Erlendar starfsmannaleigur

Þriðjudaginn 24. febrúar 2004, kl. 18:23:18 (4591)

2004-02-24 18:23:18# 130. lþ. 70.5 fundur 125. mál: #A erlendar starfsmannaleigur# þál., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 130. lþ.

[18:23]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég kem hingað fyrst og fremst til að lýsa mjög eindregnum stuðningi við þetta þingmál. Eins og fram kom í máli hv. frsm. Marðar Árnasonar gilda engin lög um starfsmannaleigur á Íslandi en í grg. þingmálsins segir á þá leið að brýnt sé að samþykkja lög sem reisa viðunandi skorður við starfsemi slíkra fyrirtækja hið fyrsta. Undir það tek ég.

Þáltill. vísar til tvenns. Í fyrsta lagi að tryggja að erlendir starfsmenn sem koma á vegum starfsmannaleigna til starfa á Íslandi njóti í hvívetna sambærilegra réttinda og Íslendingar á vinnumarkaði og í öðru lagi að koma í veg fyrir dulin undirboð á vinnumarkaði og tryggja þannig samkeppnisstöðu.

Ég tel brýnt að í umfjöllun nefndar verði hugað að þriðja atriðinu sem lýtur að skattamálum, skattskilum, að tekið verði af skarið um skattskyldu starfsmannaleigna og skilaskyldu á frádregnum opinberum gjöldum starfsmannaleignanna.

Að öðru leyti vil ég gera orð hv. frsm. að mínum. Það er ljóst að ástæðan fyrir því að þingmálið er komið fram er tvíþætt: Annars vegar stöndum við frammi fyrir alþjóðavæðingu sem gerir vinnuaflið hreyfanlegra en það hefur verið áður og mikilvægt að lagaramminn sem gildir þar um sé skýr. Hins vegar eru það atburðir við Kárahnjúka, framferði ítalska eða fjölþjóðlega fyrirtækisins Impregilo og dótturfyrirtækja og viðskiptavina þess fyrirtækis sem hefur vægast sagt vafasaman feril í samskiptum við verkalýðshreyfinguna í ýmsum ríkjum.

Verkalýðshreyfingin á Íslandi hefur lýst þeirri skoðun sinni að brýnt sé að festa í lög ákvæði um starfsemi starfsmannaleigna og er vísað í samþykkt miðstjórnar ASÍ í fylgiskjali með þáltill. Ég get upplýst að BSRB hefur einnig samþykkt ályktun af svipuðum toga og hvatt Alþingi til að lögfesta ákvæði af þessu tagi.