Skipun stjórnar Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn

Miðvikudaginn 03. mars 2004, kl. 13:40:03 (4805)

2004-03-03 13:40:03# 130. lþ. 75.91 fundur 375#B skipun stjórnar Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn# (aths. um störf þingsins), umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 130. lþ.

[13:40]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mótmæli því sem hér er verið að halda fram, að þessi skipan mála hafi eitthvað með nýja lagafrv. að gera sem hér hefur verið til umfjöllunar. Það er ekki svo. Ef menn lesa það lagafrv. sjá þeir að það er einmitt verið að breyta stjórn RAMÝ úr rekstrarstjórn yfir í fagráð sem er allt önnur staða. Þetta tengist ekki.

Umhverfisstofnun er tilnefningaraðili samkvæmt lögum, hún hefur tilnefnt og tilnefning hennar er Davíð Egilson. Það er ekkert óeðlilegt við það. (Gripið fram í: Af hverju ... sjálfan sig?) Þessi málaflokkur var áður hjá Náttúruvernd ríkisins, það var Náttúruvernd ríkisins sem tilnefndi. Því var breytt þegar Náttúruvernd ríkisins, Hollustuvernd ríkisins og hreindýraráð var allt fellt undir eina nýja öfluga stofnun sem er Umhverfisstofnun. (Gripið fram í.)

(Forseti (JóhS): Ég vil biðja hv. þingmann að leyfa hæstv. ráðherra að ljúka máli sínu.)

Mér finnst alls ekkert óeðlilegt þó að forstjóri Umhverfisstofnunar, Davíð Egilson, sitji í þessari stjórn sem formaður. Mér finnst það alls ekki óeðlilegt.