2004-03-08 15:21:48# 130. lþ. 78.94 fundur 388#B yfirlýsing ríkisstjórnarinnar vegna kjarasamninga á almennum vinnumarkaði# (tilkynning ráðherra), GAK
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 130. lþ.

[15:21]

Guðjón A. Kristjánsson:

Hæstv. forseti. Þingflokkur Frjálsl. fagnar því að aðilum vinnumarkaðarins, þ.e. Starfsgreinasambandinu og Flóabandalaginu, skuli hafa tekist að koma á kjarasamningi til fjögurra ára við Samtök atvinnulífsins í gær. Miklar líkur eru til að þetta frumkvæði launþega hafi enn og aftur tryggt stöðugleika í landinu. Sérstök hækkun lágmarkslauna upp á 100 þús. kr. er áfangi á réttri leið sem lyftir undir betri afkomu þeirra sem verst eru settir.

Sömuleiðis eru auknar inngreiðslur í lífeyrissjóði merkur áfangi í að bæta afkomu fólks á efri árum. Í því sambandi vil ég minna á tillögur Frjálsl. sem fluttar hafa verið á þingi á undanförnum árum um að lífeyrir fólks úr lífeyrissjóði skerði ekki bætur úr almannatryggingum eins og nú er. Ef marka má niðurlag 2. tölul. í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, segir, með leyfi forseta, um lífeyrisnefndina:

,,Nefnd mun taka til meðferðar m.a. að því er varðar verkaskiptingu milli lífeyrissjóða og almannatrygginga.``

Þá er spurt: Er ætlað að taka á samspili lífeyrisgreiðslna úr sameignarsjóðum og almannatryggingabótum, þ.e. jaðaráhrifum skerðinga þegar fólk fær tekjur úr lífeyrissjóðum? Er það það sem átt er við í 2. tölul. í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar?

Almennt um yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar fögnum við því að ríkisstjórnin skuli koma að málum með þeim hætti sem hér er gert og teljum að mikil ábyrgð sé því samfara að reyna að tryggja vinnufrið til fjögurra ára. Ég verð hins vegar að segja það, virðulegi forseti, að ég sakna þess að ekki skuli vikið að lækkandi raungildi persónuafsláttarins. Í raun og veru er ekkert vikið að skattamálunum sem slíkum í yfirlýsingunni. Við höfum eingöngu orð hæstv. forsrh. áðan þegar hann sagði úr þessum ræðustól að öll áform --- ef ég hef tekið rétt eftir, virðulegi forseti --- ríkisstjórnarflokkanna um skattalækkanir mundu koma til framkvæmda.

Við eigum auðvitað eftir að sjá útfærsluna og hvað það þýðir þegar verið er að að tala um stöðu láglaunafólks í landinu og hvað það þýðir fyrir barnafjölskyldur. Þeim málum er ekki lokið og að því leyti til getum við ekki lagt dóm á það sem mun fylgja þeim pakka, sem ég skil samkvæmt yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að óefnt sé, þ.e. allur skattaloforðapakkinn. Hann er ekki uppi á borðum til umræðu því ríkisstjórnin gerir ekki grein fyrir honum í yfirlýsingu sinni.

Því ber auðvitað að fagna að atvinnuleysisbæturnar eru hækkaðar og munu halda áfram að hækka í áföngum á samningstímabilinu. Atvinnuleysisbætur hafa verið allt of lágar hér á landi, því miður, og þess vegna ber virkilega að fagna þeim áfanga.

Það ber líka að fagna því alveg sérstaklega að nú er verið að huga að lífeyrisgreiðslum almennt í kjarasamningum og ríkisstjórnin tekur undir að koma að þeim málum enn frekar í yfirlýsingu sinni þar sem talað er um sérstaka lífeyrisnefnd. Allt eru þetta hlutir sem verkalýðshreyfingin hlýtur að meta sem svo að horft sé til þess í framtíðinni að bæta stöðu lífeyrisþega. Það er geysimikið mál, eins og lífeyrismál hafa þróast hér á landi á undanförnum árum, að hífa upp rétt verkafólksins, því það er alveg ljóst að þær vonir sem við gerðum okkur um að lífeyrissjóðirnir yrðu meginstoð í afkomu fólks á efri árum hefur ekki gengið eftir eins og menn vonuðust til og lengra í það en menn áttu kannski von á. Þess vegna ber að fagna því sem hér er lagt til.

Varðandi afstöðu Frjálsl. til málsins munum við auðvitað leggja góðum málum lið eins og við höfum alltaf gert á hv. þingi.