Rannsóknir á áhrifum háspennulína á mannslíkamann

Mánudaginn 01. mars 2004, kl. 18:32:09 (4721)

2004-03-01 18:32:09# 130. lþ. 73.6 fundur 309. mál: #A rannsóknir á áhrifum háspennulína á mannslíkamann# þál., RG
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 130. lþ.

[18:32]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég er meðflutningsmaður að þessu máli og vil í örfáum orðum taka undir orð 1. flm. Drífu Hjartardóttur. Það hefur ekki verið nokkur efi í mínu huga um mörg ár að það er mengun af segulrafi, eða hvernig sem má orða það, og bara það sem við erum með í höndunum núna af efni sem fylgdi því sem þingmaðurinn var með segir okkur að það hafa farið fram miklar rannsóknir á málinu í mörgum löndum, að það eru komnar ákveðnar niðurstöður. En mér vitanlega hafa hvergi nokkurs staðar nokkur stjórnvöld viljað viðurkenna þetta.

Ég minnist þess þegar ég sat þing Sameinuðu þjóðanna 1989 og horfði þar vestanhafs á sjónvarpsþátt þar sem verið var að sýna miklar rafmagnslínur og breytingar á gróðri á landinu undir þeim og breytingar á heilsufari kúa sem þar voru á beit. Þessi sjónvarpsþáttur hafði mikil áhrif á mig og vakti með mér ugg. Sömuleiðis fréttir af litlu þorpi í Frakklandi um svipað leyti sem var talsvert skrifað um, en svo þaggaðar niður. Það voru lagðar miklar rafmagnslínur eiginlega þvert yfir lítinn dal og þorp undir og heilsufar breyttist mjög, sérstaklega á börnum í þorpinu, og í engu samhengi við samanburð við önnur þorp af sömu stærð.

Það er mjög langt síðan umræður hófust um hugsanlega rafmengun og skaða af slíkum orkustöðvum. Þetta er stórt mál og margir hafa sett fram það sjónarmið að ef þetta væri svona, hlyti að vera búið að taka á því. Þvert á móti. Það er bara ekki þannig því það er svo stórt mál að viðurkenna þetta. Ef maður lítur til þeirra landa þar sem er svo algengt að fólk stofni til málaferla af minna tilefni en því ef sannað væri að raflínurnar sem það býr nálægt, eða mastrið rétt við húsið eða annað slíkt, ef búið væri að sanna að það væri heilsufarsmengandi og gallarnir væru að koma í ljós hjá fólki, hvort heldur væri á ónæmiskerfinu eða krabbamein eða blóðsjúkdómar, ef það væri orðið nokkuð sannað að þetta gæti verið frá svona stöðvum held ég að það færi nú að fara um marga þá sem bera ábyrgð á rafvæðingunni.

Ég held því að við þurfum að horfast í augu við það að það er ekki vilji til að leita sannana í máli eins og þessu. Eins og það er mikilvægt að átta sig á hvort, jafnvel bara hugsanlega, þetta geti verið jafnalvarlegt mál og margir vísindamenn segja sem hafa verið að rannsaka þetta og hafa komið fram með kenningar sínar, vegna þess að þá væri hægt að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða eða verndandi aðgerða fyrir það fólk sem býr í námunda við það sem hér um ræðir og er farið að vera í raun og veru í námunda við alla þéttbýlisstaði í dag.

Hér á að vera unnt að velja staði í námunda við hugsanlega mengunargjafa af þægilegri stærð og fá góðan samanburð við einhverja tilsvarandi staði annars staðar þar sem ekki eru slíkir mengunarvaldar. Það ætti því að vera hægt að gera samanburðarrannsóknir hér sem ekki er eins auðvelt að gera annars staðar. Þess vegna styð ég og er meðflutningsmaður að tillögunni og vonast til þess að hún hljóti brautargengi í þetta sinn á hæstv. Alþingi.