Samkomudagur Alþingis og starfstími þess

Mánudaginn 01. mars 2004, kl. 16:58:20 (4710)

2004-03-01 16:58:20# 130. lþ. 73.5 fundur 147. mál: #A samkomudagur Alþingis og starfstími þess# frv., Flm. RG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 130. lþ.

[16:58]

Flm. (Rannveig Guðmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um samkomudag Alþingis og starfstíma þess. Flutningsmaður ásamt mér er hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir, þingmaður Samf.

Í frv. felst að Alþingi komi saman 15. september og sitji til 15. júní.

Herra forseti. Frv. þetta var lagt fram 13. október. Jólahlé stóð frá 15. desember til 28. janúar, þ.e. í 43 daga. Þingtíminn fyrir jól náði yfir 75 daga frá samkomudegi til jólahlés og þingtími til vors verður um 100 dagar. Þá tekur sumarhlé við og að þessu sinni vantar aðeins viku upp á að það nái fimm mánuðum.

Þingtímabilið er afar stutt miðað við þau miklu verkefni sem Alþingi fæst við í dag. Að undanförnu hafa verið umræður um fjölda þingmannamála og verið rætt um að hemja á einhvern hátt umræðuna um þau. Þau þykja taka tíma frá meira áríðandi málum í þinginu. Allt að 37 þingmannamál hafa verið sett á dagskrá á einum og sama degi. Það eru skilaboð um að þessum málum þurfi helst að hespa af. Það er líka undantekning að þau séu samþykkt. Í þessu umhverfi mæli ég fyrir frv. okkar Bryndísar Hlöðversdóttur um starfstíma Alþingis.

Lengdur starfstími er grunnur að breytingum og nýjum starfsháttum þingsins. Verði þetta frv. að lögum mun forsn. endurskoða starfsáætlun Alþingis. Ég sé fyrir mér að skoðað verði hvað hefur reynst vel í skipulagi hjá öðrum þingum og hvað þróun þingstarfa kallar helst á varðandi breytingar.

[17:00]

Sums staðar er þetta með allt öðrum hætti. Ég þekki til þar sem þing er ekki haldið á mánudögum þannig að helgin auk mánudagsins nýtist fyrir þá sem búa utan höfuðborgarinnar. Þingdagar og nefndadagar skiptast þá á í einhverjum hlutföllum sem eðlilegt þykir eða að ein vika sé þinghlé og þrjár vikur þingvinna. Í þessari einu viku í hverjum mánuði væri þá unnt að fara í kjördæmin, lesa skýrslur, lesa frumvörp, stjórnarfrumvörp sem á að vinna með eða þau verkefni sem bíða í nefndunum og aldrei er nægur tími til að sinna. Það er mikilvægt hvernig sem þessu yrði háttað að vinnulag yrði með þeim hætti að tími yrði til yfirferða mála, lesturs efnis og þingvinnunnar.

Með frv. er sem sagt lagt til að starfstími Alþingis verði lengdur, bæði að hausti og að vori. Haustþing hefjist hálfum mánuði fyrr en nú er, 15. september í stað 1. október, og þingstörfum á vorþingi ljúki um miðjan júní, í stað miðs maímánaðar eins og verið hefur að jafnaði undanfarin ár, en eins og fram hefur komið munum við hætta í ár enn fyrr. Með samþykkt frv. færum við starfstímann á Alþingi nær því sem viðgengst annars staðar á Norðurlöndunum enda eru verkefni okkar þinga mjög sambærileg. Máli mínu til stuðnings vil ég fara yfir það hvernig þinghaldið er í þessum fimm löndum sem bera sig svo mikið saman.

Á Íslandi kemur þing saman fyrsta virkan dag eftir 1. október og stendur og hefur staðið fram undir miðjan maí, nú til 6. maí. Tillagan er að við byrjum 15. september og höldum áfram fram undir 17. júní, eða til 16. júní.

Í Noregi er þinghlé um það bil frá 20. júní og fram til loka september. Í Svíþjóð stendur þingtíminn frá 16. september til 17. júní, í Danmörku frá því fyrsta þriðjudag í október til 5. júní og í Finnlandi frá fyrsta þriðjudegi í september til um það bil 20. júní. Algengt er að jólahlé sé tvær til þrjár vikur. Í Noregi er jólahlé um það bil 14 dagar og svipað hlé er um páska.

