Heilsugæsla í framhaldsskólum

Miðvikudaginn 25. febrúar 2004, kl. 14:21:09 (4627)

2004-02-25 14:21:09# 130. lþ. 72.2 fundur 239. mál: #A heilsugæsla í framhaldsskólum# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., JBjart
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 130. lþ.

[14:21]

Jónína Bjartmarz:

Herra forseti. Ég vil eins og aðrir ræðumenn þakka fyrirspyrjanda fyrir ágæta fyrirspurn. Eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra eru menn að prófa sig áfram eftir ýmsum leiðum með því að vera með sérstakar unglingamóttökur á heilsugæslustöðvunum bæði á höfuðborgarsvæðinu og annars staðar og einnig með því að fara með þessa þjónustu inn í framhaldsskólana sjálfa sem annaðhvort hjúkrunarfræðingar eða læknar sinna.

Skýrsla Rúnars Vilhjálmssonar var nefnd áðan. Þar kemur réttilega fram að unga fólkið nýtir sér heilsugæsluna langverst og einmitt ein af ástæðunum sem þar eru tíndar til er að það leitar ekki inn í þetta hefðbundna umhverfi heldur þvert á móti þurfa að vera úrræði inn í framhaldsskólunum eða sérstakar móttökur á heilsugæslustöðvunum. Eitt af þeim brýnu málum sem við þurfum að koma til móts við er t.d. kynfræðsla og fræðsla um getnaðarvarnir til að spyrna á móti ótímabærum þungunum og ýmsum öðrum kvillum. Ég fagna því sem verið er að gera og þeirri þróun sem núna á sér stað á þessu sviði.