Tilkynningarskylda og afmörkun siglingaleiða

Miðvikudaginn 03. mars 2004, kl. 14:52:57 (4835)

2004-03-03 14:52:57# 130. lþ. 76.1 fundur 356. mál: #A tilkynningarskylda og afmörkun siglingaleiða# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi GHall
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 130. lþ.

[14:52]

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Hallvarðsson):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. fyrir svör hans. Það er ánægjulegt að heyra að unnið er af fullum krafti í þessu máli. Ég kom að því áðan að margt hefur breyst síðan þessi þáltill. var samþykkt og það er rétt eins og kom fram hjá hæstv. samgrh. að síðan hafa verið sett lög um vaktstöð siglinga sem auðvitað mun breyta mjög eftirliti með skipaumferð umhverfis landið og á hafinu hér út af þannig að þetta er allt í góðum farvegi.

Ég tek hins vegar undir og deili áhyggjum mínum með hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni varðandi strandsiglingar olíuskipa þar sem erlend áhöfn verður alls ráðandi innan ekki langs tíma. Auðvitað þarf að fylgjast vel með því. Einnig að viðurkennd uppeldisstöð þorsks er Selvogsbanki og það yrði dapurt ef þar yrðu alvarleg mengunarslys.

Ég endurtek þakkir mínar til hæstv. samgrh. Það var ánægjulegt að heyra að unnið er að þessu máli og það er greinilegt að lögð er vönduð og góð vinna í þetta verk og vonandi að það sjái dagsins ljós fljótlega á næsta ári.