Alþingismenn njóta fullra launa allt árið núorðið og þingmennska er fullt starf þeirra allra, eða nær allra, nú orðið. Áður fyrr fengu alþingismenn dagpeninga fyrir þann tíma sem Alþingi starfaði, og jafnframt var það svo um þorra alþingismanna að þeir gegndu öðrum störfum samhliða þingmennsku. Starfstími Alþingis var eigi að síður orðinn sá sem hann er nú, þ.e. frá því í október og fram í maí. Hefur svo verið í meginatriðum frá stríðslokum. Í seinni tíð hafa breytingar orðið á starfskjörum alþingismanna sem taka mið af auknum verkefnum þeirra. Alþingismenn hafa notið fastra launa allt árið frá 1964 og frá því um 1970 hafa stöðugt færri alþingismenn gegnt störfum samhliða þingmennsku, a.m.k. yfir þingtímann. Því má segja að starfstími Alþingis hafi ekki fylgt þeim breytingum sem annars hafa orðið á starfskjörum og starfsháttum þingmanna.

Þó ég hafi dregið athyglina að því í upphafi máls míns hvað þingmannamálin eigi undir högg að sækja á Alþingi þá er ekki beinlínis stefnt að því með þessu frv. að fjölga þingfundum eða lengja þá, þó það fari að sjálfsögðu eftir ástandi í þinginu á hverjum tíma, heldur miklu fremur að gefa þinginu rýmri tíma til að fjalla um mál, ekki síst í nefndum þingsins.

Mér er fullkomlega ljóst og hef sagt það hvar sem ég hef komið og rætt um Alþingi að þingmenn eru að störfum þó það sé sumarhlé eða jólahlé. Þingmenn vinna að undirbúningi mála sinna mikinn hluta janúarmánaðar. Þingmenn vinna einnig að undirbúningi mála, fara yfir skýrslur, vinna úr því sem hefur verið unnið með yfir veturinn í sumarhléi. En það er eðlilegra að dreifa ólíkum starfsháttum þingmanna á lengri tíma eins og hér er lagt til.

Með breyttum þingtíma gæfist forsn. Alþingis meira svigrúm til að skipuleggja þinghaldið og tryggja ásættanlega umfjöllun allra þingmála, líka þingmannamála eins og ég nefndi hér í upphafi. Með því fyrirkomulagi sem nú viðgengst tekur langan tíma að fá þingmannamál á dagskrá. Þau eru seint og illa skoðuð í nefnd og enn erfiðara er að fá þau afgreidd. Ætla má að aflétt yrði þeim þrýstingi sem oft er á afgreiðslu stjórnarfrumvarpa þeirra sem koma seint fram en afgreiða á fyrir þinglok.

Það er afar slæmt hve lítill tími gefst oft til að skoða stjórnarfrumvörp áður en þau eru tekin á dagskrá og reynslan sýnir að þegar loksins kemur að nefndadögum þá þarf nefndarformaður að keyra yfirferðina áfram oft til mikils vansa fyrir þingið gagnvart því fólki sem kemur á nefndarfundi, jafnvel utan af landi, til að fjalla um og varpa ljósi á þau mál sem eru til umfjöllunar.

Oft er það nefnt í sambandi við þessi mál að þar sem þingið stendur í orði allt árið sé nú einfalt að kalla okkur til þings ef með þarf. En það er bara ekki gert. Fundir nefnda sem koma einstöku sinnum upp að sumri eru nær alltaf boðaðir að ósk stjórnarandstöðu vegna mála sem verða heit úti í samfélaginu og vegna mála sem stjórnvöld setja á dagskrá. Eina tækifæri þingmanna er þá að óska eftir að viðkomandi nefnd komi saman til þess að skoða málin með þeim pólitísku augum sem þingmönnum er ætlað að vinna þau.

Ég minnist þess þó þegar EES-samningurinn var til vinnslu að þá var unnið allt sumarið í nefnd og þingið var kallað saman í ágúst. En það þarf mál af þeirri stærðargráðu til þess að þingið verði virkt allt árið eins og viljinn stóð til þegar breytingin var gerð. Hins vegar hafa orðið breytingar í þinginu síðan árið 1991 þegar þingið var sett í eina málstofu. Jákvæðar breytingar hafa orðið á þingsköpum, t.d. var bundinn ræðutími í 1. umr. og þó átök væru um það á sínum tíma leikur enginn vafi á því í mínum huga að það var til góðs. Teknar voru upp stuttar utandagskrárumræður, hálftíma umræður sem hafa í raun tekið við af þeim utandagskrárumræðum sem getið er um í þingsköpum. Þá voru teknir upp þessir liðir sem eru mjög mikið notaðir af þingmönnum, þ.e. um störf þingsins og fundarstjórn forseta. Allt hefur þetta orðið til þess að gera þinghald lipurra og gefa þingmönnum fleiri möguleika á því að taka upp ólík mál við forseta þingsins eða taka upp þar gagnrýni á eitthvað sem fram hefur komið og varðar framkvæmdarvaldið.

