Útvarpslög o.fl.

Fimmtudaginn 04. mars 2004, kl. 17:03:00 (4951)

2004-03-04 17:03:00# 130. lþ. 77.2 fundur 337. mál: #A útvarpslög o.fl.# (stofnun hlutafélags, útvarpsgjald o.fl.) frv., BÁ
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 130. lþ.

[17:03]

Birgir Ármannsson:

Hæstv. forseti. Ég ætla að taka til máls til þess að taka undir með meðflutningsmönnum mínum að þessu frv., hv. 1. flm. Pétri H. Blöndal og hv. 10. þm. Reykv. n., Sigurði Kára Kristjánssyni. Þeir hafa gert nákvæma grein fyrir efni frv. og rökunum á bak við þær breytingar sem þar eru boðaðar og ég ætla ekki að fara ítarlega út í þá sálma. Það hefur þegar verið gert, farið vandlega yfir það og rakið vel.

Hins vegar eru örfá sjónarmið sem mig langaði rétt aðeins til að kæmust að í þessari umræðu. Þar á meðal er rétt, þegar þingmenn skoða frv. og taka afstöðu til þess, að þeir velti fyrir sér hvers vegna ríkið er umsvifamikið á þessu sviði fjölmiðlamarkaðarins en ekki á öðrum svo sem í dagblaðaútgáfu. Það á sér fyrst og fremst sögulegar ástæður.

Á þeim tíma þegar útvarpstækni var að koma til sögunnar á fyrri hluta þessarar aldar hér á landi, á þriðja og fjórða áratugnum, var sú stefna ríkjandi í þjóðfélaginu, má segja, að ríkisumsvif fóru vaxandi. Þegar til kom ný tækni sem þar að auki var töluvert dýr og kostnaðarsöm var nokkuð víðtæk samstaða um að ríkið færi út í þennan rekstur.

Til dæmis á dagblaðamarkaðnum, sem er mun eldri, hefur ekki komið til tals að hafa ríkisrekstur á rekstri dagblaða, hvorki hér á landi né annars staðar í löndum sem við berum okkur saman við. Það hefur ekki komið til vegna þess að þegar dagblaðaútgáfa hófst af krafti í þeirri mynd sem við þekkjum í dag voru ekki uppi sömu sjónarmið um umsvif og afskipti ríkisins og voru snemma á síðustu öld þegar útvarpsreksturinn kom til skjalanna.

Rétt er að hafa þetta í huga vegna þess að stundum tala menn og fjalla um þessi mál eins og það sé náttúrulögmál að ríkið sé í útvarpsrekstri en ekki á öðrum sviðum fjölmiðlunar. Ég held að þetta beri að hafa í huga. Það skýrir líka hvers vegna frv. af þessu tagi er borið fram. Straumar og stefnur hafa breyst með þeim hætti í þjóðfélaginu að æ fleiri sjá kosti þess að einkaaðilar taki við rekstri á þeim sviðum þar sem þeir eru fullfærir um að veita jafngóða eða betri þjónustu en ríkisvaldið. Víðtæk samstaða hefur verið um það bæði hér á landi og í nágrannalöndunum að draga ríkið út úr rekstri sem einstaklingar geta sinnt.

Það sem við flutningsmenn frv. höfum í huga er að greina nákvæmlega á milli annars vegar rekstrarþáttanna sem við teljum að séu best komnir hjá einkaaðilum og síðan horfum við á ákveðin hlutverk sem menn geta deilt um hvort ríkið eigi að hafa með höndum, en við gerum ráð fyrir samkvæmt frv. að áfram verði á hendi ríkisins að sjá til þess að á markaði útvarps- og sjónvarpsrekstrar sé sinnt ákveðnu menningarhlutverki, ákveðnu öryggishlutverki og ákveðnu hlutverki varðandi þjóðfélagsumræðu. En við segjum sem svo: Jafnvel þó að ríkið beiti sér fyrir því að þessum mikilvægu hlutverkum sé sinnt með einhverjum hætti er ekki þar með sagt að ríkið eigi að reka stofnunina eða fyrirtækið sem annast framkvæmdina. Á því er gríðarlegur munur.

Við veltum fyrir okkur hverjir séu gallarnir við núverandi rekstrarfyrirkomulag. Það er auðvitað rétt að hafa í huga í þessu sambandi að við sem flytjum frv. flytjum það ekki gegn Ríkisútvarpinu eða gegn þeim starfsmönnum sem þar starfa, öðru nær. Það sem við höfum gagnrýnt og viljum breyta með frv. er það að rekstrarfyrirkomulagið hefur ýmsa galla í för með sér og þeir hafa verið raktir í ræðum annarra hv. þm. í dag. Skylduáskriftin eins og við þekkjum hana er afar óhentugt, óréttlátt og óskynsamlegt fyrirkomulag til að fjármagna starfsemi á fjölmiðlasviðinu. Samkeppnisskilyrði á ljósvakamarkaðnum eru mjög brengluð vegna Ríkisútvarpsins, og við horfum auðvitað á það í því sambandi að einn aðilinn á markaðnum fær til sín skyldugreiðslur allra sem kaupa tiltekin tæki sem notuð eru til að móttaka sendingar bæði á útvarps- og sjónvarpssviði. Samkeppnisstaðan á auglýsingamarkaðnum er brengluð. Samkeppnisstaðan varðandi öflun efnis er líka brengluð, og svo má segja að samkeppnisstaðan varðandi hæft starfsfólk sé líka brengluð með þessu fyrirferðarmikla hlutverki ríkisins.

