Raforka við Skjálfanda

Miðvikudaginn 25. febrúar 2004, kl. 15:39:59 (4661)

2004-02-25 15:39:59# 130. lþ. 72.8 fundur 537. mál: #A raforka við Skjálfanda# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 130. lþ.

[15:39]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Mér þykir hv. þm. nokkuð fljótur að draga ályktanir þegar hann tengir þetta saman á þennan hátt. Aðalatriði málsins er það sem kom fram í svari mínu hvað varðar línuna til Húsavíkur, sem sagt að tengja Húsavík við landskerfið. Samkvæmt þeim tillögum sem nú liggja fyrir í nítjánmannanefndinni um nýtt flutningskerfi og hvernig það skuli vera í laginu verður þessi lína hluti af flutningskerfinu, hluti af þeim línum sem flutningsfyrirtækið kemur til með að reka og það er eiginlega svarið við spurningunni.

Hvað varðar hins vegar stíflur eða krap í Laxá get ég sagt hv. þm. að ég upplifði æðioft rafmagnsleysi í bernsku minni vegna þess að það var krap í Laxá. Í raun hefur sú virkjun aldrei skilað því sem hún upphaflega átti að gera. Nú eru uppi hugmyndir um að fara a.m.k. í þá vinnu sem nauðsynleg er til að átta sig á hvaða framtíð sú virkjun getur átt, hvort hún hugsanlega eigi ekki framtíð --- það er einn möguleiki --- eða hvort hægt sé að bæta þannig ástandið hvað varðar sandburð til virkjunarinnar að samkomulag geti náðst um einhverja hækkun á stíflunni og þá kannski með þeirri viðbót að ofar yrði tekinn sandur í gildru sem væri þá mikilvægt umhverfismál. Það er áhersluatriði frá mörgum á þessu svæði að þannig verði tekið á málinu en ekki hinn kosturinn að loka eða hætta þessari raforkuframleiðslu sem er þó vissulega möguleiki.