Samkomudagur Alþingis og starfstími þess

Mánudaginn 01. mars 2004, kl. 17:40:52 (4716)

2004-03-01 17:40:52# 130. lþ. 73.5 fundur 147. mál: #A samkomudagur Alþingis og starfstími þess# frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 130. lþ.

[17:40]

Pétur H. Blöndal:

Frú forseti. Við ræðum hér um starfstíma Alþingis. Ég þakka hv. flm. fyrir frv. og umræðuna, hún er mjög góð.

Þegar ég kom inn á þing brá mér við að sjá þau undarlegu vinnubrögð sem hér voru í gangi. Þá voru þau reyndar enn þá verri en í dag, miklu verri. Þá voru þingmenn á næturfundum á Þorláksmessu þannig að jólaundirbúningurinn fólst í kannski hálfum eða einum degi. Þetta hefur lagast mikið. Störf þingsins eru nú miklu betur skipulögð en áður. Þó má gera miklu betur því mér finnst þetta enn þá mjög undarlegur vinnustaður. Núna t.d. erum við klukkan tuttugu mínútur í sex að störfum, sem er ekki sérstaklega fjölskylduvinsamlegt. Við samþykkjum hérna alls konar áætlanir um fjölskyldumál, en förum ekkert eftir þeim sjálf.

Hv. þm. Helgi Hjörvar átti smáviðræður við dóttur sína, sem voru mjög athyglisverðar, en þar kom fram þessi misskilningur dóttur hans og ýmissa fleiri að það sé frí þingmanna þegar þeir fara í hlé. Mín reynsla er sú að vinnuálagið sé þannig þegar þingið starfar að menn þurfi á þessum hléum að halda til að geta unnið frv. Því miður. Auðvitað ætti þetta að vera betur skipulagt þannig að það geti verið hvort tveggja, verið að ræða um frv. og jafnframt að semja.

Ég mundi gjarnan vilja að menn tækju upp umræður um þingsköpin í alvöru. Ég hef margoft nefnt það, t.d. að ræðutíminn sé ekki ótakmarkaður. Ég þekki það hvergi og það gerir alla skipulagningu þingstarfa mjög erfiða.

Síðan má ræða um hvort menn eigi að tilkynna sig á mælendaskrá fyrr. Þetta er í rauninni huggulegt fyrirkomulag hérna og mikils virði að þingmenn geti mætt í ræðupúlt nánast hvenær sem er og algjörlega óþekkt í öðrum þingum. Ég mundi líta á það sem ákveðinn plús. En við þurfum að vega og meta kosti betra skipulags og betri vinnu og þess að geta mætt frjálst í ræðustól.

Alveg sérstaklega mundi ég vilja ræða störfin í nefndum. Þar hef ég haft mikinn áhuga á því að þingmenn komi meira að samningu lagafrv.. Ég hef margoft bent á að þingið semur eiginlega engin lög sem það afgreiðir. Hins vegar stendur það í framkvæmdum. Það þarf ekki nema hlusta á fjárlagaumræðuna til að vita að þingið er að ala upp hund í Vestmannaeyjum og það er að byggja torfkofa og það er að þýða þetta og hitt og það er að ráða fólk til starfa. Þetta er löggjafarsamkundan að gera, frú forseti. Þarna er sem sagt löggjafarsamkundan að fara inn á verksvið framkvæmdarvaldsins. Hver skyldi bera ábyrgðina á því ef illa fer? Ekki er það ráðherrann því ekki lagði hann þetta til. Eftirlitsaðilinn sjálfur, þ.e. Alþingi, hefur ákveðið þetta og þá er engin ábyrgð neins staðar. Ekkert eftirlit.

Hins vegar hefur þróunin orðið sú að framkvæmdarvaldið semur nánast öll frv. sem flutt eru og samþykkt á Alþingi, alla vega öll þau veigameiri. Það eru ekki aðeins ráðuneytin sem semja lög heldur oft á tíðum stofnanirnar sjálfar sem sjá um að framkvæma lögin. Það tel ég, frú forseti, vera hættulegt lýðræðinu þegar embættismennirnir, sem framfylgja lögunum gagnvart borgurunum, smíða í þessum skilningi vopnin í höndum sér. Það er mjög hættulegt.

