Rannsóknir á áhrifum háspennulína á mannslíkamann

Mánudaginn 01. mars 2004, kl. 18:12:24 (4719)

2004-03-01 18:12:24# 130. lþ. 73.6 fundur 309. mál: #A rannsóknir á áhrifum háspennulína á mannslíkamann# þál., Flm. DrH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 130. lþ.

[18:12]

Flm. (Drífa Hjartardóttir):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir þskj. 354, till. til þál. um rannsóknir á áhrifum háspennulína, spennistöðva og fjarskiptamastra á mannslíkamann. Flutningsmenn eru auk mín hv. þm. Sigríður A. Þórðardóttir, Kjartan Ólafsson, Dagný Jónsdóttir, Pétur H. Blöndal, Sigurrós Þorgrímsdóttir, Bjarni Benediktsson, Guðlaugur Þór Þórðarson, Sigurður Kári Kristjánsson, Kolbrún Halldórsdóttir og Rannveig Guðmundsdóttir.

Tillögugreinin er svohljóðandi:

,,Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að standa fyrir faraldsfræðilegri rannsókn á mögulegum áhrifum háspennulína, spennistöðva og fjarskiptamastra á mannslíkamann, sérstaklega með tilliti til nýgengis krabbameins.

Rannsóknin verði framkvæmd á næstu tíu árum og niðurstöðum hennar skilað fyrir 1. október 2014.

Ráðherra gefi Alþingi skýrslu um niðurstöður rannsóknarinnar strax að henni lokinni.``

Virðulegur forseti. Erlendar rannsóknir leiða æ meiri líkur að því að rafsegulsvið hvers konar geti haft alvarleg áhrif á heilsu og líðan fólks og jafnvel valdið krabbameini. Umræðan um rafsegulsvið og áhrif þess á mannslíkamann eykst stöðugt og undanfarin ár hafa augu almennings og fræðimanna beinst æ meira að umhverfi okkar til að skoða hvort orsakir sjúkdóma og vanheilsu sé að finna þar, þ.e. hvort rafmagnsmannvirki geti valdið heilsutjóni hjá þeim sem búa í nágrenni þeirra.

Opinber bresk stofnun hefur viðurkennt opinberlega að tengsl geti verið milli krabbameinstilfella og háspennulína. Rannsóknir framkvæmdar af faraldsfræðingnum Richard Doll leiddu í ljós að börn sem búa í grennd við háspennulínur eiga frekar á hættu að fá krabbamein en önnur börn. Rannsóknarhópur í háskólanum í Toronto í Kanada og Hospital for Sick Children tilkynnti að rannsóknir hefðu sýnt að börn sem búa við há gildi rafsegulsviðs eiga frekar á hættu að fá hvítblæði en börn sem búa ekki við slík skilyrði. Mælingar á heimahögum veikra barna leiddu í ljós að 2--4 sinnum meiri líkur væru á að börn með hvítblæði hefðu búið við há gildi rafsegulsviðs.

Jafnframt hafa faraldsfræðilegar rannsóknir Dana og Svía sýnt fram á tengsl milli hvítblæðis í börnum og búsetu í nálægð við rafmagnsmannvirki. Hið sama kann að gilda um fullorðna, en það er ekki vitað fyrir víst. Því er tímabært að hér á landi verði framkvæmd faraldsfræðileg rannsókn á áhrifum háspennulína, spennistöðva og fjarskiptamastra á mannslíkamann, sérstaklega með tilliti til nýgengis krabbameins. Lagt er til að rannsóknin verði framkvæmd á næstu tíu árum og niðurstöður hennar kynntar Alþingi eigi síðar en 1. október 2014. Flutningsmenn benda á að slík rannsókn geti farið fram á vegum landlæknisembættisins og hugsanlegt er að hún geti verið afturvirk að einhverju leyti.

Tillaga sama efnis var lögð fram á 126., 127. og 128. löggjafarþingi en fékk ekki afgreiðslu.

[18:15]

Virðulegur forseti. Rafmagn skiptir okkur öll miklu máli í öllu okkar lífi og öllum okkar lífsháttum og rafsegulgeislun skiptir á margan hátt sköpum fyrir lífið á jörðinni. Nægir þar að nefna ljósið og varmann sem við fáum frá sólinni. Rafmagn er líka notað til lækninga með góðum árangri.

Tillaga þessi er ekki komin fram til þess að hræða heldur til að vekja okkur til meðvitundar um að það getur haft óæskileg áhrif, rafmengun og rafsegulsóþol, ef ekki er rétt á málum haldið og það verði reynt að koma í veg fyrir rafmengun og rafsegulsóþol þar sem það á sér stað.

Þáltill. hefur í hvert sinn sem hún hefur verið lögð fram vakið mikla athygli og ég hef fengið upphringingar frá fólki sem hefur miklar áhyggjur af þessum málum vegna sinnar eigin reynslu í híbýlum sínum. Margir hafa sem betur fer fengið hjálp til að lagfæra þessa hluti. Viðbrögð við tillögunni hafa verið afskaplega jákvæð nema í einu tilfelli. Í dag er svo miklu meiri umræða og opnari um þessi mál og nægir að geta umræðu fyrir nokkrum dögum í sjónvarpi.

