Útvarpslög o.fl.

Fimmtudaginn 04. mars 2004, kl. 16:54:28 (4947)

2004-03-04 16:54:28# 130. lþ. 77.2 fundur 337. mál: #A útvarpslög o.fl.# (stofnun hlutafélags, útvarpsgjald o.fl.) frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 130. lþ.

[16:54]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þm. að það að einhver geti keypt fyrirtæki er ekki endilega réttlæting fyrir því að ríkið reki fjölmiðlafyrirtæki. Hins vegar var rétt að velta þeirri spurningu upp þar sem félagið á fyrir margar sjónvarpsrásir og margar útvarpsrásir og munar sennilega ekki mikið um að bæta einni sjónvarpsrás og tveimur útvarpsrásum við.

Það voru ákveðnar hamingjuhugmyndir fólgnar í ræðu hv. þm. og það mundi leysa öll þau vandamál sem við væri að etja á þessum markaði núna aðeins ef þessu eignarhaldi væri breytt. Það er kannski grundvallarspurningin sem verið er að ræða og full ástæða til að þakka það að menn varpi fram þeirri spurningu hvort ríkið eigi að vera í fjölmiðlarekstri eða ekki.

Þó er kannski eitt sem vert er að staldra við í þessu samhengi, þar sem hv. þm. gekk dálítið langt í að lýsa því yfir að allt yrði betra og fært til betri vegar ef eignarhaldinu yrði breytt, allir mundu græða og flestir yrðu hamingjusamir. Það sem mig langaði að velta út í umræðuna er að það sem skiptir fjölmiðla hvað mestu máli er trúverðugleikinn, og sennilega skiptir hann fjölmiðla langmestu máli þegar allt er skoðað.

Frá árinu 1986, ef ég man ártalið rétt, hefur fjölmiðlaumhverfið verið þannig að menn hafa getað rekið sinn eigin fjölmiðil. En ég man ekki eftir því að í nokkurri könnun hafi komið fram að almenningur hafi talið aðra fjölmiðla hafa meiri trúverðugleik en ríkisfjölmiðlana. Það er því ekki alveg hægt að halda því fram að ríkið sé í þeim skilningi vonlaus eignaraðili, því að einkaaðilar hafa ekki náð þeirri stöðu að mælast með meiri trúverðugleik en ríkisfjölmiðlar. Ríkið er því ekki alveg vonlaus eignaraðili að fjölmiðlum.