Rannsóknir á áhrifum háspennulína á mannslíkamann

Mánudaginn 01. mars 2004, kl. 18:36:57 (4722)

2004-03-01 18:36:57# 130. lþ. 73.6 fundur 309. mál: #A rannsóknir á áhrifum háspennulína á mannslíkamann# þál., Flm. DrH
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 130. lþ.

[18:36]

Flm. (Drífa Hjartardóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þær ágætu undirtektir sem málið hefur fengið, bæði hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni og Rannveigu Guðmundsdóttur sem er meðflutningsmaður að málinu. Það er alveg ljóst að þetta er hið merkasta mál og við eigum að láta skoða hvaða áhrif þetta hefur á mannslíkamann, ekki bara með tilliti til krabbameins heldur líka alls konar annars óþols af þessu.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson ræddi um að ég hefði lítið talað um háspennulínurnar. Ég gerði það meira þegar ég mælti fyrir málinu á fyrri þingum, en að sjálfsögðu hafa þær mikil áhrif á umhverfið. Ég nefndi að þar sem rafstrengur liggur yfir hyl í á veiðist helst ekki nokkur fiskur því hann fælist í burtu. Það vilja þeir veiðimenn meina sem hafa talað við mig. Víða erlendis er bannað að hafa spennistöðvar nema í ákveðinni fjarlægð frá barnaheimilum og skólum vegna áhrifa þeirra. En þessi mál eru óþægileg fyrir marga. Það þykir ekki öllum þægilegt að ræða þessi mál.

Virðulegi forseti. Ég var með fsp. til hæstv. heilbrrh. fyrir tveimur árum um nýgengi krabbameins. Ráðherra svaraði þannig og sagði frá því að skipuleg skráning krabbameina á vegum krabbameinsskrár Krabbameinsfélags Íslands hófst árið 1954 og þannig er hægt að skoða breytingar á tíðni krabbameina í meira en fjóra áratugi. Á þessu tímabili hefur tíðni krabbameina í heild aukist um 1,2% á ári að teknu tilliti til fjölgunar íbúa og breyttrar aldurssamsetningar þjóðarinnar. Miklar breytingar hafa orðið á tíðni einstakra meina. Allt er þetta skráð og þennan gagnagrunn má nýta við þá rannsókn sem við erum að biðja um að fari fram.

Í svari ráðherra kemur fram að tíðni krabbameins í blöðruhálskirtli hefur nærri fimmfaldast og er þetta mein fyrir nokkru orðið algengasta krabbamein karla. Þessa fjóra áratugi hefur brjóstakrabbamein verið algengasta krabbamein kvenna, en það er nú tvöfalt algengara en við upphaf skráningar.

Tíðni lungnakrabbameins hjá körlum hefur nær þrefaldast og meira en fjórfaldast hjá konum, en heldur er farið að draga úr aukningunni. Tíðni magakrabbameins er nú aðeins þriðjungur af því sem áður var og er það m.a. vegna þess að nú eru aðrar neysluvenjur en voru hér áður fyrr. Þá er tíðni leghálskrabbameins aðeins þriðjungur af því sem var um skeið, en það skýrist af leit að sjúkdómnum á forstigi.

Um 1.040 krabbamein voru greind hér á landi á ári, 530 hjá körlum og 510 hjá konum, samkvæmt tölum frá krabbameinsskrá Krabbameinsfélags Íslands, en þær miðast við meðaltal áranna 1995--1999. Þetta eru því reyndar gamlar tölur.

Það var einnig athyglisvert í svari ráðherra að þegar tekið er tillit til aldurssamsetningar þjóðarinnar eftir landshlutum er nýgengi krabbameins hærra í Reykjavík og Reykjanesi en annars staðar á landinu og er það í samræmi við stöðu mála í nálægum löndum. Það gerist trúlegast í þéttbýli og meiri áhrif þá á líkamann.

Virðulegur forseti. Ég gat aðeins áðan um sænska rannsókn á alzheimersjúklingum. Ég get líka vitnað í rannsókn sem var gerð við háskólann í Kaliforníu þar sem uppgötvað var að segulsvið af ákveðnum styrkleika hefur áhrif á virkni melatonins gegn krabbameini. Eins og kunnugt er vinnur hormónið melatonin gegn mörgum tegundum krabbameins. Áður var vitað að rafsegulsvið hefði áhrif á framleiðslu heilans á þessu hormóni, en þessi niðurstaða kom á óvart vegna þess hversu lágan styrk þurfti til að trufla virknina.

Eins hefur nýleg rannsókn í háskólanum í Písa á Ítalíu leitt í ljós furðulegt samhengi milli viðveru í daufu rafsegulsviði og sársaukaskyns. Þar hafa verið gerðar rannsóknir á mönnum og dýrum sem sýna þetta. Rannsóknin á mönnunum var tvíblind og voru þátttakendur samtals 18. Niðurstaðan sýndi að eftir tveggja tíma viðveru í segulsviði hafði sársaukaþröskuldurinn lækkað. Notuð voru dauf rafboð sem áreiti með vist hækkandi styrk. Menn eru mjög varkárir í túlkun sinni á niðurstöðunum en telja mikla þörf á frekari rannókn á þessu sviði.

Virðulegur forseti. Ég þakka enn og aftur fyrir þessar ágætu viðtökur sem málið hefur fengið og vona sem fyrr að það nái fram að ganga.