Yrkisréttur

Þriðjudaginn 02. mars 2004, kl. 14:35:18 (4750)

2004-03-02 14:35:18# 130. lþ. 74.5 fundur 613. mál: #A yrkisréttur# (EES-reglur, plöntuyrki o.fl.) frv., AKG
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 130. lþ.

[14:35]

Anna Kristín Gunnarsdóttir:

Frú forseti. Eins og fram kom í máli hæstv. landbrh. fjallar frv. sem hér liggur fyrir um uppfinningar í líftækni, þ.e. um einkaleyfisrétt á uppfinningum í líftækni og vernd þeirra.

Þegar frv. er lesið yfir virkar það óneitanlega, a.m.k. á mig, æðiframandlegt að mörgu leyti, bæði hvað varðar efni og orðaforða sem notaður er í því og jafnframt íslensk orð sem notuð eru í skrýtnu samhengi. Ég ætla því að nýta mér tækifærið til að fá útskýringar hæstv. ráðherra á vangaveltum mínum um frv.

Í fyrsta lagi er augljóst að verið er að yfirfæra frv. frá Evrópu yfir á Ísland. Lögin eiga að taka til yrkja allra ættkvísla og tegunda plantna og þar með talið blendinga ættkvísla og tegunda. Í greinargerð með frv. stendur að markmiðið með því sé að gera það ítarlegra og skýrara en fyrri lög sem í gildi eru. Með tilliti til þess er sérstaklega umhugsunarvert að lesa þurfi hverja og eina grein mörgum sinnum yfir til þess að fá einhvern botn í það hvað í raun og veru verið er að tala um og standa eftir sem áður oft uppi án þess að skilja fyllilega hvað um er rætt eða vera viss um að skilningurinn sem maður heldur að maður hafi sé réttur. Ef ég tek t.d. 4. gr. stendur þar, með leyfi forseta:

,,Við 1. mgr. 14. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: að yrkisréttur hefur verið veittur þeim sem ekki á rétt til hans nema hann sé yfirfærður til þess sem á slíkan rétt.``

Í skýringum við 4. gr. stendur með leyfi hæstv. forseta:

,,Ákvæði þetta er sett til þess að tryggja að ákvæði 14. gr. laganna sé í fullu samræmi við 21. gr. UPOV-samningsins en þennan c-lið vantar í 14. gr. laganna til þess að greinin sé að öllu leyti í samræmi við 21. gr. UPOV-samningsins. Ákvæðið þarfnast að öðru leyti ekki skýringa.``

Ég verð að segja það, virðulegi forseti, að þetta er ekki nóg skýring fyrir mig og mig langar að biðja hæstv. landbrh. að segja mér á eftir um hvað verið er að ræða í þessari grein.

Í 5. gr. laganna kemur tilvik þar sem mér finnst notkun á íslensku máli afar framandleg en í skýringunum við greinina er talað um andlag yrkisréttar. Ég kannast vel við andlag og frumlag en mig langar að biðja ráðherrann að skýra fyrir mér hvað andlag yrkisréttar er. Hann hlýtur að skilja það alveg upp á punkt og prik. Mér finnst þetta eins og ég sagði áðan mjög mikilvægt þar sem þetta á að vera skýrt og skilmerkilegt frv. og auðvitað öllum ljóst hvað þetta þýðir.

Í 5. gr. stendur, með leyfi hæstv. forseta:

,,Yrkisréttur nær til þess yrkis sem skráð er samkvæmt lögum þessum. Yrkisréttur gildir einnig um:

a. yrki sem eru í öllum aðalatriðum komin af vernduðu yrki, enda sé hið verndaða yrki ekki sjálft komið af öðru í öllum aðalatriðum.``

Þetta er mjög einfalt, ekki satt? Síðar í sömu grein stendur:

,,Yrki telst í skilningi a-liðar 1. mgr. komið af öðru yrki í öllum aðalatriðum þegar:

a. það er mestmegnis komið af upphafsyrkinu, eða af yrki sem sjálft er mestmegnis komið af upphafsyrkinu og heldur þeim megineinkennum sem ráðast af arfgerð eða samsetningu arfgerða upphafsyrkisins.``

Enn bið ég ráðherrann að skýra fyrir mér hvað þetta þýðir.

