Útvarpslög o.fl.

Fimmtudaginn 04. mars 2004, kl. 16:34:24 (4945)

2004-03-04 16:34:24# 130. lþ. 77.2 fundur 337. mál: #A útvarpslög o.fl.# (stofnun hlutafélags, útvarpsgjald o.fl.) frv., Flm. PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 130. lþ.

[16:34]

Flm. (Pétur H. Blöndal) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. hefur miklar áhyggjur af menningarverðmæti og fjársjóðum. Menningarfjársjóðirnir felast í þjóðinni sjálfri. Það eru kaffistofur þessa lands, litlu leikhúsin, það eru karlakórarnir, kvennakórarnir og samkórarnir um allt land. Þar er menningin. Menningunni er ekki stýrt ofan frá. Hún myndast með þjóðinni. Þetta heitir menning, eitthvað sem tengist mönnum. Starfsemi manna. Verðmætin eru þar.

Það sem frv. gerir, ef það nær fram að ganga, er að sú menning mun blómstra sem aldrei fyrr þegar farið verður að bjóða út leikrit og útvarpsþætti. Þar geta allir boðið, Skagfirska söngsveitin, eitthvert kvæðamannafélagið o.s.frv. Þá fer menningin fyrst að blómstra. Þegar litlu leikhúsin á Reykjavíkursvæðinu, Akureyri og víðar, um allt land, geta farið að bjóða í þætti sem útvarpsráð býður út, gerð á ákveðnum þáttum, ákveðnum leikritum, leikrit eftir Shakespeare sem á að setja upp eða eitthvert innlent leikrit, t.d. Maður og kona. Þá geta litlu leikhúsin boðið í þetta og þau munu blómstra. Ég hugsa að þegar listamenn og aðrir sem búa til menningu átta sig á því hvernig þetta frv. mun virka þá muni þeir gleðjast og styðja það.

Það var ekki meiningin að koma Ríkisútvarpinu fyrir kattarnef. Það var meiningin að koma fyrir kattarnef þessari opinberu menningarítroðslu ofan frá. Menningin myndast alltaf neðan frá.