Skipun stjórnar Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn

Miðvikudaginn 03. mars 2004, kl. 13:41:28 (4806)

2004-03-03 13:41:28# 130. lþ. 75.91 fundur 375#B skipun stjórnar Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 130. lþ.

[13:41]

Steingrímur J. Sigfússon:

Frú forseti. Í fyrsta lagi þarf umhvrh. sem þetta mál heyrir undir og ber ábyrgð á starfi Umhverfisstofnunar, þannig að einu gildir, að útskýra hvernig í ósköpunum eftirfarandi gerist: Haft er samband við þann mann sem gegnt hefur þessu starfi í meira en einn og hálfan áratug og hann spurður að því hvort hann sé tilbúinn til að halda því áfram. Hann svarar því játandi. Síðan líður hálft ár sem er sleifarlag út af fyrir sig --- hvers vegna í ósköpunum kemur umhvrn. eða Umhverfisstofnun því ekki í verk að skipa þessa stjórn lögum samkvæmt eftir kosningar eins og vera ber? --- og þá allt í einu er viðkomandi manni tilkynnt einhliða að búið sé að ákveða að skipa annan mann. Því hefur ranglega reyndar verið haldið fram að það sé gert í samráði við hann, til að bíta höfuðið af skömminni.

Hvað er upp á störf Gísla Más Gíslasonar að klaga í þessu embætti? Þurfa ekki einhverjar ástæður að liggja að baki því að virtum fræðimanni með mikla sérþekkingu á viðkomandi sviði er hent út til þess að skipa þægan undirmann ráðherrans í staðinn? Auðvitað er það algerlega fráleitt að setja málin í þessar stellingar þar sem sami maður situr bæði í stjórn Rannsóknastöðvarinnar við Mývatn og er forstjóri Umhverfisstofnunar þannig að stjórnin verður vanhæf eða marklaus í umsögnum um mál. Það þarf ekki flókna röksemdafærslu til að útskýra það. Það er í raun verið að gelda rannsóknastöðina með þessum hætti nema stjórnarformaðurinn víki stanslaust sæti þegar á að greina á milli hlutverka rannsóknastöðvarinnar annars vegar og Umhverfisstofnunar hins vegar. Þetta er algerlega óforsvaranlegur gjörningur hvernig sem á hann er litið. Og lengi gat vont versnað í embættisfærslum hæstv. umhvrh.