Raforka við Skjálfanda

Miðvikudaginn 25. febrúar 2004, kl. 15:37:57 (4660)

2004-02-25 15:37:57# 130. lþ. 72.8 fundur 537. mál: #A raforka við Skjálfanda# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., Fyrirspyrjandi MÁ
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 130. lþ.

[15:37]

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason):

Forseti. Ég þakka hæstv. iðnrh. fyrir svarið og tek því þannig að hún hafi engar sérstakar áhyggjur af þessu máli, tengingunni við Húsavík og aðrar byggðir við þennan flóa. Það er merkilegt í þeirri umræðu sem fram fer þessa dagana um nauðsyn stífluhækkunar í Laxá. Í riti frá því í sumar, 26. júní 2003, sem heitir Laxárstöðvar -- inntakslón ofan Laxárstöðva, tillaga um matsáætlun, drög, stendur þetta á síðu 3--4 undir fyrirsögninni Tilgangur í lið 1.1., með leyfi forseta:

,,Í Laxá er mikill sandburður sem veldur óeðlilega miklu sliti á vatnsvélum. Í miklum umhleypingum að vetri til myndast einnig ís- og krapastíflur við inntakið með þeim afleiðingum að rennsli um Laxárstöðvar minnkar. Slíkt ástand getur oft varað dögum saman og skapað óvissu um afhendingu raforku á Húsavík og í nærsveitum. Ástæða þess er sú að þetta svæði fær rafmagn frá Laxárstöðvum og einungis gamla línan frá virkjuninni til Akureyrar tengist landskerfinu. Ef saman færi bilun þeirrar línu, sem stundum gerist, og truflanir á raforkuframleiðslu í Laxá, þá gætu Húsavík og nágrannabyggðir búið við orkuskort í lengri tíma.``

Síðan segir, með leyfi forseta:

,,Til þess að stemma stigu við þessu vandamáli hefur Landsvirkjun gert áætlun um að reisa nýja stíflu efst í Laxárgljúfri í stað núverandi stíflu.``

Landsvirkjun hyggst gera þessa stíflu af tveimur ástæðum samkvæmt því sem tekið er fram í þessu riti, annars vegar vegna mikils sandburðar og hins vegar vegna ís- og krapastíflna sem skapa óvissu um afhendingu um raforku á Húsavík og nærsveitum. Og mér sýnist að eftir þetta svar iðnrh. sé þessi síðari ástæða Landsvirkjunar fyrir málinu fallin, a.m.k. að mati hæstv. iðnrh., og ég fagna þeirri niðurstöðu.