Sjúkraflutningar Landhelgisgæslunnar

Miðvikudaginn 03. mars 2004, kl. 14:26:53 (4823)

2004-03-03 14:26:53# 130. lþ. 75.95 fundur 379#B sjúkraflutningar Landhelgisgæslunnar# (umræður utan dagskrár), dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 130. lþ.

[14:26]

Dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason):

Virðulegi forseti. Ég hef litlu við það að bæta sem ég sagði í upphafi. Ég hef ekki lýst því yfir hér að ég telji nauðsynlegt að það séu læknar um borð í þyrlunni. Það eru aðrir sem hafa talað á þann veg í þessum umræðum.

Ég hef sagt: Samningnum var sagt upp í janúar. Við erum að fara yfir málið og að sjálfsögðu verður búið þannig um hnúta að ekki skapist nein óvissa í þessu máli. En ég hef ekki skoðað alla þætti málsins enn þá og veit ekki hvort það er nauðsynlegt að hafa lækni um borð í þyrlunni til að veita það öryggi sem að er stefnt og vil ekki koma í þessar umræður og láta þess ógetið að ég hef ekki gert upp hug minn í því efni og það þarf að líta til þeirra þátta.

Ég er alveg undrandi á því að heyra ýmsa þingmenn standa hér og lýsa því yfir að það sé óhjákvæmilegt. Hvaða vitneskju hafa þeir um það? Sjónarhornið sem hv. þingmenn koma með frá Samf., dylgjur um það að allt sé í uppnámi og að eitthvert hættuástand ríki vegna þess að þessum samningi hefur verið sagt upp, er alrangt. Til marks um málefnafátækt Samf. í þessu máli eins og öðrum er hvernig þeir hafa hagað máli sínu hér og tala án þess að hafa nokkra vitneskju og nokkrar forsendur til að tala á þann veg sem þeir hafa gert.

Og hvað hafa þeir til þess að lýsa því yfir að það þurfi endilega alltaf að vera læknar um borð í þyrlum þegar þær eru sendar í slíka leiðangra? Þeir hafa ekki nokkra minnstu hugmynd um það frekar en þeir hafa hugmynd um hvort það ríki nokkurt hættuástand. Það ríkir ekkert hættuástand. Samningurinn er í gildi og verið er að vinna að því að fylla það tómarúm sem mun skapast ef þessi samningur gildir ekki áfram. Enginn þarf að óttast að það skapist eitthvert slíkt tómarúm að hér verði hættuástand vegna þess að ekki verði unnt að sinna þessari þjónustu á þann veg að öryggi landsmanna sé tryggt.