Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 04. mars 2004, kl. 12:20:53 (4901)

2004-03-04 12:20:53# 130. lþ. 77.1 fundur 279. mál: #A stjórnarskipunarlög# (bráðabirgðalög, þingseta ráðherra) frv., JKÓ
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 130. lþ.

[12:20]

Jón Kr. Óskarsson:

Hæstv. forseti. Það er í sambandi við frv. til stjórnarskipunarlaga um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, með síðari breytingum. Það er eitt atriði sérstaklega sem ég vil koma að varðandi aðdraganda forsetakosninga. Í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands 1944, nr. 33, 17. júní, stendur í 3. gr.: Forseti Íslands skal vera þjóðkjörinn. 4. gr. segir: Kjörgengur til forseta er hver 35 ára gamall maður, sem fullnægir skilyrðum kosningarréttar til Alþingis, að fráskildu búsetuskilyrðinu. Svo kemur 5. gr. sem ég held að almenningur hnjóti mjög um og sem er algerlega út úr kortinu í dag:

,,Forseti skal kjörinn beinum, leynilegum kosningum af þeim, er kosningarrétt hafa til Alþingis. Forsetaefni`` --- þarna kemur setningin sem ég legg mikla áherslu á að sé algerlega út úr kortinu í dag, eins og íslenska þjóðin er og hefur fjölgað mikið frá 1944 --- ,,skal hafa meðmæli minnst 1.500 kosningarbærra manna og mest 3.000.``

Ef ég man rétt var þetta miðað við fjórðungana, Austfirðingafjórðung, Sunnlendingafjórðung, Norðlendingafjórðung og Vestfirðingafjórðung, svo og svo ákveðinn fjöldi úr hverjum fjórðungi.

Hvað skyldi Íslendingum hafa fjölgað mikið síðan 1944? Um tugi þúsunda, gott ef það eru ekki 150 þús. Við erum með tæp 300 þús. í dag. Ég vil að þetta sé sérstaklega skoðað mjög alvarlega því að við vitum að tilkynningar um framboð hafa verið að koma fram undanfarnar vikur, framboð sem ég mundi segja að væru gersamlega á skjön við það sem þjóðin vill hafa í sambandi við forsetaembættið og þá virðingu sem þetta embætti á að hafa í augum þjóðarinnar.