2004-03-08 16:39:23# 130. lþ. 78.8 fundur 652. mál: #A Stofnun Vilhjálms Stefánssonar og samvinnunefnd um málefni norðurslóða# (stjórn) frv., umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 130. lþ.

[16:39]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þessar umræður sem hér hafa orðið um þetta litla mál. Það er kannski ekki lítið en það er ekki margar greinar, einungis þrjár greinar. Eins og hér hefur komið fram eru skoðanir skiptar á frv. eins og við var svo sem að búast og ekki í fyrsta skipti sem umhvrn. og umhvrh. kemur fram með mál af þessu tagi. Eins og sjá má í greinargerð með frv. þá kemur fram að af hálfu ráðuneytisins og ráðherra hefur verið unnið markvisst að því, ekki bara í minni tíð heldur tíð fyrri umhverfisráðherra líka, að undirstrika ábyrgð forstöðumanna gagnvart ráðherra með því að stjórnir viðkomandi stofnana hafa verið lagðar af. Eins og líka kom fram í umræðunum er þessi stefna í samræmi við þau viðhorf sem komu fram með lögunum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70 frá 1996.

Þetta er því ekki nýtt mál má segja, hæstv. forseti, heldur mál sem hefur verið flutt hér áður bara gagnvart öðrum stofnunum. Stjórn Hollustuverndar ríkisins var lögð niður á sínum tíma og sá ráðherra er hér stendur hefur lagt niður stjórn Landmælinga Íslands og stjórn Brunamálastofnunar þannig að þetta er nú ekki í fyrsta skipti sem hér er komið inn með svona mál. Að vísu var sett upp ráðgefandi ráð gagnvart Brunamálastofnun en stjórnin var lögð niður. Það eru alltaf sömu rökin að baki þessum lagafrumvörpum sem hingað hafa komið inn, þ.e. að menn vilja hafa skýrari ábyrgð með því að hafa forstöðumann yfir stofnun sem lýtur þá að ráðherra en ekki stjórn líka.

En um þetta eru deildar meiningar eins og hér hefur komið fram. Sumum þykir æskilegt að hafa stjórnirnar áfram og mismunandi sjónarmið liggja þar að baki, m.a. þau að pólitískir fulltrúar eigi að koma frekar að varðandi aðhald og stefnumótun og hugsanlega rekstur stofnana. En þetta er alla vega það mál sem ég legg hér til grundvallar, þ.e. að leggja niður stjórn í þessari stofnun og tel ég að æskilegt sé að gera það.

Í umræðunum kom fram sú spurning hvort það skipti engu máli hvernig stofnanirnar væru, þ.e. hvort þær væru stjórnsýslustofnanir eða rannsóknarstofnanir. Mér finnst það í sjálfu sér ekki skipta öllu hvers eðlis stofnanirnar eru. Mér finnst eðlilegt að á meðan við höfum þetta kerfi með forstöðumanni þá þurfi ekki að vera stjórn hvort sem um er að ræða rannsóknarstofnun eða stjórnsýslustofnun. Stundum hefur gengið mjög vel þar sem stjórnir eru og stundum hefur það gengið illa. Til eru dæmi um hvort tveggja. En alla vega er lagt hér til að þessi stjórn verði lögð niður.

Það kom líka fram í umræðunum að starfssvið þessarar stofnunar væri svo víðfeðmt að þess vegna ætti að vera stjórn. Mér finnst það ekki vera neitt sérstaklega sterk rök fyrir því að þarna verði áfram stjórn þó að sumir telji að starfssviðið sé mjög víðfeðmt. Við getum nefnt sem dæmi Brunamálastofnun. Starfsemi þeirrar stofnunar er mjög víðfeðm og fyrir utan það er hún mjög viðkvæm. Hún gengur út á, má segja, öryggi borgaranna og lífsgæði þeirra. En þar er ekki stjórn. Það hefur ekkert heldur komið fram í undirbúningi þessa máls að stjórnin hafi neitt þvælst fyrir eða að þetta sé einhver aðgerð vegna þess, alls ekki. Hún starfaði með miklum ágætum þegar hún starfaði. En það er rétt sem hér kom fram að hún hefur ekki starfað um nokkurn tíma og það verður að segja það eins og er að það var yfirsjón í ráðuneytinu að hún var ekki skipuð strax og það varð ljóst. En nú er verið að leita að tilnefningum í samvinnunefndina og samvinnunefndin mun auðvitað starfa áfram samkvæmt lögunum, en hún á að treysta og efla samstarf hlutaðeigandi aðila um rannsóknir á norðurslóðum og málefni Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar.

Hér kom líka fram spurning um það hvort óeðlilega lítil tengsl væru á milli samvinnunefndarinnar og ráðuneytisins eða ráðherra. Ég tel svo ekki vera. Ráðherra skipar formann samvinnunefndar og ég tel að það þurfi ekkert að vera nein sérstök önnur tengsl þar á milli. Samvinnunefndin á að treysta samstarf þessara aðila. Það eru fjölmargir aðilar sem skipa í samvinnunefndina, þ.e. Hafrannsóknastofnun, Háskólinn á Akureyri, Háskóli Íslands, Umhverfisstofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands, Rannsóknarráð Íslands, \mbox{RALA,} Veðurstofan, svo að eitthverjir séu nefndir, og ráðherra skipar formann.

Hér kom líka fram að haft er eftir forstöðumanninum að hann vilji gjarnan halda áfram í stjórnina eða að stjórnin haldi áfram, verði ekki lögð niður. Það er ekki nýtt sjónarmið. Ég get nefnt það að þegar stjórn Landmælinga var lögð niður voru uppi svipuð sjónarmið. Hvatinn að baki því að stjórnir eru lagðar niður er ekki sá að einhver vandamál séu á milli forstöðumanns og stjórnar eða að stjórnin hafi gert eitthvað af sér eða neitt slíkt, alls ekki. Sjónarmiðið er einungis það að hafa ábyrgðina skýra miðað við lögin um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins þar sem kveðið er á um ábyrgð forstöðumanna ríkisstofnana.

Ég vil að öðru leyti þakka fyrir þessar umræður og veit að umhverfisnefndin mun skoða þetta mál og fjalla um það með þeim hætti sem eðlilegur er.