Yrkisréttur

Miðvikudaginn 03. mars 2004, kl. 13:47:58 (4809)

2004-03-03 13:47:58# 130. lþ. 75.1 fundur 613. mál: #A yrkisréttur# (EES-reglur, plöntuyrki o.fl.) frv., AKG (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 130. lþ.

[13:47]

Anna Kristín Gunnarsdóttir:

Frú forseti. Í umræðum um frv. til laga um yrkisrétt í gær voru ýmsar spurningar lagðar fyrir hæstv. landbrh., bæði varðandi form og efni frv., m.a. um hugsanleg áhrif þess á garðyrkjubændur. Hæstv. ráðherra svaraði í engu spurningum varðandi efni frv. né áhrif þess. Greinilegt var að ráðherrann skildi ekki einstakar greinar frv. Það hlýtur þó að vera lágmarkskrafa til ráðherra sem ber ábyrgð á málaflokki að hann sé viðræðuhæfur um frumvörp sem hann flytur á þinginu.

Ég velti fyrir mér hvort ég ætti að leggja til að frv. yrði vísað aftur til ráðherra eða sitja hjá við afgreiðslu frv. En í trausti þess að hægt verði að vinna bót á frv. í landbn. munu ég og samflokksmenn mínir greiða því atkvæði að það gangi til nefndar.