Útsendingar sjónvarps og hljóðvarps um gervitungl

Þriðjudaginn 02. mars 2004, kl. 17:59:59 (4791)

2004-03-02 17:59:59# 130. lþ. 74.11 fundur 473. mál: #A útsendingar sjónvarps og hljóðvarps um gervitungl# þál., Flm. GHall
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 130. lþ.

[17:59]

Flm. (Guðmundur Hallvarðsson):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þeim þingmönnum sem tóku til máls og lýstu yfir stuðningi við þáltill. Það var athyglisvert atriði sem hv. síðasti ræðumaður kom inn á sem kannski ekki nógu mikill gaumur hefur verið gefinn að, þ.e. uppeldisleg áhrif á íslensk börn sem erlendis búa. Þetta hefur auðvitað mikið að segja hvað það áhrærir.

Á árum áður þegar ég var formaður Sjómannafélags Reykjavíkur fór ég í nokkur ár til sjós og ég minnist þess hve íþróttaáhugi meðal sjómanna var með ólíkindum. Þetta mun auðvitað færa þá nær íþróttunum eins og áhuginn er þar mikill og auðvitað er eðlilegt og sjálfsagt að koma til sjómanna á hafi úti fram með Íslandsströndum margvíslegu öðru sjónvarpsefni. Þetta er allt hið besta mál. Ég tek undir það sem allir hv. þm. komu hér inn á, að fróm ósk hefur komið fram um það að þessi þáltill. fái farsælan endi.