Einnig hefur gefist vel að taka upp sérstaka nefndadaga þó mér finnist að þar hefði mátt halda betur á málum og gera þinghaldið lipurra. En ég geri mér grein fyrir því að rætur þessa liggja m.a. í því hve óreglulega stjórnarfrumvörpin koma fram. Oft hefur verið reiknað með að stjórnarfrumvörp væru löngu komin fram þegar nefndadagar voru ákveðnir en svo hefur ekki reynst.

Kjördæmavikan hefur líka verið góð til yfirferðar. Með þeirri tillögu sem sett er fram í frv. okkar mundi vera hægt að hafa fleiri kjördæmavikur yfir veturinn, fleiri þinghlé þar sem þingmenn geta farið um landið og út í kjördæmin. Við skulum gera okkur grein fyrir því að sú breyting sem var gerð á kjördæmaskipan er í raun fyrsta vers í því að gera landið að einu kjördæmi og að þingmenn vinni saman að því að fara um landið til að hlusta á sjónarmið almennings og kynna mál sem eru á dagskrá í þinginu.

Það eru mér mikil vonbrigði að ekki skuli hafa verið gengið lengra og haldið áfram með að vinna við þingsköpin frá því veturinn 1998--1999 þegar þingflokksformenn unnu með frv. að breytingum á þingsköpum sem forsetar Alþingis undir stjórn Ólafs G. Einarssonar fluttu þá. Þá voru margar þýðingarmiklar breytingar lagðar til sem hefðu gert þinghaldið lipurra. Skiptar skoðanir voru um einstakar tillögur en mikil eining um aðrar. Ég var alveg viss um það þá að við mundum ná saman um nokkrar þýðingarmiklar breytingar. En á síðustu dögum þingsins var öllu sópað út af borðinu af hálfu stjórnarmeirihlutans og þau mál hafa ekki verið tekin upp á borðið aftur. Það er status quo í þeim málum og þrátt fyrir góðar umræður og ýmsar hugmyndir hefur ekkert gerst í vinnu við þingsköpin.

Ég get ekki stillt mig um það, af því það tengist því máli sem hér er í frumvarpsformi, að nefna að þær hugmyndir sem þá voru uppi um skiptingu málaflokka, um breytingu á nefndum, um fækkun þingmanna í nefndum og að þeir yrðu þá í færri nefndum, um að kjósa varamenn í nefndir, að setja ræðutíma frekari skorður og nokkur sátt var um það þá að gera tilraun með að setja skorður við 3. umr., um að tryggja rétt minni hluta m.a. til að fá mál á dagskrá nefnda, að styrkja rannsóknarvald þingsins og að þrengja þann tíma sem heimilt væri að leggja fram frumvörp. Beindist það fyrst og fremst til ráðherra af því þeir koma oft fram með öll frumvörpin sín á síðustu stundu sem leyfð er. Þarna var miðað við að þinginu lyki í lok maí og að frumvörpin yrðu að vera komin fram í febrúar. Svo voru hugmyndir um að ráðherra hefði ekki síðasta orðið í fyrirspurnum og utandagskrárumræðum og að allir þingmenn fengju að mæla fyrir máli sínu innan mánaðar.

Aðeins þessi upptalning, þessi stutta upptalning mín, herra forseti, segir öllum sem þekkja þinghaldið í dag hversu miklu lipurra þingið væri ef þessar tillögur hefðu náð fram að ganga á sínum tíma og við værum eins og önnur þing að þróa vinnubrögð okkar.