Í 6. gr. segir, með leyfi forseta:

,,Yrkisréttur felur í sér að aðrir en yrkishafi mega ekki án hans samþykkis nýta stofnþætti yrkis eða uppskeru af hinu verndaða yrki með eftirfarandi hætti:

a. framleiða eða fjölga,

b. undirbúa til fjölgunar.

Og síðan koma fleiri liðir. En í þessu dæmi dettur mér í hug að spyrja ráðherra: Hvað t.d. með kartöflur? Hvernig á þessi grein við um kartöflurækt?

Síðan er í þessari grein reyndar fjallað um bændur sem geti í sérstökum tilvikum fengið undanþágu til þess að nota yrki við framleiðslu á eigin landi og reyndar er fjallað nánar um það í 9. gr. Þar eru líka orð sem mig langar að biðja ráðherrann að skýra fyrir mér. Þar stendur, með leyfi forseta:

,,Til að vernda landbúnaðarframleiðslu er bændum heimilt, þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 17. gr., að nota uppskeru af eigin landi til ræktunar á yrkjum af tilgreindum tegundum á eigin landi enda sé ekki um að ræða blendingsyrki eða samsett yrki.``

Hvað eru blendingsyrki og samþykkt yrki og hvernig eru þau frábrugðin þeim umræddu yrkjum sem verið er að sækja um einkaleyfi á og eru umfjöllunarefni í þessu lagafrv. Síðar í sömu grein segir, með leyfi forseta:

,,Óheimilt er að krefja bændur um nytjaleyfisgjald fyrir nýtingu yrkis skv. 1. mgr. ef framleiðsla þeirra á nytjajurtum skv. 2. mgr. fer fram á landi sem ekki getur gefið af sér meira en 92 tonna uppskeru af korntegundum en magn annarra nytjajurta miðast við sömu stærð lands.``

Mér finnst athyglisvert að mælistikan sem notuð er þarna er korn en vitað er að á Íslandi er ekki hægt að rækta korn nema á tilteknum svæðum og reyndar ekkert á mjög mörgum svæðum. Þetta finnst mér vera dæmi um það þegar verið er að yfirfæra erlendar lagagreinar yfir á Ísland og mér hefði þótt eðlilegra að taka annað viðmið en korn, viðmið sem getur átt við alls staðar á Íslandi.

Í 10. gr. laganna finnst mér líka koma fram athyglisvert umhugsunarefni. Þar stendur, með leyfi forseta:

,,Hafi yrkishafi ekki tryggt nægilegt framboð af efniviði til fjölgunar verndaðs yrkis hér á landi á sanngjörnum kjörum og í þeim mæli og með þeim hætti sem nauðsynlegt er til að tryggja matvælaframleiðslu í landinu og aðra mikilvæga almannahagsmuni getur sá sem vill hagnýta yrkið farið fram á nauðungarleyfi, fyrir dómstólum, svo framarlega sem ekki eru haldbær rök fyrir vanrækslu yrkishafa.``

Þarna er bara verið að tala um matvælaframleiðslu og aðra framleiðslu mikilvæga almannahagsmunum. En samkvæmt því sem segir fyrst í lagafrv. taka þessi lög til yrkja allra ættkvísla og tegunda plantna, þar með talið blendinga ættkvísla og tegunda. Mér er því spurn hvað t.d. um rósarækt sem er einmitt umtalsverð í kjördæmi hæstv. ráðherra eða tré, verður það þá að falla undir mikilvæga almannahagsmuni ef viðkomandi einstaklingur á að geta nýtt sér þetta atriði í frv.? Ég tel að um mikilvæga einstaklingshagsmuni geti verið að ræða án þess að um sé að ræða mikilvæga almannahagsmuni og að taka þurfi tillit til þess í frv.

Ég legg áherslu á það að lokum að ég vonast eftir því að fá skýringar frá ráðherranum, en í athugasemdum við lagafrv. stendur að því sé ætlað að gera ákvæðin skýrari og ítarlegri en ákvæði fyrra frv. Ég bíð því spennt eftir að heyra skýringar ráðherra þannig að hægt verði að fara með þær í landbn. til umræðu.