2004-03-08 16:08:05# 130. lþ. 78.8 fundur 652. mál: #A Stofnun Vilhjálms Stefánssonar og samvinnunefnd um málefni norðurslóða# (stjórn) frv., MÁ
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 130. lþ.

[16:08]

Mörður Árnason:

Virðulegi forseti. Hér er lagt fram frv. um breytingu á lögum um Stofnun Vilhjálms Stefánssonar og samvinnunefnd um málefni norðurslóða. Meginefni þess er að hæstv. umhvrh. hyggst leggja niður stjórn sem á að vera í þessari stofnun samkvæmt lögunum frá 1997.

Það verður strax að segja um það mál að undarlegt er að þess skuli ekki getið í athugasemdum við lagafrv. þetta að stjórnin sem skipuð var að ég hygg árið 1998 þegar stofnunin tók til starfa til þriggja ára, að sú stjórn situr enn --- eða situr ekki --- og hefði átt að endurskipa væntanlega árið 2001 en hefur dregist til ársins 2004. Ef allt væri eðlilegt væri stjórn númer tvö að skila af sér verki sínu. Áður en maður ræðir málið sjálft hlýtur þingmaður í mínum sporum, sem nýr er á þingi og ókunnugur málatilbúnaði og stjórnsýslu í hinu mikla ráðuneyti hæstv. umhvrh., að beina því til ráðherrans hvort þetta séu almennir siðir í ráðuneytinu, að fara ekki að lögum sem mæla fyrir um skipan stjórnar af því að einhvers konar stefna hefur verið tekin upp í ráðuneytinu eða hjá ráðherranum um að leggja stjórnina niður.

Ég hélt að það væri þannig að þegar Alþingi hefði samþykkt lög væri það ráðherranna að framkvæma það sem tilskilið er í lögunum, sama hvort þeim þætti það vera snjallt eða ósnjallt, og leið þeirra til þess að komast hjá slíkum framkvæmdum væri sú ein að leggja til breytingar á lögunum, sem þeir reyndar hafa nokkuð greiða leið til, greiðari en ýmsum finnst við hæfi, samanber orð Sigurðar Líndals í sjónvarpsþætti hjá Agli Helgasyni í gær, sem voru eiginlega þingræði okkar og Alþingi ekki mjög mikill vitnisburður.

Ég óska eftir því að ráðherrann svari þessu og svari því líka hvort svo er ástatt um fleiri stofnanir sem hún hefur einhvers konar forræði fyrir, að þær séu stjórnarlausar, að ég segi ekki stjórnlausar, af þeim völdum að ráðherra hafi ekki hirt um að skipa stjórnina og hvort hún telji þetta í samræmi við góða stjórnsýslu almennt.

Svo ætla ég að segja þetta, að ég hygg að það sé almennt rétt lína að stofnanir sem eru beint undir ráðuneyti settar eigi að heyra undir ráðherrann og ráðherrann einan og ekki sé heppilegt að auk óbeinnar stjórnar framkvæmdarvaldsins um forstöðumenn sína eða yfirmenn í stofnunum séu aðrar stjórnarnefndir að blanda sér þar inn eða aðrar stjórnir, hvort sem þær eru kosnar á Alþingi eða skipaðar, með tilnefningum eða án, af ráðherranum.

Mér finnst þetta einkum eiga við um þær stofnanir sem eru eiginlegar stjórnsýslustofnanir, sem falið er að fara með hluta af ríkisvaldinu til valdboðs eða úrskurðar eða þjónustu við borgarana. Mér finnst hins vegar ekki gegna sama máli um þær opinberu stofnanir í samfélagi okkar sem ekki eru glögglega stjórnsýslustofnanir, eða eru það ekki nema að nokkru leyti og takmörkuðu. Til dæmis um rannsóknastofnanir og vísindastofnanir tel ég að annað geti gilt.

Ég nefni þetta vegna þess að hæstv. ráðherra hefur ekki, hvorki í athugasemdum sínum við lagafrv. né í hinni merku framsöguræðu sinni hér á fundinum, gert neinn greinarmun á þessu tvennu. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra, og spyr hana hér með, hvort henni þyki þetta gilda einu og að það skipti ekki máli hvers eðlis, hverrar gerðar stofnunin sé sem um ræðir.

Í þessu tilviki tel ég að umhvn., sem væntanlega fær frv. til skoðunar, þurfi að leggjast vel yfir það hvort skynsamlegt er fyrir stofnunina og þau málefni sem hún á að sinna að stjórninni, sem reyndar er á mörkunum að sé til, sé fleygt burtu. Stofnunin á fyrst og fremst að vera upplýsingastofnun, rannsókna- og vísindastofnun, og hún gegnir miklu og merku hlutverki í alþjóðlegu samstarfi. Ég hygg að það geti verið gott fyrir stofnun af þessu tagi að njóta stjórnar sem vel sé skipuð og getur eflt hennar hróður og aukið starf hennar og heiður, bæði innan lands og erlendis.