Við þetta má svo bæta að um það má efast að rekstur Ríkisútvarpsins hafi alltaf verið í góðu horfi. Ég vil ekki kenna þeim starfsmönnum um sem þar halda á málum, heldur rekstrarfyrirkomulaginu sem er í eðli sínu mjög óhagkvæmt og leiðir að mínu mati til óhagkvæmni en ekki hagstæðustu lausna.

Við gætum auðvitað hugsað okkur, eins og maður heyrir stundum á máli þingmanna, að hægt væri að leysa afmörkuð vandamál með einhverjum afmörkuðum hætti. Það hefur verið gagnrýnt að ríkið væri á auglýsingamarkaði og þá hafa menn komið og sagt að það ætti bara að taka ríkið út af auglýsingamarkaði en hafa það áfram í starfsemi sinni að öðru leyti. Talað hefur verið um að afnema mætti skylduáskriftina og afla fjár til starfseminnar með framlögum af fjárlögum. Það hafa líka verið reifaðar alls konar hugmyndir sem varða stjórnarfyrirkomulag Ríkisútvarpsins og hvernig ákvarðanatöku er háttað og þess háttar.

Allt eru þetta afmarkaðir þættir viðfangsefnisins og það sem við tillöguflytjendur gerum í þessu máli er að leggja fram lausn sem nær til allra þessara þátta. Við erum ekki að ráðast á einstaka anga af vandamálinu, að leysa einstök vandamál, heldur í rauninni að leggja fram tillögu sem felur í sér uppbrot og endurskipulagningu á þessu kerfi með það fyrir augum að leysa öll þessi vandamál.

Það kom fram í máli hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar áðan að honum fannst gæta nokkurrar forræðishyggju í frv. varðandi það að ríkið hefði áfram í gegnum útvarpsráð með höndum ákveðna stýringu á því hverjar áherslur væru með því að bjóða út tiltekna þætti útvarpsstarfsemi svo sem eins og að bjóða út gerð efnis á menningarsviðinu, fréttasviðinu eða einhverjum slíkum sviðum. Það er vissulega rétt að með frv. er alls ekki verið að stíga það skref að ríkið haldi algjörlega að sér höndum varðandi útvarps- og sjónvarpsrekstur í landinu. Það er ekki verið að gera það. Við getum tekið aðra umræðu um það, en það er ekki verið að gera það í þessu frv.

Það sem verið er að gera er að fela einkaaðilum að sjá um framkvæmd ákveðinna markmiða á sviði útvarpsrekstrar, verið er að fela einstaklingum og einkaaðilum rekstur en hlutur ríkisins verði einvörðungu í því fólginn að tryggja með kaupum á efni eða fjármögnun verkefna, við getum orðað það svo, að ákveðnum hlutum sé sinnt, eins og á menningarsviðinu, á öryggissviðinu og í sambandi við þjóðfélagsumræðu. Í raun og veru má því segja að í frv. felist ákveðin málamiðlun milli ólíkra sjónarmiða á þessu sviði, málamiðlun milli sjónarmiða þeirra sem vilja að ríkið hverfi alfarið út úr þessum rekstri og þeirra sjónarmiða sem gera ráð fyrir að ríkið sé áfram umfangsmikið og hafi þarna umfangsmiklu hlutverki að gegna. En það er síðan svolítið önnur umræða hvort við teljum nauðsynlegt að ríkið, með kaupum eða fjármögnun verkefna í gegnum útvarpsráð, haldi uppi gerð menningarefnis, þáttagerð og gerð fréttaefnis og annars slíks efnis.

Að lokum varðandi þá umræðu sem hér hefur aðeins örlað á í sambandi við samkeppnisumhverfið, þá er það skoðun okkar tillöguflytjenda að breyting af þessu tagi yrði til þess að efla mjög samkeppni á ljósvakamarkaðnum. Það hefur verið rakið hér að með því að hafa þetta útboðsfyrirkomulag sé verið að gefa fleiri aðilum tækifæri til að koma inn. Það hefur verið rakið að núgildandi samkeppnislög geri, að okkar mati, sameiningu Ríkisútvarpsins hf. og stærstu fyrirtækja eða stærsta fyrirtækisins sem í dag er í eigu einkaaðila ómögulega. Ég get ekki lesið samkeppnislögin öðruvísi en að komast að þeirri niðurstöðu að slíkur risasamruni á þessu sviði, ef við getum orðað það svo, væri óheimill og ógerlegur miðað við þær forsendur.

En við verðum líka að horfa á það að með því að draga úr þætti ríkisins á þessu sviði kann líka að vera að svigrúm skapist, aukið svigrúm fyrir nýja aðila til að koma inn á þennan markað. Ég vil ekki útiloka að það geti líka gert það fyrir svo utan það sem nefnt hefur verið að frv. gerir ekki ráð fyrir að Ríkisútvarpið verði lagt niður heldur að stofnað verði hlutafélag sem áfram verður í starfsemi á þessu sviði.

Loks má auðvitað geta þess af því að það hefur ekki komið fram áður í umræðunni að það hefur auðvitað verið uppi umræða um það eins og hv. þm. þekkja að fjölmiðlamarkaðnum verði sett löggjöf sem m.a. hefði það hlutverk að koma í veg fyrir samþjöppun á eignarhaldi á því sviði. Við vitum ekki hverjar verða niðurstöður í því hjá þeirri nefnd sem menntmrh. skipaði á síðasta ári um það efni. Við þekkjum það frá löndunum í kringum okkur að mjög víða gilda ákveðnar reglur á því sviði. Það er hins vegar utan við gildissvið þessa frv. og ég held að núgildandi samkeppnislög eigi alla vega að koma í veg fyrir þann risasamruna sem mér heyrðist að hv. þm. Lúðvík Bergvinsson hefði áhyggjur af hér áðan.