2004-03-08 16:45:56# 130. lþ. 78.8 fundur 652. mál: #A Stofnun Vilhjálms Stefánssonar og samvinnunefnd um málefni norðurslóða# (stjórn) frv., MÁ
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 130. lþ.

[16:45]

Mörður Árnason:

Forseti. Hæstv. umhvrh. hefur farið yfir umræðurnar. Það er eins og einhverjar yfirsjónir hafi orðið í því hvernig hún fylgdist með þeim. Ég vil þakka henni fyrir að veita því athygli sem hér er sagt. Það er auðvitað lofsvert. Það kom t.d. fram að henni þykja allar stofnanir eins að þessu leyti. Það skipti í raun ekki máli hvað stofnanir geri. Ef þær eru undir ráðuneyti settar þá skulu þær hlíta þessari reglu, að þar sé ekki stjórn heldur forstöðumaður sem eingöngu hlýði ráðherranum. Spurningunni: Af hverju á að gera þetta líka við Stofnun Vilhjálms Stefánssonar? Henni er svarað með: Af því bara. Þetta er almenn stefna og þess vegna er rétt að Stofnun Vilhjálms Stefánssonar gangi undir sama jarðarmen í þessu máli og aðrar stofnanir.

Maður kynni að halda að núna, sjö árum eftir að þessi lög eru samþykkt og sex árum eftir að stofnunin hóf störf, eftir að fengist hefur nokkur reynsla á starf stofnunarinnar, kæmi sá ráðherra sem yfir hana er settur með tillögur um að styrkja hana, breyta henni eða auka mikilvægi hennar, einkum í því ljósi sem ég nefndi nú áðan, að þetta samstarf á norðurslóðum og rannsóknir á ýmsu sem þar gerist, bæði félagslegum þáttum, pólitík og náttúruskilyrðum, sem öll eru að breytast á þessu svæði, skiptir okkur miklu. Við erum á þessu svæði og vegna mikilvægis þessa alls hefði maður haldið að Stofnun Vilhjálms Stefánssonar kynni að vera okkur miklu miðlægari en menn sáu fyrir, jafnvel fyrir nokkrum árum þegar menn úr ýmsum áttum sameinuðust um að koma þessari stofnun á fót.

En svo er ekki. Hæstv. umhvrh. hefur það eitt til málanna að leggja að koma stjórninni frá og bætir því við að þau tengsl sem áður voru milli samvinnunefndarinnar og stofnunarinnar verða engin að forminu til ef þetta frv. verður að lögum. Það var spurt um þau tengsl. Ég vil leiðrétta hæstv. umhvrh. að því leyti að það var ekki spurt um eða hafðar af því áhyggjur að samvinnunefndin yrði tengslalaus við ráðherrann. Það var ekki mikið áhyggjuefni í umræðunum enda skipar umhvrh. formann samvinnunefndarinnar. Spurningin snerist um tengslin við Stofnun Vilhjálms Stefánssonar vegna þess að að því lagafrumvarpi samþykktu sem hér liggur fyrir þá yrðu þau tengsl engin með formlegum hætti, en áður var formaður stjórnar stofnunarinnar jafnframt formaður samvinnunefndarinnar. Í þeirri persónu tengdust þessar tvær stofnanir með eðlilegum hætti.

Í lagafrv. er ekki einu sinni kveðið á um að forstöðumaður stofnunarinnar skuli starfa með samvinnunefndinni þó að það hafi nú verið reyndin, eðlilega að ég hygg. Ég er reyndar með reglugerð nr. 506/1997. Hún er fyrst og fremst um hvaða stofnanir tilnefni fulltrúa. Hún er ákaflega stutt, þrjár greinar, og er fyrst og fremst um það. Þar er ekkert getið um hvað forstöðumaður eigi að gera í þessu efni.

Ég efast út af fyrir sig ekki um að að jafnaði geti tekist gott samstarf milli samvinnunefndarinnar og stofnunarinnar en það vantar hin formlegu tengsl sem menn gerðu ráð fyrir árið 1997. Á því var vakin athygli.

Þetta er 1. umr. og málið verður auðvitað rætt í nefndinni. Við þökkum vitanlega fyrir að ráðherra skuli viðurkenna að stjórn hafi ekki verið skipuð. Hún kallar það ,,yfirsjón í ráðuneytinu``, með leyfi forseta. Ég lít svo á að hún hafi þar með beðist afsökunar á því að hafa ekki skipað þessa stjórn. En þetta er ekki nógu gott, að skipa ekki svona stjórnir. Það er eiginlega ekki nóg að hæstv. ráðherra komi hér fyrir þingið og segi aðspurður að þetta hafi verið yfirsjón í ráðuneytinu. Hvernig ber að skilja það? Hverjum er yfirsjónin að kenna? Er hún hæstv. ráðherra að kenna eða er hún einhverjum tilteknum embættismanni að kenna? Eru fleiri slíkar yfirsjónir sem ráðherra þyrfti að koma og biðjast afsökunar á fyrir hönd ráðuneytisins, vegna þess að stjórnir hafi ekki verið skipaðar eða þeim lögum sem Alþingi hefur sett hafi ekki verið hlítt? Það er ekki um það að ræða að menn hafi heitið því að fara í einhver erindi og síðan hafi tíminn ekki leyft þeim það eða eitthvað álíka. Hér er um að ræða lög frá Alþingi. Þeim lögum á ósköp einfaldlega að hlíta. Ráðuneytin, hve voldug sem þau eru þá er stjórnskipun okkar þannig, eiga að framkvæma það sem Alþingi ákveður. Ef ráðherra getur ekki framkvæmt það sem Alþingi ákveður þá á hann að skoða vel sinn hug.

Að lokum þetta. Hæstv. umhvrh. sagði í upphafi ræðu sinnar að í umræðunni hefðu komið fram skiptar skoðanir um þetta mál. Um það er það að segja að ef við lítum á framsögu ráðherrans þá voru skoðanir ákaflega óskiptar um málið. Þeir tveir hv. ræðumenn sem tóku til máls auk þess sem hér talar lögðust á sömu sveif. Skoðanir voru sem sagt nokkuð eindregnar. Hafðar voru uppi efasemdir um tilgang þessa frv. og því heitið að skoða þetta og skorað á okkur í umhverfisnefndinni að skoða málið ákaflega vel.

Í tilefni af því að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson sagðist ekki vera stuðningsmaður þessa frv. þá er rétt að ráðherra svari því hvort hann hefur fengið eindreginn stuðning við frv. í þingflokkum ríkisstjórnarflokkanna. Hafa menn í þingflokkunum, bæði Sjálfstfl. og Framsfl., haft uppi efasemdir, fyrirvara eða verið í hreinni andstöðu við frv.? Það væri fróðlegt og gagnlegt fyrir okkur í umhvn. að fá að vita áður en við tökum til við að skoða þetta mál.