Textun

Fimmtudaginn 04. mars 2004, kl. 13:12:34 (4907)

2004-03-04 13:12:34# 130. lþ. 77.3 fundur 386. mál: #A textun# frv., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 130. lþ.

[13:12]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Ég lýsi fullum stuðningi við það frv. sem hér liggur frammi og þakka 1. flm., Sigurlín Margréti Sigurðardóttur, fyrir frumkvæðið í málinu.

Í mínum huga snýst frv. fyrst og fremst um mannréttindi, ekki eingöngu mannréttindi þeirra sem eru heyrnarlausir heldur mannréttindi allra þeirra sem búa við heyrnarskerðingu, og því miður, hæstv. forseti, fer sá hópur stækkandi, ekki bara vegna hækkandi aldurs þjóðarinnar heldur líka vegna heilsufarsvanda sem mun verða meira áberandi í framtíðinni, þ.e. að heyrnarskerðing er að verða algengari hjá yngra fólki en áður var. Það er áreitið í umhverfinu, hávaðamengun sem er þarna fyrst og fremst orsakavaldurinn, en við erum núna með unga kynslóð sem verður fyrir þessu áreiti, þessum skemmdum, og er að vaxa úr grasi þannig að við erum ekki enn farin að sjá hversu ungur þessi hópur verður í framtíðinni og hversu stór hann verður sem býr við þá skerðingu að njóta þess ekki að horfa og hlusta á íslenskt sjónvarpsefni og njóta þess sem þar er sagt.

Ég hef kynnst mjög mörgum fullorðnum einstaklingum sem frá miðjum aldri hafa kvartað undan því að heyra ekki það sem sagt er í sjónvarpinu. Þetta er fólk sem telur sig ekki eiga við heyrnarskerðingu að stríða, heyrir mjög vel talað mál þegar það er innan um aðra en segir að það sé svo margt í sjónvarpinu sagt hratt og óskýrt og fólk getur þá ekki hváð eða spurt: Hvað sagðirðu? Margir hafa bara gefist upp á að hlusta og njóta þess að hlusta á íslenskt efni, og á þetta þá sérstaklega við um fréttaefnið.

[13:15]

Ég tel að sá hópur sem þarf á þessu að halda sé í raun miklu stærri en fjöldi heyrnardaufra gefur til kynna. Miklu fleiri mundu njóta þess að eiga aðgang að upplýsingasamfélaginu og menningu en geta það í dag, stærri hópur en við gerum okkur grein fyrir.

Herra forseti. Fram undir þetta hefur farið saman umræða um að það sé óheyrilega dýrt að texta jafnharðan og það sé fyrir svo fámennan hóp að það sé ekki réttlætanlegt. Ég tel að hvorugt standist lengur. Í fyrsta lagi fleygir tækninni fram. Það verður sífellt ódýrara að texta beint og mun verða enn ódýrara í framtíðinni með aukinni tækniþróun. Þetta er ekki fámennur hópur heyrnarlausra heldur að auki stór hópur heyrnardaufra og fjöldi fólks sem nær ekki töluðu máli, t.d. þegar hratt er talað. Fólk beinir orðum sínum oft til unga fólksins og segir að það tali óskýrt og skilji ekki hvað margt ungt fólk segir. Textun mundi hjálpa fólki við að skilja talað mál.

Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta frv. Ég styð það heils hugar og það gerir Vinstri hreyfingin -- grænt framboð. Fulltrúi okkar, hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir, hefur oftar en einu sinni komið inn á mikilvægi þess að íslenskt sjónvarpsefni sé textað. Ég vísa til málflutnings hennar. Ég tel að þetta sé mannréttindamál og við eigum að fylgja nágrannaþjóðum í þessu efni sem og öðrum en jafnframt vil ég minna á táknmálið sem fyrsta mál heyrnarlausra. Ég tel mikilvægt að nota táknmálstúlkun við öll þau tækifæri sem hægt er og koma henni inn í sjónvarpsefnið líka.

Ég þakka enn og aftur fyrir þetta frv. Ég ætla að vona að það fái afgreiðslu á þessu þingi og verði ekki látið daga uppi. Það yrði þinginu til sóma ef við afgreiddum það núna í stað þess að láta það daga uppi og endurflytja það ár eftir ár.