Rannsóknir á áhrifum háspennulína á mannslíkamann

Mánudaginn 01. mars 2004, kl. 18:27:43 (4720)

2004-03-01 18:27:43# 130. lþ. 73.6 fundur 309. mál: #A rannsóknir á áhrifum háspennulína á mannslíkamann# þál., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 130. lþ.

[18:27]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég þakka 1. flm. þessarar þáltill., hv. þm. Drífu Hjartardóttur, fyrir málið og hennar ítarlegu greinargerð í framsöguræðu, og reyndar öllum þeim þingmönnum sem standa að þessu þverpólitíska þingmáli, fólki úr flestum stjórnmálaflokkum á Alþingi. Ég hef jafnan stutt þetta mál þó að ég hafi ekki verið einn flutningsmanna og furða mig sannast sagna á því að það skuli ekki hafa náð fram að ganga. Þetta er í fjórða skipti sem það er lagt fram á Alþingi án þess að hafa fengið afgreiðslu í hin þrjú.

Samkvæmt þáltill. sem fjallar um rannsóknir á áhrifum háspennulína, spennistöðva og fjarskiptamastra á mannslíkamann er lagt til að á vegum heilbrrn. verði gerð rannsókn á mögulegum áhrifum þessara fyrirbæra á mannslíkamann, sérstaklega með tilliti til nýgengis krabbameins. Í greinargerð með þáltill. er síðan vísað í rannsóknir sem gerðar hafa verið á erlendri grundu, á Norðurlöndum, Danmörku og Svíþjóð, í Bretlandi þar sem sýnt hefur verið fram á að um tengsl geti verið að ræða milli krabbameinstilfella og háspennulína og síðan er vitnað í fleiri rannsóknir.

Það sem ég hef spurt sjálfan mig er hvort í rauninni sé ekki hægt að nýta þær rannsóknir sem gerðar hafa verið á erlendri grundu til þess að byggja síðan á einhverjar aðgerðir. Það gladdi mig sérstaklega í máli hv. þm. Drífu Hjartardóttur að hún vakti athygli á því að umræður um þessi efni og rannsóknir sem gerðar hafa verið eru þegar farnar að hafa áhrif. Hún tók nokkur dæmi um byggingar hér á landi, hjá Marel, Toyota, Grand Hótel og víðar, þar sem menn voru með fyrirbyggjandi ráðstafanir. Þetta skiptir að sjálfsögðu meginmáli, ekki láta sitja við það eitt að skoða hlutina heldur reyna að grípa til aðgerða eftir að sýnt hefur verið fram á í rannsóknum að háspennilínur og spennistöðvar og þessi fjarskiptamöstur hafa skaðleg áhrif á mannslíkamann. Hv. þm. vék einkum að rafmengun í húsum, kannski minna að háspennulínunum, segulsviðinu sem er í kringum þær og á hvern hátt það geti haft skaðleg áhrif á fólk í þéttbýli og ekki síður í dreifbýli.

Ég kom hingað fyrst og fremst til að taka undir þetta þingmál og lýsa furðu minni á því að það skuli ekki hljóta samþykki Alþingis. Það er þverpólitísk samstaða um málið, víðtækur stuðningur við það. Svo var ekki síður hitt, það að lýsa ánægju með þær upplýsingar sem hér koma fram um raunverulegar aðgerðir til úrbóta. Þó að þessi umræða leiði ekki endilega til þess að þingmálið verði samþykkt er ég ekki í nokkrum einasta vafa um að það er mikilvægt að halda umræðunni gangandi og þar hafa hv. þingmaður og aðrir flm. þessa frv. svo sannarlega lagt sitt af mörkum á liðnum árum. Það er ekki unnið til einskis á meðan.