Erlendar starfsmannaleigur

Þriðjudaginn 24. febrúar 2004, kl. 18:26:37 (4592)

2004-02-24 18:26:37# 130. lþ. 70.5 fundur 125. mál: #A erlendar starfsmannaleigur# þál., MÁ
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 130. lþ.

[18:26]

Mörður Árnason:

Forseti. Ég þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni fyrir afar jákvæðar undirtektir sem þó koma ekki á óvart miðað við bakgrunn hv. þm. og málflutning hans að öðru leyti.

Eins og sést á málsnúmerinu var þáltill. lögð fram snemma á þinginu, áður en upp komst um þau skattamál sem virðast enn einn fylgifiskur þessara miklu en harla óundirbúnu og flausturslegu framkvæmda við Kárahnjúka. Það er sjálfsagt að félmn. skoði hvort taka eigi inn skattaþáttinn.

Málið er í heild sinni partur af enn þá stærra máli, þeim nýja alþjóðavædda heimi sem við erum að ganga í. Ég er einn af þeim sem telja að ekki sé ástæða til að fara aftur á bak úr þeim heimi heldur verðum við að fleygja okkur áfram. Við skulum samt fram, þannig að vitnað sé í vinsælt skáld þessa dagana, en við eigum að leysa vandamál. Við eigum ekki fortakslaust að taka við öllu sem að okkur er rétt í krafti þess að um nýjungar sé að ræða heldur eigum við að leysa þann vanda sem fylgir óhjákvæmilega nýjum tímum. Einn sá vandi er að meðan við fríverslunarmenn viljum að landamæri séu sem galopnust með vöru, þjónustu, vinnuafl og fjármagn verður líka að gera ráð fyrir því að aðstæður séu þannig í löndunum að ekki halli á samkeppnisstöðu og að við getum borið höfuðið hátt í þeim samfélögum sem þó eru komin eins langt og okkar gagnvart fólki úr öðrum heimshornum.

Aðeins þetta um leið og ég þakka fyrir stuðninginn og vænti þess að hann verði almennur á þinginu.