Herra forseti. Engin sérstök rök eru fyrir því að Alþingi skammti sér svo nauman tíma sem raun ber vitni til að fjalla um og afgreiða þau liðlega 100 frumvörp og 20--30 ályktanir sem venja hefur verið hingað til. Með breyttu fyrirkomulagi gefst jafnframt rýmri tími til umfjöllunar um fjárlagafrumvarpið og aukið svigrúm til afgreiðslu þeirra þingmála sem kunna að fylgja því. Með því að dreifa þingfundum á lengri tíma yfir veturinn og skipuleggja störf þingsins með nýjum hætti væri í senn hægt að gefa sér betri tíma til að athuga mál, svo og til að gefa þingmönnum rýmri tíma og skipulegri til að hafa samband við kjósendur, ferðast um kjördæmin og halda fundi m.a. meðan þing situr. Miklar breytingar hafa orðið á umhverfi þingmanna frá þeim tíma er starfstími Alþingis var settur í núverandi form og ekkert mælir með því að þingið sé sent heim í byrjun maí og komi ekki aftur saman fyrr en eftir hátt í fimm mánuði. Nægir að benda á bættar samgöngur, fjarskiptaþróun og tölvuvæðingu sem gjörbreytt hafa allri vinnutilhögun þingmanna. Oft heyrast gagnrýnisraddir hjá almenningi sem finnst hið langa sumarhlé Alþingis á skjön við starfsfyrirkomulag annarra stétta og er sú umræða orðin áberandi neikvæð.

Virðulegi forseti. Ég hef fært rök fyrir því að full ástæða sé orðin til þess að Alþingi breyti starfstíma sínum og ég ætla í lok máls míns að geta þess hvað felst í 1. og 2. gr. frv.

Í 1. gr. frumvarpsins er lagt til að þingið komi saman 15. september. Í 35. gr. stjórnarskrárinnar segir að reglulegt Alþingi komi saman 1. október ár hvert en samkomudegi Alþingis megi breyta með lögum, en vinnutími þingsins sem hér er lagt til að taka upp er áþekkur því sem gerist annars staðar á Norðurlöndum. Það hefur einu sinni verið gert áður að samkomudegi Alþingis hafi verið breytt með lögum eftir að stjórnarskránni var breytt 1991, en þingið 1992--1993 hófst 17. ágúst til þess að fjalla um og afgreiða hinn viðamikla EES-samning. Í eldri stjórnarskrárákvæðum, fram til 1991, var samkomudagurinn 15. febrúar, en sett höfðu verið lög um, samkvæmt sambærilegri heimild í stjórnarskránni, að samkomudagurinn yrði 10. október. Var svo fram til 1991.

[17:15]

Í 2. gr. eru sett ákvæði um að reglubundnum störfum Alþingis skuli ljúka 15. júní. Ákvæði þetta hefur ekki sömu stöðu og 1. gr. því að Alþingi verður því aðeins frestað að fyrir liggi samþykki þess sjálfs, og slíkt samþykki er og skilyrði þess að ákvæði greinarinnar verði framfylgt. Forseti Íslands hefur að vísu rétt til að fresta fundum Alþingis tímabundið, en ekki hefur reynt á það ákvæði fram að þessu. Samkvæmt þessu ber fremur að líta á efni 2. gr. frumvarpsins sem stefnuyfirlýsingu þingsins sjálfs um hver hinn reglubundni starfstími þess skuli vera. Þannig má stuðla að meiri festu í þingstörfunum sem er til hagsbóta fyrir þingmennina, stjórnsýsluna og allan almenning. Eigi að síður verður Alþingi, að óbreyttum stjórnlögum, að samþykkja formlega þingfrestun, svo sem verið hefur fram að þessu.

Virðulegi forseti. Ég hef hér fjallað um sjónarmið þess að lengja þingtímann frá sjónarhóli okkar þingmanna. Ég vil að lokum geta þess að það er ekki langt síðan ég átti viðræður við háttsettan mann í stjórnsýslunni sem tók það upp að fyrra bragði, án þess að vita að ég hefði lagt fram frv. það sem hér er mælt fyrir, hvað það væri erfitt fyrir fólk í ráðuneytunum hve stuttar skorpur væru hjá Alþingi og hvernig væri fyrir það að koma að öllum málunum sem ættu að koma inn á tilteknum tíma til að vinnast á svo stuttum tíma. Ég fékk mikla viðurkenningu fyrir að hafa lagt fram þetta frv.

Það er því ósk mín að þingmenn skoði frv. með mjög opnum huga og að við náum því að eiga þverpólitíska umræðu hér um hvað Alþingi sé fyrir bestu, hvernig við vinnum best á Alþingi og að þetta frv., hér flutt í fyrsta sinn, verði til þess að við breytum störfum Alþingis til góðs.