Heimahjúkrun á höfuðborgarsvæðinu

Þriðjudaginn 02. mars 2004, kl. 14:13:35 (4743)

2004-03-02 14:13:35# 130. lþ. 74.94 fundur 374#B heimahjúkrun á höfuðborgarsvæðinu# (umræður utan dagskrár), GHall
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 130. lþ.

[14:13]

Guðmundur Hallvarðsson:

Virðulegi forseti. Allt er þetta mál sérstakt þegar litið er til aprílmánaðar 2003. Þá er þessi deila í algleymingi en lausnardagur þá 29. apríl. Þá er viðtal við forstjóra heilsugæslunnar í Reykjavík sem segir, með leyfi virðulegs forseta:

,,Okkar áætlanir gerðu ráð fyrir að um 15 milljónir spöruðust á þessu ári með þessum aðgerðum en við höfðum hvort eð er ætlað okkur að beina þeim að mestu leyti til hækkana á launum þeirra sem starfa við þetta. Við reiknuðum ekki með að standa beinlínis eftir með mikinn sparnað í rekstrinum en hins vegar var það skoðun okkar að þetta hefði leitt til betri þjónustu.``

Nákvæmlega sama texta má lesa í Fréttablaðinu í dag þar sem Þórunn Ólafsdóttir, hjúkrunarforstjóri heilsugæslunnar, segir að kostnaður við samninga um nýtt aksturskerfi sem heilsugæslan hefði boðið væri svipaður og verið hefði í því kerfi sem heilsugæslan væri nú að leggja niður. Hvert er þá deiluefnið? Um hvað snýst þessi deila? Snýst hún um að bæta gæði þjónustunnar með því að taka bíla á rekstrarleigu til þess að afnema þessar greiðslur til þessara heiðurskvenna sem eiga allt gott skilið og stunda óeigingjarnt starf í þágu lands og þjóðar? Ég verð að segja að þegar líka kemur hljóð frá embættismönnum sem segja: Ja, við ætlum ekki að láta gera okkur afturreka í þriðja sinn, segir það manni að það er ekki allt sem sýnist í þessu máli.

Virðulegi heilbrrh.: Hvers vegna er þessi deila upp komin nú enn einu sinni? Efnið er nákvæmlega eins og það var fyrir ári síðan. Það hefur ekkert breyst, bara að bæta gæði þjónustunnar með því að taka bíla á rekstrarleigu. Þvílík vitleysa. (Gripið fram í: Hver á bílasölurnar?)