Verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu

Þriðjudaginn 24. febrúar 2004, kl. 18:05:39 (4586)

2004-02-24 18:05:39# 130. lþ. 70.3 fundur 564. mál: #A verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu# (heildarlög) frv., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 130. lþ.

[18:05]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ef þetta er afstaða Samf. þá hef ég eitthvað misskilið hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur. Hún talaði um að það ætti ekki að hækka þessa stíflu, þar væru ákveðin mörk sem menn drægju í náttúruvernd á Íslandi og ætti hreinlega ekki að hækka stífluna.

Varðandi þessar tölur um rekstur á virkjuninni þá eru þær ekki upphæðir sem maður heyrir nefndar hér á göngunum. Það er ekki þannig. Í þeim gögnum sem ég hef frá Landsvirkjun kemur fram að það kostar 700 millj. kr. eða meira að fjárfesta í nýjum búnaði og hagnaður af rekstri Laxárstöðva er núna tæpar 10 millj. kr. á ári. Það er mat fyrirtækisins að óbreyttur rekstur stöðvanna í Laxá réttlæti tæplega stór fjárútlát.

Þetta er staðan. Það er það sem liggur að baki þessu máli. Menn vilja skoða hvort hægt er að fara í einhverja útfærslu sem sátt næst um, m.a. vegna takmarkaðra umhverfisáhrifa, þannig að ekki þurfi að koma til hugsanlegrar lokunar á þessari stöð.

Virkjunin hefur auðvitað sitt að segja í samfélaginu á þessu svæði eins og hér hefur margoft komið fram í umræðunni. Hún er mikilvæg á svæðinu. Mér finnst eðlilegt að skoða hvort þetta sé hægt. Ef þetta er ekki hægt þá fara menn ekki í neinar breytingar. En þá getur líka vel verið að stöðinni verði lokað. Það verður þá bara að hafa það, eins og hér hefur komið fram. En með bráðabirgðaákvæðinu er verið að opna möguleikana á umhverfismati og á að menn klári það ef sátt næst milli aðila.