Sjúkraflutningar Landhelgisgæslunnar

Miðvikudaginn 03. mars 2004, kl. 14:10:58 (4816)

2004-03-03 14:10:58# 130. lþ. 75.95 fundur 379#B sjúkraflutningar Landhelgisgæslunnar# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 130. lþ.

[14:10]

Steingrímur J. Sigfússon:

Frú forseti. Ég þakka hv. formanni Frjálslynda flokksins, Guðjóni A. Kristjánssyni, fyrir að hreyfa þessu máli. Það er sannarlega ástæða til þess að taka málefni Landhelgisgæslunnar fyrir. Þau hafa svo sem oft borið á góma á hér þingi á undanförnum missirum og því miður fyrst og fremst vegna þess að Landhelgisgæslan hefur búið við varanlegt fjársvelti og á engan hátt getað beitt tækjakosti sínum og mannafla eins og skyldi í þágu sinna mikilvægu verkefna. Ég ætla fyrst og fremst að gera einn þátt málsins að umtalsefni, þ.e. það ófremdarástand sem skapast að óbreyttu 1. maí nk. ef þeir læknar sem mannað hafa björgunarþyrlur Landhelgisgæslunnar láta þá af störfum eins og gerist að óbreyttu.

Það fyrirkomulag að Landspítalinn -- háskólasjúkrahús hefur tekið að sér að sjá um mönnun þyrlunnar gegn greiðslu frá dómsmrn. hefur gefist vel þau fimm, sex ár sem það hefur verið við lýði. Það er líka rétt að hafa í huga í þessu sambandi að þar er um að ræða þrautþjálfaða lækna. Af sex læknum sem gegna þessari þjónustu að staðaldri eru fjórir þrautreyndir í þessu starfi og það væri mikil eftirsjá að því ef þeir sæju sér ekki fært að sinna þessu áfram.

Ég held að allur samanburður við sjúkraflutninga á landi sé einnig algerlega óraunhæfur hér enda er um langar ferðir að ræða við erfiðar aðstæður og oft getur skipt sköpum að læknisfræðimenntaður maður sé til staðar og létti áhyggjum af áhöfn þyrlunnar sem hefur um nóg annað að hugsa en líf og heilsu sjúklinganna þegar þeir eru þá komnir um borð.

Einnig er rétt að minna á að bandaríski herinn sem oft hefur gripið inn í í björgunaraðgerðum hér á landi er bæði að spara og fara ef svo má að orði komast. Ein sparnaðarráðstöfun sem þar hefur verið gripið til er sú að útkallstími er nú mun lengri en áður var þannig að það er enn fjær en áður að við Íslendingar getum á nokkurn hátt treyst á aðstoð þaðan. Nær væri að ræða hér um kaup á annarri öflugri björgunarþyrlu til þess að staðsetja fyrir norðan eða á norðaustanverðu landinu heldur en að tala um þrengingar af því tagi sem við stöndum frammi fyrir, ég tala nú ekki um ef hæstv. dómsmrh. ætlar að fara að teppa þyrluna frá björgunarstörfum við að snattast með gæluverkefni sitt, herinn.