Evrópska efnahagssvæðið

Þriðjudaginn 09. mars 2004, kl. 14:20:01 (5017)

2004-03-09 14:20:01# 130. lþ. 79.7 fundur 338. mál: #A Evrópska efnahagssvæðið# (ný aðildarríki) frv. 8/2004, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 130. lþ.

[14:20]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Frú forseti. Það er fagnaðarefni að hv. þm. skuli einmitt vekja máls á þessari viðkvæmu stöðu mála. Hún fór yfir það að talsmenn Evrópusambandsins hefðu aðspurðir tilkynnt að þeir hefðu ekki tök á að tryggja varnir Íslands.

Mér er óljúft að segja það, en mér sýnist ýmislegt benda til þess að vinaþjóð okkar í vestri, Bandaríkjamenn, séu það ekki heldur. Það er því ýmislegt í gangi í henni pólitík, frú forseti, einmitt á þessum sviðum. Við sem höfum reynt að fylgjast með orðræðum um samspil og samskipti og samstarf annars vegar Atlantshafsbandalagsins og hins vegar Evrópusambandsins í þessum efnum er það alveg ljóst að þar er einnig fjölmörgum spurningum algerlega ósvarað, um hraðlið Evrópusambandsins og hvar skuli vera hlutverkaskipti þar í millum, hvernig beri að hátta notkun Evrópusambandsins að búnaði NATO til að tryggja að ekki sé um tvöföldun að ræða. Ég hef setið fjöldamarga fundi á síðustu vikum og mánuðum þar sem menn eru einmitt að spyrja þessara sömu spurninga.

Er það þá skrýtið að varaformaður Samf. ellegar ég, talsmaður Samf. í utanríkismálum, veki upp spurningar af þessum toga? Það er því miður ekki þannig, frú forseti, þó hv. þm. kunni að halda það, að menn hafi bara hrein og klár já- eða nei-svör í alþjóðapólitíkinni eins og var áður en járntjaldið fór, að vera bara með eða á móti. Það var kannski afskaplega þægileg afstaða. En við jafnaðarmenn höfum talið það skyldu okkar í þessum síbreytileika og þessari gjörbreyttu stöðu varnar- og öryggismála, bæði hér heima og erlendis, að vekja máls á nýjum möguleikum, vekja upp umræðu um þá kosti sem gefast. Við höfum ekki gefið okkur neina niðurstöðu í því. Við erum algjörlega skýr í því og það hefur aldrei farið á milli mála að við höfum stutt NATO-aðildina, gerum það, höfum gert það áratugum saman og gerum það áfram. Við höfum líka stutt það að vera hluti af Evrópu, fara í fararbroddi fyrir EES. Við viljum brjóta í blað varðandi Evrópusambandið. Það hefur því verið hlutskipti okkar að fara á undan í þessari orðræðu. Það er ágætis hlutskipti.