Verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu

Þriðjudaginn 24. febrúar 2004, kl. 18:01:30 (4584)

2004-02-24 18:01:30# 130. lþ. 70.3 fundur 564. mál: #A verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu# (heildarlög) frv., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 130. lþ.

[18:01]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég taldi mig í ræðu minni áðan hafa reynt að svara því helsta sem til mín var beint. Það er leitt ef hv. þm. telur að svo sé ekki. En mér fannst ekki alveg við hæfi að hv. þm. væri að líkja manni við ónefnda dýrategund. Mér finnst að hv. þm. geti aðeins reynt að gæta betur að orðavali í ræðum á Alþingi.

Hv. þm. spyr: Hvaða brýnu hagsmunir liggja að baki? Það hefur margoft komið fram í þessu máli að það eru rekstrarerfiðleikarnir hjá Landsvirkjun. Það liggur að baki en ekki verndun og ræktun eins og stendur í lögunum að megi veita heimildir til að fara í á svæðinu. Það er margoft búið að fara yfir það. Mér skilst að málið snúist m.a. um endurnýjun á búnaði. Vélarnar eru að eldast, m.a. út af þessum erfiðleikum með sand og ekki bara sand heldur líka með grjót og ís. Það kostar um eða yfir 700 millj. kr. að endurnýja búnaðinn. Menn telja mjög hæpið að fara í það nema menn geti tekist á við þennan rekstrarvanda, þetta mikla slit sem verður á vélunum.

Síðan spurði hv. þm.: Hvaða ákvæði er þetta sem bannar rannsóknir o.s.frv.? Ég býst við að hægt sé að fara í alls konar rannsóknir þarna, að vísu þarf sjálfsagt leyfi Umhverfisstofnunar til. En það þarf miklu meira en rannsóknir á sandinum eins og hér var verið að tilgreina. Það þarf líka að leysa þessi ís- og grjótvandamál, ef menn vilja leysa þau. Það þyrfti að gerast með umhverfismati. Að mínu mati þyrftu rannsóknir að fara fram á þeim forsendum ef menn ætla að standa með eðlilegum hætti að því að leyfa einhvers konar hækkun á þessari stíflu. Þá finnst mér eðlilegt að það sé gert í hefðbundnu umhverfismati og menn geti skoðað það með allt uppi á borðinu.

Hv. þm. spyr: Af hverju mega ekki menn ræða í friði? Jú, menn mega ræða í friði. Þeir eru að því og gera það í friði. En samkvæmt ákvæðinu mættu menn líka klára málið ef víðtæk sátt næst.