Evrópska efnahagssvæðið

Þriðjudaginn 09. mars 2004, kl. 14:25:34 (5020)

2004-03-09 14:25:34# 130. lþ. 79.7 fundur 338. mál: #A Evrópska efnahagssvæðið# (ný aðildarríki) frv. 8/2004, SJS
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 130. lþ.

[14:25]

Steingrímur J. Sigfússon:

Frú forseti. Eins og fram hefur komið hjá framsögumanni skrifa ég undir nál. utanrmn. með fyrirvara. Fyrirvari minn lýtur fyrst og fremst að tvennu, annars vegar ýmsu sem varðar útfærslu stækkunar Evrópusambandsins og þar með Evrópska efnahagssvæðisins og viðbragða Íslands við þeim gjörningi, þar á meðal spurningum sem tengjast opnun vinnumarkaðarins o.fl., og ég mun fara yfir á eftir.

Fyrirvari minn lýtur einnig að því að EES-samningurinn er, eins og hann hefur verið frá byrjun, á margan hátt gallaður þó að viðskiptaþáttur hans þjóni Íslandi vel að mestöllu leyti og hafi gert og var mín skoðun frá upphafi að sá þáttur málsins væri í öllum aðalatriðum (Gripið fram í: Ertu á móti honum eða með ...?) fullnægjandi fyrir Ísland. Ég hef hins vegar ekki skipt um skoðun hvað það varðar að EES-samningurinn er langt frá því að vera eins og æskilegast hefði verið. Að því leyti er afstaða mín óbreytt að einfaldara stofnanakerfi og einfaldari samningur, sem í aðalatriðum byggði á viðskiptaþáttunum, aðgangi Íslands að innri markaðnum og fjórfrelsinu en án stofnanaþáttarins, án þeirrar sjálfvirku yfirtöku gerða sem í samninginn er byggt, og samningur sem væri þannig úr garði gerður að minni vafi léki á því að hann stæðist stjórnarskrána hefði verið heppilegri fyrir Ísland. Þetta var mín afstaða og þetta er mín afstaða.

Varðandi hv. þm. Guðmund Árna Stefánsson, formann Alþýðuflokksins, sem fór hér mikinn og óróaðist mjög vegna eins saklauss frammíkalls af minni hálfu, sem gefur mér kærkomið tækifæri til að fara aðeins betur yfir stöðu þessara mála og þar á meðal bregðast við því sem hv. þm. vék að mér og mínum flokki og taldi reyndar ekki þurfa að gera mikið með þar sem við værum ekki stór flokkur, öfugt við suma aðra. Ég segi við slíka ræðumenn að dramb er oft falli næst. Ég veit ekki hvort ég á heldur að kalla það steigurlæti eða rembing þegar hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson flytur slíkt fram sem rök fyrir máli sínu. (Gripið fram í.) Ég hélt satt best að segja að það væru hinar efnislegu röksemdir sem við tækjumst á um, við töluðumst við með rökum, og að vel rökstudd sjónarmið, hvort sem þau væru í umboði fleiri eða færri, ættu öll rétt á sér. Það er minn lýðræðisskilningur, frú forseti, af því að menn tala mikið um lýðræðið, skoðanafrelsi, tjáningarfrelsi og aðra slíka hluti. Svo að það sé alveg á hreinu hef ég þennan skilning og tala hér sem slíkur.

Það er að vísu allrar athygli vert að það má heita orðið regla að hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson, formaður Alþýðuflokksins, sé framsögumaður Samf. í umræðum um utanríkismál. Mér sýnist að það sé mjög vel til fundið af því að ég á í vaxandi erfiðleikum með að greina nokkurn minnsta mun á núverandi utanríkisstefnu Samf. og stefnu gamla Alþýðuflokksins. Þar af leiðandi er ekkert nema eðlilegt og skiljanlegt að formaður Alþýðuflokksins tali fyrir hann.

Hitt er svo annað mál að menn leyfðu sér að bera upp spurningar sem tengdust afstöðu varaformanns Samf. Formaðurinn kom því á framfæri úr sæti sínu að hún ætti að vísu ekki sæti á þingi, sem er rétt, og hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson reyndi að útskýra að ekkert væri við þann áherslumun að athuga sem þar hefur komið fram.

