Almenn hegningarlög

Þriðjudaginn 24. febrúar 2004, kl. 18:30:31 (4593)

2004-02-24 18:30:31# 130. lþ. 70.6 fundur 247. mál: #A almenn hegningarlög# (reynslulausn fanga) frv., Flm. EKG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 130. lþ.

[18:30]

Flm. (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19 frá 12. febrúar 1940, sem fjallar um reynslulausn. Frv. var flutt fyrst á 127. löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu þá. Það var endurflutt á 128. löggjafarþingi en varð því miður ekki afgreitt úr nefnd og þess vegna er það endurflutt á nýjan leik.

Ákvæði um reynslulausn er í 40. gr. almennra hegningarlaga. Þar er m.a. kveðið á um að þegar fangi hefur afplánað tvo þriðju af refsitíma sínum geti Fangelsismálastofnun ákveðið að hann skuli látinn laus til reynslu. Ef sérstaklega stendur á má þó veita reynslulausn þegar liðinn er helmingur refsitímans.

Í reynd er reynslulausnin langoftast veitt út á helminginn, sá sem dæmdur er til tiltekinnar refsivistar er í langflestum tilvikum látinn laus að lokinni helmingsafplánun. Hins vegar er á þessu ein undantekning og hún er sú að ekki má veita reynslulausn þegar, eins og kveðið er á um í lögum, hluti vararefsingar er óskilorðsbundinn en hluti skilorðsbundinn, og þegar fangi afplánar vararefsingu fésektar verður reynslulausn ekki veitt.

Þetta þýðir á mæltu máli að maður sem er dæmdur til tiltekinnar refsingar, fésektar, og fær síðan fangelsisvist sem vararefsingu og getur, m.a. vegna bágs fjárhags, gjaldþrota eða slíkra erfiðleika, ekki greitt sektina sína á ekki nema einn kost. Hann fer í fangelsi. Maður sem gæti verið í sömu stöðu, dæmdur fyrir nákvæmlega sama brot á nákvæmlega sama degi, en hefur fjármuni til þess að greiða sektina fer ekki í fangelsi.

Nú vitum við það auðvitað að frelsi sitt meta menn ekki til fjár. Allir sem eiga völina taka þann kostinn að greiða sektina og losna við frelsissviptinguna. Það er eðlilegt. Frelsisþrá manna er slík og við skiljum það, vitum og virðum. Þess vegna felur í raun og veru þetta ákvæði í sér að verið er að mismuna mönnum á grundvelli efnahags. Sá maður sem kominn er í fangelsi við þessar aðstæður, hefur ekki getað greitt sekt sína og lendir í fangelsinu, er settur undir þá sök að hann á ekki möguleika á reynslulausn. Aðrir þeir sem hljóta dóma, hvort sem það er vegna ofbeldis, fíkniefna, ofbeldis gagnvart börnum eða hvað það er, eiga í flestum tilvikum möguleika á reynslulausn eftir helming afplánunar. Sá einstaklingur sem vegna bágs fjárhags, t.d. eftir gjaldþrot, erfiðleika í fyrirtækjarekstri eða annarra slíkra hremminga, getur ekki greitt sektina sína og tekur út vararefsingu í fangelsi á samkvæmt þessari grein laganna ekki möguleika á því að fá reynslulausn. Þetta er auðvitað gjörsamlega ólíðandi og það frv. sem við hv. þm. Össur Skarphéðinsson höfum nú í þrígang flutt kveður á um það að reyna að brjóta þetta óréttlæti á bak aftur, breyta lögunum og tryggja að mönnum sé ekki mismunað á þessum forsendum.

Umboðsmaður Alþingis hefur fjallað um þessi mál. Vikið er að því í greinargerð frv. og langar mig að fara um það nokkrum orðum. Hann kemst að þeirri niðurstöðu að réttarstaða þeirra sem afplána vararefsingu fésektar sé að öllu jöfnu sú sama og annarra fanga sem sviptir hafa verið frelsi sínu með refsivist. Tilgangur reynslulausnar sé að takmarka andfélagsleg áhrif frelsisskerðingar til lengri tíma og aðstoða fanga í þeim miklu aðlögunarerfiðleikum sem þeirra bíða við lok refsivistar og það geti jafnt átt við um þá menn sem afplána óskilorðsbundinn fangelsisdóm og þá sem sviptir eru frelsi sínu vegna ógreiddrar fésektar. Telur umboðsmaður óeðlilegt að dómur, úrskurður eða sátt um greiðslu fésektar að viðlagðri vararefsingu reynist dómþolum þungbærari ákvörðun en óskilorðsbundin varafangelsisrefsing þar sem fésektir séu vægasta tegund refsinga samkvæmt lögunum. Þetta er ákaflega skýrt.

Á 128. löggjafarþingi var samþykkt þál. um að taka upp endurskoðun á þessu ákvæði sem lýtur að reynslulausn. Það er gott og blessað. Það má vel vera að menn vilji hafa einhverja skoðun á því með hvaða hætti eigi að koma þessu fyrir almennt talað. Það breytir hins vegar engu um það að þetta ákvæði laganna, eins og það er í dag, stingur mjög í stúf við önnur ákvæði varðandi reynslulausnina. Alþingi er að sjálfsögðu ekkert að vanbúnaði að takast á við það að breyta þessum lögum í þá veru sem þetta frv. kveður á um. Það má með miklum rökum taka undir það sem Einar S. Hálfdanarson endurskoðandi og hæstaréttarlögmaður segir í grein í Morgunblaðinu þann 10. október á sl. ári og fylgir með sem fskj. þessa frv. Hann kallar þessar aðstæður í raun og veru skuldafangelsi 21. aldarinnar. Ég held að þetta sé smánarblettur á þjóðfélagi okkar, smánarblettur á þessari löggjöf og við alþingismenn ættum burt séð frá hinum pólitísku víglínum að sameinast um að afnema þetta óréttlæti, breyta lögunum í anda þess frv. sem hér liggur fyrir.