Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Mánudaginn 08. mars 2004, kl. 17:18:40 (4990)

2004-03-08 17:18:40# 130. lþ. 78.10 fundur 683. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# (metangas og rafmagn) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 130. lþ.

[17:18]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Þetta frv. er framlenging á tilteknum lagaákvæðum sem verið hafa í gildi undanfarin ár til að hlúa hér að vaxtarbroddi í sambandi við orkunotkun og minnkandi mengun.

Vetnisfarartæki eru ekki svo langt á veg komin að það sé í rauninni á dagskrá að slík farartæki komi á götuna alveg á næstunni sem fólksbílar. Hins vegar hefur verið hlúð, ég vil segja með myndarlegum hætti, að starfsemi Íslenskrar nýorku og þeirra aðila sem hér hafa verið með sérstakt tilraunaverkefni í gangi hvað varðar vetnisstrætisvagna af hálfu hins opinbera.

Hitt er annað mál að ég tel að móta þurfi heildarstefnu gagnvart öllum þessum þáttum á næstunni. Þetta bráðabirgðaákvæði sem gildir til ársloka 2006 gefur þangað til svigrúm til að móta slíka stefnu, og áður en þetta ákvæði til bráðabirgða fellur úr gildi.