Ég hef fengið upplýsingar um að ef rafmagnslína liggur yfir hyl í á veiðist þar ekki nokkur branda. Gerð hefur verið stuttmynd um ýmislegt sem getur haft áhrif á mannslíkamann og var hún sýnd í fyrra, Raflost eftir Arnar Jónasson, þar sem hann fjallar um Loft sem er sérfræðingur í rafmagnsmengun og hann kemur fólki til aðstoðar sem kvartar undan rafmagnsmengun út frá heimilistækjum sem virðast hafa langtímaáhrif, valda hausverk og minnistapi og jafnvel þaðan af meiru.

Margar greinar hafa birst undanfarin ár í tímaritum eins og Heilsuhringnum og Nýjum tímum. Rafsegulsóþol er mikið rætt erlendis og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin WHO hefur mikinn áhuga á þessum málum. Ég veit ekki annað en að þar sé stórt verkefni í gangi til að skoða þau.

Í Morgunblaðinu 3. mars fyrir tveimur árum er viðtal við Helga Geirharðsson sem kom að uppbyggingu á húsi Marels í Garðabæ. Yfirskriftin á viðtalinu er Hannað til að koma í veg fyrir rafmengun. Þar stendur, með leyfi forseta:

,,Ný bygging Marels, sem nú er að rísa við Austurhraun í Garðabæ, er sérstaklega hönnuð og uppbyggð með það fyrir augum að svokölluð rafmengun valdi ekki vanlíðan starfsfólks eða truflun í rafmagnskerfi.``

Arkitekt þessa húss er Ingimundur Sveinsson. Þess má geta að nú hafa fleiri stór fyrirtæki siglt í kjölfarið á Marel og má þar nefna fyrirtæki eins og Toyota og Grand Hótel Reykjavík. Í viðtalinu segir, með leyfi forseta:

,,Nýbyggingin er langt komin og er stefnt að því að Marel flytji starfsemi sína þangað í júní næstkomandi.`` --- Og nú er þessi starfsemi búin að vera þarna í þessi ár og það sem er sérstaklega athyglisvert við þetta er að allir lampar sem voru settir í húsið voru sérstaklega prófaðir út frá rafmengun sem þeir skapa. Umræddur Helgi segir að þeir hafi ,,,,fengið fyrirtæki til að hanna sérstaklega allar jarðbindingar og allar lagnaleiðir þannig að það myndist ekki óæskileg segulsvið í húsinu. Síðast en ekki síst höfum við gert miklar ráðstafanir til að búa til mjög góða jarðtengingu fyrir húsið þannig að öll rafmagnsmengun eigi góða leið niður í jörð,`` segir hann og undirstrikar að trúar- eða töfrabrögð komi þarna hvergi nærri heldur sé um hreina og klára rafmagnsfræði að ræða.

Hann segir rafmagnsmengunina geta valdið bæði vanlíðan hjá fólki til lengri tíma sem það eigi kannski erfitt með að útskýra. Því hafi verið ákveðið að leggja sérstaka áherslu á þetta atriði í byggingu hússins. ,,Við vitum um dæmi þar sem menn hafa ekki gert það og lent í alls konar vandræðum, bæði hvað varðar vanlíðan starfsfólks og rekstur á tölvukerfum.`` Það er ekki síst lýsingin í húsinu sem sérstaklega er hugað að í þessu sambandi.

,,Brynjólfur Snorrason, sem er með fyrirtækið Lífafl á Akureyri, fékk svo þessa lampa og mældi hvaða áhrif hver lampi um sig hafði á rafkerfið og hvernig hann mengaði út frá sér í nánasta umhverfi. Út frá þeim upplýsingum þurftum við síðan að hafna nokkrum lömpum sem olli því að þessi framleiðandi kom með nýjar lausnir.`` Sem dæmi um þetta nefnir hann lýsinguna í vinnusal nýja hússins sem byggist á nýrri tækni sem ekki hefur verið til í heiminum áður og Marel því fyrsti aðilinn til að taka hana í notkun.