[16:15]

Þegar lesin eru lögin nr. 81/1997, um stofnunina og samvinnunefnd um málefni norðurslóða, sést glöggt að stofnunin er ekki af stjórnsýslutagi. Það má kannski segja að fræðslumiðlun um málefni norðurslóða til skóla og almennings annars vegar og hins vegar ráðgjöf um málefni norðurslóða, einkum umhverfisvernd og sjálfbæra þróun eins og sagt er hér í tveimur af sjö liðum um hlutverk og markmið stofnunarinnar, séu stjórnsýsluverkefni en það verður þá að segja eins og er að þau eru meðframverkefni og aukaverkefni. Aðalverkefnið er auðvitað að vera vísindastofnun og stofnun þar sem laðað er til alþjóðlegs samstarfs um þau málefni norðurslóða sem skipta okkur sífellt meiru og meiru og eiga eftir að gera á næstu árum og áratugum vegna margvíslegra breytinga sem eru að gerast á norðurslóðum, bæði náttúrulegar og félagslegar breytingar sem við erum þegar farin að verða vör við, sennilega hvorar tveggju.

Um þessa stofnun er það svo að auki að segja að eins og nafn laganna bendir til á hún að rekast og starfa í samhengi við svokallaða samvinnunefnd um málefni norðurslóða sem um er fjallað í sömu lögum. Í lögunum eins og þau eru nú tengist þetta tvennt, ekki bara í því að vera í sömu lögum, heldur líka í því að formaður samvinnunefndarinnar er jafnframt stjórnarformaður stofnunarinnar. Ef hæstv. umhvrh. á að fá fram vilja sinn um það að stjórnin verði aflögð er engin formleg tenging milli Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar og þeirrar samvinnunefndar um málefni norðurslóða sem á að starfa í samhengi við hana. Ég lýsi eftir því hjá umhvrh. með hvaða hætti eigi að sjá um þá tengingu ef hæstv. ráðherra hefur sitt í gegn hér um þetta mál.

Að lokum er svolítið undarlegt að þessi stofnun frá 1997 skuli ekki hafa neina reglugerð um sig. Umhvrh. hefur fengið heimild til að setja slíka reglugerð og sett var reglugerð um samvinnunefndina, reglugerð nr. 506/1997, um leið og lögin voru sett. Guðmundur Bjarnason, hinn ágæti fyrrv. ráðherra, skrifaði undir þá reglugerð en síðan hefur ekkert gerst. Þegar maður fer að skoða málefni stjórnar stofnunarinnar kemur í ljós að ráðherrann og ráðuneytið hafa kannski lítið að þessari stofnun hugað. Það kann að vera ágætt að hún fái að þróast frjáls og glöð en þetta þarf sem sé að skoða vel.

Ég vil aðeins ítreka að það gildir um nokkrar stofnanir af ýmsu tagi sem ríkið setur á stofn eins og um þessa að það má kannski segja að hún er ekki endilega --- nú vantar hina ágætu hv. ungu þingmenn Sjálfstfl. í salinn --- af því tagi að hún eigi nauðsynlega að heyra undir ríkisvaldið. Stofnunin er þess eðlis að hún gæti vel verið til með einhvers konar öðrum aðferðum en þeim að vera í skúffu hjá ríkisvaldinu, hjá umhvrn. eins og hún er nú. Hún gæti verið sjálfstæð eða byggst á samvinnu frumkvöðla ýmissa, einkaframtaks og vísinda. Það er einmitt spurning hvort slík stofnun á þá ekki að njóta þess að hafa góða stjórn. Það er mikilvægt fyrir stofnun af þessu tagi að njóta sjálfstæðis, að geta gefið ráð sem hún á að gera með fullri reisn án þess að þurfa að taka mikið pólitískt tillit til ráðherrans sem skipar forstöðumann og kemur að stofnuninni með öðrum hætti. Það er jafnvel spurning --- a.m.k. má spyrja sig að því og ég geri ráð fyrir að við gerum það í umhvrn. --- hvort ekki ætti frekar að efla stjórnina og verksvið hennar, sem er fremur óljóst í lögunum, og hugsanlega breyta tilnefningum í hana eða skipan hennar. Það er þannig núna að ráðherrann, umhvrh., skal skipa formann og einn mann í viðbót án tilnefningar. Þriðji maður er svo tilnefndur af samvinnunefndinni sem auk formanns og umhvrh. er samansett af fulltrúum ýmissa stofnana sem þetta málefni einkum varðar.

Það er ekki alveg að ástæðulausu að ég nefni þetta. Hæstv. umhvrh. hefur sýnt það að undanförnu að hún virðist ekki bera skynbragð á það hvernig vísindastofnunum og rannsóknastofnunum sé best stjórnað og virðist leggja á það ofurkapp að setja einhvers konar sína menn, þæga og undir áhrifum, í velflest embætti sem opnast geta, en víkja þaðan burt rannsóknarmönnum, sjálfstæðum fræðimönnum eða öðrum þeim sem kynnu að gera eitthvað annað en umhvrh. hæstv. vill að þeir geri þegar upp koma erfið pólitísk deilumál.

Því miður er það fordæmi slæmt sem hæstv. umhvrh. sýndi um daginn með því að víkja burt úr stjórn Rannsóknastöðvarinnar við Mývatn hæfum og góðum fræðimanni og setja þar í staðinn einn af embættismönnum sínum. Því miður er það dæmi þannig að álit manns á hæstv. umhvrh. sem nú situr fer dofnandi og það er álitamál hvort verulega eigi að harma það að hún sé að yfirgefa starf sitt og ráðuneyti þegar þar að kemur í haust eða hvort maður ætti kannski að vona að það gerðist jafnvel enn þá fyrr.

Þetta segi ég að gefnu tilefni auk þeirra athugasemda sem við munum væntanlega leggjast yfir í umhvn. um þetta tiltekna mál.