Útvarpslög o.fl.

Fimmtudaginn 04. mars 2004, kl. 16:26:21 (4941)

2004-03-04 16:26:21# 130. lþ. 77.2 fundur 337. mál: #A útvarpslög o.fl.# (stofnun hlutafélags, útvarpsgjald o.fl.) frv., Flm. PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 130. lþ.

[16:26]

Flm. (Pétur H. Blöndal) (andsvar):

Frú forseti. Þetta byggir náttúrlega á ákveðnum misskilningi með efnið. Það er útvarpsráð sem starfar áfram, fær fjárveitingar frá ríkinu og býður út efni. Útvarpsráð gerir ekki neitt sjálft. Það rekur enga stöð. Það framkvæmir ekkert sjálft. Það bara býður út dagskrá sem hver og einn getur boðið í. Það getur boðið út hluta af dagskránni. Það getur boðið út ákveðið verkefni, t.d. leikhús. Leikfélag Akureyrar getur boðið í o.s.frv.

Varðandi það að Norðurljós kaupi RÚV. Við höfum tæki í þjóðfélaginu til að hindra það. Það er Samkeppnisstofnun. Hún mun skoða hvort þetta valdi of mikilli samþjöppun á þessum markaði, nákvæmlega eins og á öllum öðrum mörkuðum. Og ég er ansi hræddur um að ef ekki verði þeim mun meiri aukning á þeim stöðvum sem standa utan við þetta, t.d. Skjá 1, muni hún banna slíkan samruna og slíka sameiningu, nákvæmlega eins og hún hefur gert á öðrum sviðum, t.d. á fjármálamarkaði. Við erum með tæki til að koma í veg fyrir þvílíkt og eigum ekki að þurfa að hafa áhyggjur af því sérstaklega.

Svo vil ég benda á að ef af slíkri sameiningu skyldi verða, þrátt fyrir Samkeppnisstofnun, fara náttúrlega alls konar útvarpsstöðvar að blómstra til hliðar sem keppa þá við risann. Þetta er þekkt alls staðar. Ef menn eru hræddir við samkeppni á þessum markaði mættu þeir vera hræddir við samkeppni á öllum markaði.