Útvarpslög o.fl.

Fimmtudaginn 04. mars 2004, kl. 16:24:50 (4940)

2004-03-04 16:24:50# 130. lþ. 77.2 fundur 337. mál: #A útvarpslög o.fl.# (stofnun hlutafélags, útvarpsgjald o.fl.) frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 130. lþ.

[16:24]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað yrði það dálítið spéleg staða ef upp kynni að koma að Ríkisútvarpið yrði sameinað Norðurljósum, og kannski ekki það sem hv. þm. er að þessu máli standa stefna að. Vissulega gæti það komið til álita og það hefur einfaldlega verið þannig að flestar þær stöðvar sem hafa verið stofnaðar hafa á einn eða annan hátt endað inni í Norðurljósum.

Það sem ég átti við áðan þegar ég sagði að mér þætti eftirtektarvert að það væri fyrir fram ákveðið hver dagskráin eða efnið yrði var ég að vísa til þess sem segir í frv. að útvarpsráði sé ,,skylt að bjóða út þá dagskrá sem það er ábyrgt fyrir``, þ.e. það er ábyrgt fyrir tiltekinni dagskrá sem skuli stefna að einhverju, hafa tiltekin markmið o.s.frv. Það sem ég vildi vekja athygli á áðan var að í ljósi þess að verið er að yfirfæra eignarhaldið frá ríkinu yfir á einkaaðila er fyrir fram ákveðið að einhverju leyti hvert efnið skuli vera. Það er kannski ekki í anda þess sem hv. þm. Pétur Blöndal hefur gefið sig út fyrir, að vera ekki með um of mikla forsjárhyggju þegar það á við.

Ég hef kannski ekki miklu við þetta að bæta. Ég verð þó að segja að ég er ekki viss um að það mundi bæta fjölmiðlaflóruna þó að Ríkisútvarpið yrði sameinað Norðurljósum. Það er ljóst að það er ekkert í þessu sem kemur í veg fyrir að af því kynni að verða.