Helgi segir þessa hugsun á bak við uppbyggingu hússins nýmæli hér á landi því þetta sé í fyrsta sinn sem hús er sérhannað að þessu leyti. ,,Í Ameríku eru menn kannski komnir lengra í að skoða rafmagn í svona húsum heldur en t.d. í Evrópu. Við höfum heyrt að þær kröfur sem við erum að setja séu sambærilegar og menn gera varðandi dýragarða annars vegar og hjá bandaríska hernum hins vegar.````

Virðulegur forseti. Þá var umræða í sjónvarpi 22. febrúar sl. Páll Benediktsson var þar með þátt þar sem umræðan var um flökt á rafsviði í raftækjum, tölvum og fleiru og sagði Páll Benediktsson, með leyfi forseta:

,,Brynjólfur Snorrason og fleiri hafa um árabil haldið fram að rafmengun hafi slæm áhrif á fólk og valdið margs konar vanlíðan, svo sem höfuðverk og svefnleysi, og minnki mótstöðuafl líkamans gegn ýmsum kvillum og sjúkdómum, allt frá ónæmi og meltingartruflunum til krabbameins. Flestir fræðimenn hafna kenningu Brynjólfs og félaga þó að mörg hundruð einstaklingar telji sig hafa fengið bót meina sinna með lagfæringu þeirra á rafkerfum.`` Páll segir síðar í þættinum að það sé athyglisvert að það hafi færst í vöxt að stór fyrirtæki láti fara yfir rafkerfin og þar sé óskað eftir ráðgjöf Brynjólfs og fleiri við hönnun frá byrjun.

Síðar í þessu viðtali er rætt við bæjarstjórann í Garðabæ, Ásdísi Höllu Bragadóttur, og hún segir:

,,Það er í raun og veru tvíþætt, í fyrsta lagi hef ég fengið til mín dálítið af einstaklingum hér í Garðabæ og einnig annars staðar af höfuðborgarsvæðinu sem hafa sjálfir farið í aðgerðir heima hjá sér og telja sem svo að með því að jarðbinda húsin betur líði þeim betur í húsunum á eftir. ... Hins vegar var það þannig að mælingar sýndu hér í miðbæ Garðabæjar, eins og sums staðar annars staðar, að rafmengunin er aðeins of mikil, jarðbindingin ekki nægilega góð, og í framhaldi af því tók húsfélagið á Garðatorgi ákvörðun um að jarðbinda betur. Mælingar sýndu það bæði fyrir og eftir að rafmengunin minnkaði í framhaldinu. Hvort það síðan hefur veruleg áhrif á líðan og heilsu starfsfólks eða íbúa þori ég ekkert að segja til um.``

Ásdís Halla segir áfram í þessu viðtali að það gæti verið mjög dýrmætt verkefni ef orkufyrirtækin eða opinberir aðilar tækju þessi mál alvarlega og föstum tökum og gæfu skýrar vísbendingar og leiðsögn um það hvort hægt sé að draga úr rafmengun og þá líka hvort rafmengun sé sums staðar of mikil og þá hver áhrif hennar eru á heilsu fólks.

Í þessu sama viðtali er rætt við Skúla K. Skúlason, sölustjóra hjá Toyota, þar sem þeir fóru í ýmsar breytingar sem urðu mjög til bóta fyrir starfsfólkið þar.

Ég tel mjög mikilvægt að þessi þáltill. fái þann endi núna --- hún er lögð fram í fjórða sinn --- að hún verði afgreidd úr þinginu og jafnvel þá hafnað, ef ekki vill betur en svo, en að sjálfsögðu ætlast ég til að hún verði samþykkt. Það getur vel verið að á henni megi gera einhverjar breytingar í hv. heilbr.- og trn. Ég tel að það sé þess virði að skoða það en ég tel að það sé mjög mikilvægt að við hugum að þessum málum. Við vitum að víða í heiminum er verið að skoða þau mjög vel, eins og kom fram áðan með Alþjóðaheilbrigðisstofnunina. Það eru mjög margir sérfræðingar í Svíþjóð að skoða þessi mál, á Ítalíu, í Kanada, í Bandaríkjunum og svo mætti lengi telja. Að sjálfsögðu eru líka til aðilar sem gera mjög lítið úr þessu og telja þetta hálfgerðar kerlingabækur en ég held að það eigi ekki við nein rök að styðjast. Mig langar til að vitna í það sem hefur komið fram á heimasíðu Landsvirkjunar þar sem þeir tala um að ekki sé mjög mikið um þessa rafmengun. Þeir svara spurningunni: ,,Hvernig má draga úr áhrifum rafsegulsviðs?`` svo, með leyfi forseta:

,,Mjög auðvelt er að draga úr áhrifum rafsviðs. Húsveggir, sérstaklega úr leiðandi efnum svo sem járnbentri steinsteypu, virka t.a.m. einangrandi á sviðið.

Rafsvið fer nokkuð auðveldlega inn úr stórum gler- og timburflötum sé ekki mikið um leiðandi efni innan í þeim, svo sem málmrör og gluggapósta. Allir kannast við vandamál sem stafa af upphleðslu rafmagns t.d. þegar gengið er eftir teppi. Þetta má laga með því að vanda allar jarðbindingar í húsum.``

Eins svara þeir því líka að ekki sé hægt að greina samband á milli kvilla og sjúkdóma af neinu tagi og rafsegulsviðs en það er aftur allt annað sem kemur fram í sænskri faraldsfræðirannsókn þar sem miklar líkur eru taldar á að ef fólk er mikið í rafmagnsóþoli eða rafmagnsmengun hafi það mjög mikil áhrif á alzheimersjúkdóminn.