarft. Landsvirkjun verði þá gert að leggja spilin á borðið hvað varðar rekstrarforsendur þessarar virkjunar og þá erfiðleika sem þarna er við að etja þannig að það liggi allt saman fyrir en sé ekki rætt í einhverjum véfréttarstíl.

Eitt er að mínu mati alveg ljóst. Þurfi að ljúka máli í samkomulagi á ekki að byrja á því að segja sundur friðinn. Er það ekki nokkuð augljóst, frú forseti, að það er ekki gæfulegt upphaf að máli sem er þannig um búið í lögum að menn komast ekkert áfram nema ná samkomulagi að lokum? Þá er ekki gæfulegt upphaf að fara af stað með málið á þann hátt sem veldur grenjandi ágreiningi. Það liggur fyrir að ef þetta ákvæði til bráðabirgða III verður lögfest fer út úr lögunum það bann sem þar er gegn því að hækka vatnsborðið. Því eru landeigendur andvígir, samanber ályktun þeirra frá því núna um miðjan febrúar. Það liggur fyrir. Verður þá ekki hæstv. umhvrh. að viðurkenna, horfast í augu við það, að það er ekki gæfulegt upphaf á málinu að segja sundur friðinn við þá sem þarf síðan að ná samkomulagi við ef menn ætla að komast lönd eða strönd? Hvers konar vitleysa er þetta þá orðið?

Auðvitað á að taka ákvæðið út. Ef það er til þess fallið að ná aftur samkomulags- og samvinnuandrúmslofti upp í samskiptum við aðila geta menn haldið áfram að vinna heimavinnuna sína, reynt að koma sér saman, rannsakað áhrif þeirra mögulegu aðgerða sem samkomulag kann að takast um og þá er tímabært að koma með málið að nýju fyrir þingið.