Útvarpslög o.fl.

Fimmtudaginn 04. mars 2004, kl. 16:30:33 (4943)

2004-03-04 16:30:33# 130. lþ. 77.2 fundur 337. mál: #A útvarpslög o.fl.# (stofnun hlutafélags, útvarpsgjald o.fl.) frv., Flm. PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 130. lþ.

[16:30]

Flm. (Pétur H. Blöndal) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrir hlýleg orð um skynsamlega framsetningu á frv.

Í fyrsta lagi, varðandi það að útvarpsráð muni áfram stunda menningarítroðslu. Það er rétt en það er þekkt fyrirbæri að þegar maður ætlar að gleypa fíl þá byrjar maður á einum bita. Þetta er spurningin um að ná því fram að breyta yfirleitt einhverju. Því sætti ég mig við að ríkisvaldið stundi slíka menningarstarfsemi jafnvel þótt ég sé kannski ekki sammála því í hjartanu. En það er betra að ríkið bjóði hana út og stundi starfsemina þannig en að það standi í rekstri og ráði til þess fólk o.s.frv.

Varðandi menningarfjársjóðinn þá er vissulega mikill menningarfjársjóður í Ríkisútvarpinu. Þarna eru til hljóðritanir og viðtalsþættir langt aftur í tímann. Þetta eru verðmæti sem verða seld með. Við höfum sem betur fer heilmikið af menningarverðmætum í eigu einstaklinga og fyrirtækja og þykir ekkert að því. Ég er ekkert viss um að einstaklingar séu verr til þess fallnir að gæta slíkra verðmæta en opinberir starfsmenn. Ég hef engar áhyggjur af því að þessi menningarfjársjóður glatist. Hugsanlega þyrfti að gæta að því að hann verði ekki fluttur úr landi líkt og gildir um önnur menningarverðmæti.

Varðandi samfellda starfsemi stofnunarinnar í 75 ár. Hún heldur áfram. Meiningin er að RÚV starfi áfram sem RÚV hf. og kannski er það tryggt um alla framtíð með þessu að starfsemin haldi áfram og verði samfelld.