Sjúkraflutningar Landhelgisgæslunnar

Miðvikudaginn 03. mars 2004, kl. 14:02:03 (4813)

2004-03-03 14:02:03# 130. lþ. 75.95 fundur 379#B sjúkraflutningar Landhelgisgæslunnar# (umræður utan dagskrár), dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 130. lþ.

[14:02]

Dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrirspyrja og upphafsmanni þessarar umræðu fyrir að leggja þessar spurningar hér fram og ræða þessi mál. Ég vil minna á að í stefnuræðu forsrh. sem flutt var sl. haust kom fram að nauðsynlegt væri að laga starf Landhelgisgæslunnar nýjum kröfum, ráðast í smíði nýs varðskips og gera áætlun um endurnýjun á flugflota hennar eins og þar segir. Síðan hefur verið unnið að því að styrkja innviði Landhelgisgæslunnar með ýmsum hætti. Tekið hefur verið á fjármálum hennar og gerðar rekstraráætlanir sem eru þess eðlis að starfsemi hennar mun ganga vel á því ári sem nú er nýhafið. Gæslan lætur víða að sér kveða eins og við vitum og starfsemi hennar er að þróast og breytast, m.a. átti hún nýlega tvo fulltrúa í Írak við sprengjuleit eins og kunnugt er. Hún lætur, eins og ég segi, víða að sér kveða. Þar unnu menn gott starf og einnig nú nýlega í Neskaupstað eða í Norðfirði þegar leitað var að hlutum sem tengjast líkfundi þar eins og við vitum. Gæslan kemur því víða að verki og nauðsynlegt er að haga störfum hennar á þann veg að hún sé sveigjanleg og geti tekið á sem flestum verkefnum.

Ég held að menn muni auðvitað hafa hliðsjón af skýrslu Ríkisendurskoðunar við þær breytingar sem verið er að vinna að hjá Landhelgisgæslunni og taka mið af því sem þar segir. Þar var m.a. vikið að því, eins og fram kom í máli hv. þm., að spurningin er hvort Gæslan eigi að taka gjöld fyrir þá þjónustu sem hún veitir ef það er unnt að skilgreina þá þjónustu sem þess eðlis að hún sé að létta af öðrum. Þá kemur spurningin líka um það hvort taka eigi gjald fyrir afnot af þyrlunni þegar hún er notuð í björgunartilgangi og til sjúkraflugs. Þetta eru álitamál sem menn ræða þegar þeir velta fyrir sér annars vegar samanburði á störfum þyrlunnar og t.d. sjúkrabifreiða sem menn greiða fyrir.

Tilefni þess að hv. þm. stendur upp til að tjá sig um þetta mál er bréf dagsett 26. janúar sl. þegar sagt var upp samningi milli Landspítalans -- háskólasjúkrahúss og dómsmrn. um umsjón og stjórn þyrluvaktar lækna, símaráðgjöf fyrir sjófarendur, læknislega forsjá Neyðarlínunnar og fleira. Þessi samningur er frá árinu 1998 og gerir m.a. ráð fyrir því að Landhelgisgæslan greiði sjúkrahúsinu ríflega 16 millj. kr. á ári fyrir þá þjónustu sem þar er kveðið á um.

Eftir að þessi uppsögn kom fram og þetta bréf lá fyrir þá hefur verið litið á alla þætti þessa máls og er þeirri athugun ekki lokið. Þar hafa menn verið í samráði við heilbrrn. og fleiri aðila, m.a. slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu og tekið mið af þeirri reynslu sem menn hafa þar og þeirri þróun sem hefur verið í þessum efnum. Ég ætla ekki að segja neitt um það á þessu stigi hvernig þessum viðræðum á eftir að lykta eða hver niðurstaðan verður en að sjálfsögðu er markmiðið að draga ekki úr þeirri þjónustu eða öryggi sem unnt er að veita fyrir tilstilli Landhelgisgæslunnar með notkun þyrlu hennar í þágu þeirra sem þurfa á slíkri aðstoð að halda um landið allt. Eins og hér hefur líka komið fram og hv. fyrirspyrjandi minntist á hefur Landhelgisgæslan og þyrla hennar líka hlutverki að gegna varðandi sérsveit lögreglunnar og í áætlunum okkar er gert ráð fyrir samvinnu á milli sérsveitarinnar og Landhelgisgæslunnar og þróunar í því samstarfi.

Að sjálfsögðu verða fleiri fundir haldnir um þetta mál, þ.e. um hvernig staðið verður að sjúkraþjónustu Gæslunnar með þyrlunni. Ég veit að við munum komast að niðurstöðu í tæka tíð áður en þessum samningi verður endanlega lokið eins og boðað var í bréfinu frá 26. janúar. Það er rétt að það liggi alveg skýrt fyrir að frumkvæðið að því að rifta þeim samningi kom frá sjúkrahúsinu en eftir að það bréf liggur fyrir þá hljóta menn að líta til allra þeirra þátta sem eðlilegt er að hafa til skoðunar þegar metið er hvernig best verði staðið að þessu í framtíðinni. Á þessu sviði eins og öðrum eru miklar breytingar, mikil þróun, aukin menntun og aukin tækni sem unnt er að nýta sér án þess að vera endilega bundinn af þeim sjónarmiðum sem réðu árið 1998 þegar umræddur samningur var gerður.