[17:45]

Skattalögin eru samin af starfsmönnum skattstjóranna og sumir kaflar eru þannig að það ætti eiginlega að banna þá börnum, þeir eru svo skelfilegir, refsingarnar og viðurlögin.

Ég mundi vilja að nefndir þingsins afgreiddu öll mál sem til þeirra er vísað með því að leggja til að þingið hafnaði viðkomandi máli og þá án tillits til sálarheillar eða viðkvæmra sálna þingmanna sem flytja þau, og það yrði þá gert með rökum. Síðan mundi ég leggja til að nefndirnar legðu líka til að frv. yrðu samþykkt og þá með rökum, eins og gert er í dag. Svo mundi ég leggja til að málum yrði vísað til baka til flutningsmanns, þau séu bara ekki nógu vel unnin. Loks gæti nefndin sjálf tekið að sér mál sem henni finnst ekki nægilega vel unnið en vildi sjálf flytja. Hún gæti tekið málið upp og flutt það og samið frv. með aðstoð starfsmanna nefndadeildar.

Nú er það svo að frv. eru jú samin af einhverju fólki og þetta fólk er allt meira og minna á launum hjá ríkinu, þ.e. það fær fjárveitingu frá Alþingi. Við getum alveg eins veitt nefndasviðinu þessa sömu fjárveitingu og ráðið fólk til nefndasviðsins, þetta sama fólk. Þetta á því ekki að valda neinum kostnaðarauka.

Svo vildi ég gjarnan ræða þetta mál sem er í þingsköpum að þingmaður skuli sækja þingfundi nema nauðsyn banni. Líti nú hv. þm. yfir salinn. Nú er það spurning hvort lög hætta að virka eða missa gildi sitt ef þau eru brotin nógu oft. Ég held ekki. Þetta var vandi sem ég lenti í út af ákveðnu máli þar sem talað var um vanhæfi. Ég lenti í þeim vanda að ég varð að sækja þingfundi, ég varð að sækja nefndarfund samkvæmt þingsköpum, þau eru svo ósveigjanleg. Og það sem meira er, ég varð að stýra fundi sem formaður samkvæmt þessum sömu þingsköpum. Það var engin undankomuleið, ekki ef farið er eftir lögunum.

Ég spurði sjálfan mig og marga aðra, lögspekinga, hvort það gæti verið að lög frá Alþingi yrðu ógild ef nægilega margir brytu þau, t.d. ef nægilega margir þingmenn brytu þau. Ef þingmenn mættu einhvers staðar á krá og samþykktu að dreifa mætti eiturlyfjum, nægilega margir, eru það þá orðin lög? Það held ég nú ekki. Það þarf að samþykkjast á hinu háa Alþingi. Það er því ekki nóg að þingmenn brjóti lög og þar með séu þau ógild, heldur verður að samþykkja þau á Alþingi og þar á meðal þingsköpin.

Ég vildi gjarnan að menn ræddu þessi mál miklu meira en gert hefur verið og ég vildi að menn tækju upp umræðu um skipulegra þingstarf og umræðu um þingsköpin í heild sinni. Það er mjög margt sem þarf að breyta, þau taka mið af löngu liðnum tíma. Ég mundi t.d. segja að þingmenn ættu að fylgjast með umræðu á Alþingi. Það væri nægilegt skilyrði, ekki að þeir yrðu að sitja í þingsal. Þannig mætti margt gera. Ég er alveg sammála þessu frv. um að við þurfum að skerpa á sérstaklega aðgreiningu löggjafarvalds og framkvæmdarvalds því það er ekki út í bláinn að heimspekingar fyrri alda komust að þeirri niðurstöðu að ríkisvaldið ætti að vera þrískipt í framkvæmdarvald, löggjafarvald og dómsvald. Það er til þess gert að vernda einstaklinginn fyrir gerræðislegum tilskipunum og lögum valdhafanna að það sé einn aðili sem setur lögin, annar sem dæmir eftir þeim og sá þriðji sem sér um framkvæmd ríkisvaldsins.