Búsetuúrræði fyrir geðfatlaða

Miðvikudaginn 25. febrúar 2004, kl. 14:53:19 (4642)

2004-02-25 14:53:19# 130. lþ. 72.4 fundur 242. mál: #A búsetuúrræði fyrir geðfatlaða# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 130. lþ.

[14:53]

Félagsmálaráðherra (Árni Magnússon):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda Ástu Möller fyrir að hreyfa þessu þarfa máli.

Á undanförnum árum hefur átt sér stað töluverð umræða meðal fagaðila innan heilbrigðisþjónustunnar og félagsþjónustunnar um á hvern hátt væri hægt að tryggja sem heildstæðasta þjónustu í þágu þeirra sem eru geðsjúkir og geðfatlaðir. Þessir aðilar hafa álitið að almenn heilbrigðisþjónusta, þar með talin geðheilbrigðisþjónusta, eigi að vera aðgengileg öllum þeim sem veikjast af geðsjúkdómum af einhverju tagi. Geðheilbrigðiskerfið hefur staðið frammi fyrir þeim vanda að ekki hefur verið nægjanlegt framboð á þjónustuúrræðum í framhaldi af hefðbundinni meðferð á sjúkrahúsum. Þetta hefur leitt til þess að nokkur fjöldi einstaklinga hefur annaðhvort dvalið lengur á geðdeildum en efni hafa staðið til eða þjónusta við þá úti í samfélaginu hefur ekki verið nægilega mikil til að minnka líkur á endurinnlögnum.

Það hefur einnig, hæstv. forseti, verið mat margra þeirra sem að þessum málum starfa að nokkuð skorti á að til staðar sé nægilega skilvirkt þjónustuferli sem tryggi áframhald samþættrar þjónustu heilbrigðiskerfisins, félagsþjónustunnar og annarra þjónustukerfa, sem gæti stuðlað að auknu heilbrigði og félagslegri færni. Ljóst er að fjöldi þeirra sem útskrifast af geðdeildum þarf oft mikinn stuðning í búsetu og eiga tryggan aðgang að læknum og hjúkrunarliði, t.d. ef til endurtekinna veikinda kemur. Það liggur fyrir að heilbrrn. hefur hafið teymisvinnu sem ætlað er að bregðast við þessum vanda.

Síðari ár hefur umræðan einnig beinst í þá átt að styrkja þjónustu við geðsjúka og geðfatlaða utan stofnana, úti í samfélaginu, þannig að þeir verði eins virkir þátttakendur í lífi og starfi og unnt er. Rannsóknir hafa sýnt fram á að auknar líkur eru á bata ef geðsjúkir njóta tengsla við aðra og eiga aðgang að úrræðum sem geti stuðlað að eflingu þeirra í samfélaginu.

Félmrn. og heilbrrn. hafa að mínu viti gert sér grein fyrir mikilvægi þessa og hafa í sameiningu komið að ýmsum verkefnum sem hafa haft það að markmiði að auka samþættingu þjónustunnar þannig að hún falli betur að þörfum þeirra sem þurfa á henni að halda.

Á vegum félmrn. er til skoðunar á hvern hátt skuli unnið að þróun nýrra úrræða fyrir fatlaða. Hér er um að ræða að búa til úrræði þar sem sérstaklega er litið til hönnunar húsnæðis og bygginga fyrir fatlaða, ásamt skoðun á innihaldi hinnar faglegu vinnu sem unnin er á vettvangi og í aðdraganda að innkomu einstaklinga í þjónustu í búsetu. Í framtíðinni er þannig gert ráð fyrir því að húsnæði fyrir fatlaða geti verið með þrennum hætti.

Í fyrsta lagi verði boðið upp á sérhæfðar íbúðir þar sem skilgreint verði ákveðið lágmarksrými metið út frá þörfum einstaklinganna. Staða þeirra sem hafa mestar þjónustuþarfir kallar á að byggja þarf sérstakar íbúðir fyrir þann hóp. Þó verði því þannig fyrir komið að þær séu eins líkar venjulegum íbúðum og nokkur kostur er. Þessar íbúðir verða t.d. sambyggðar í formi lítilla raðhúsa og njóta þjónustu frá starfsfólki sem staðsett er miðsvæðis með tilliti til annarra íbúða.

Í öðru lagi verði boðið upp á þjónustu fyrir þá sem hafa miðlungsþjónustuþarfir með því að keyptar verði íbúðir í fjölbýlishúsum af ýmsum stærðum og gerðum. Séu þær hlið við hlið eða í þeirri nálægð að hægt sé að veita þjónustu með mjög skömmum fyrirvara. Gert er ráð fyrir að starfsfólk hafi sérstaka aðstöðu í einhverri þeirra íbúða sem mynda þessa kjarna.

Í þriðja lagi verði boðið upp á íbúðir í samvinnu við félagsþjónustu viðkomandi sveitarfélags við þá einstaklinga sem minnstar hafa þjónustuþarfirnar og geta þær verið staðsettar hvar sem þykir henta. Það er gert ráð fyrir að einstaklingar geti flutt á milli íbúða í samræmi við óskir og þarfir. Með þessu fyrirkomulagi er komið á svokölluðu þjónustuneti þar sem aukið svigrúm gefst til að veita þjónustu og tryggja fagmennsku við framkvæmd hennar.

Hæstv. forseti. Hin faglega þjónusta er einnig að taka breytingum. Með meiri þekkingu og færni starfsmanna gefst tækifæri til að veita meiri og innihaldsríkari þjónustu vegna fjölbreyttra þjónustuþarfa. Vonir eru bundnar við að á næstu árum getum við horft fram á betri þjónustu og aukin lífsgæði fyrir alla fatlaða sem þurfa á þjónustu vegna búsetu að halda.

Ég er þeirrar skoðunar að með markvissri stefnumótun í búsetumálum hvað varðar húsnæðið sjálft og þá þjónustu sem veitt er, getum við horft til enn frekara samstarfs við Landspítala -- háskólasjúkrahús, aðrar sjúkrastofnanir og félagsþjónustu ríkis og sveitarfélaga þar sem geðfötluðum yrði boðin þjónusta. Það er ljóst að hópur þeirra sem nú dvelst á geðsjúkrahúsum og í öðrum úrræðum innan geðheilbrigðisþjónustunnar gæti með eftirfylgd og samstarfi við heilbrigðisþjónustu átt tækifæri til frekari þátttöku í samfélaginu.

Þess ber að lokum að geta að úti á vettvangi er regluleg umræða á milli Landspítala -- háskólasjúkrahúss, annarra sjúkrastofnana og félagsþjónustu ríkis og sveitarfélaga þar sem reynt er að finna þau úrræði sem best eru talin henta hverju sinni. Ég vil styrkja það samstarf og setja í formlegri farveg þannig að þeir sem þurfa á þjónustu að halda geti fengið hana með heildstæðum og skilvirkum hætti.

Ég lýsi mig, hæstv. forseti, tilbúinn að leggja mitt af mörkum til frekari skoðunar á stöðu geðfatlaðra sem dvelja á sjúkrastofnunum með tilliti til möguleika þeirra til fjölbreyttari búsetu og aukinna lífsgæða.