Auðvitað, frú forseti, eru þau hlutverkaskipti sem á margan hátt hafa orðið í umræðum um þessi mál athyglisverð. Þeir sem töldu EES-samninginn gallalausan og eiginlega fullkominn gerning, allt fyrir ekkert, á sínum tíma. Stuðningsmenn sömu viðhorfa fara nú á dögum oft mikinn í því að útmála ágalla samningsins og það hversu ónothæft tæki hann sé orðinn til að gæta hagsmuna Íslands. Auðvitað ber, svo sanngirni sé sýnd, að hafa það í huga að á honum hafa orðið vissar breytingar. En í grunninn er samningurinn sá sami og hann var frá byrjun og í grunninn eru það röksemdir þeirra sem ekki treystu sér til að styðja hann á sínum tíma eða greiddu atkvæði gegn honum sem nú eru notaðar af þeim sem vilja ganga alla leið og fara inn í Evrópusambandið. Þetta er veruleikinn.

[14:30]

Nú tala þeir eða skoðanasystkini þeirra sem ákafast mæltu fyrir EES-samningnum á sínum tíma mikið um lýðræðishallann, um að það sé óþolandi staða fyrir Ísland að taka allt að 80% af löggjöf sinni beint frá Evrópusambandinu án þess að hafa á hana áhrif og þar fram eftir götunum. Upp á síðkastið hef ég meira að segja heyrt frá talsmönnum úr þeirri átt viðraðar efasemdir um að EES-samningurinn standist stjórnarskrána. Það er sögulega séð mjög merkilegt fyrir okkur sem tóku þátt í umræðunum hér á Alþingi 1992--1993. Um þá röksemd var á þeim tíma tekist á af mikilli hörku. Þeir sem samninginn báru fram höfnuðu öllum efasemdum um það mál, vísuðu þeim á bug og höfnuðu því sömuleiðis að þjóðin fengi að vera æðsti dómari í málinu. Segja má að viss réttarþróun hafi líka orðið og þær efasemdir hafa gerst áleitnari, meðal fræðimanna a.m.k., að samningurinn standist stjórnarskrána strangt til tekið. Ég ætla þó ekki lengra inn í þá umræðu við þetta tækifæri.

Að lokum vil ég segja að mér finnst drissugheit hv. þm. Guðmundar Árna Stefánssonar í Evrópumálum nú sérstaklega skemmtileg í ljósi þess að Samf., sem ætlaði sér mikið með Evrópumálin að því er virtist fyrir nokkrum missirum, tók þau og pakkaði þeim kirfilega saman ofan í læst koffort sín og hafði sem minnst um þau mál að segja í kosningabaráttunni í vor. Það var veruleikinn. Það gekk svo langt að ýmsir fóru að hafa af því áhyggjur að Evrópumál yrðu alls ekki rædd í þeirri kosningabaráttu. Reyndar voru þau allt of lítið rædd að mínu mati. Ég gerði í umræðuþáttum ítrekaðar tilraunir til að ná þeim á dagskrá en fékk lítinn stuðning, alla vega frá talsmönnum Samf. Svipað má reyndar segja um Framsfl. sem, þrátt fyrir stóru nefndina sína og alla tilburði formannsins, hæstv. utanrrh., kaus að gerast ekki margorð, gamla Framsókn, um þau mál í aðdraganda kosningabaráttunnar. En nú eru menn aftur komnir upp á dekk, a.m.k. sumir.

Um stækkun Evrópusambandsins almennt vil ég segja að það er margt gott um hana að segja. Að sjálfsögðu er vel skiljanlegur og meira en það áhugi Austur-Evrópuþjóðanna á að tengjast efnahagslegum og pólitískum böndum velmegunarríkjunum vestan við sig í álfunni. Menn þurfa ekki að hafa mikla þekkingu á sögu þessara þjóða til að skilja það. Sú hugsun er líka mjög göfug og falleg sem oft er höfð á forsíðunni þegar verið er að kynna þessi mál, að með þessu séu menn að reyna að fyrirbyggja hluti sem áður plöguðu þessa álfu, þ.e. styrjaldir og deilur og festa frið og farsæld varanlega í sessi á hinu gamla og merka meginlandi Evrópu. Auðvitað hljómar þetta fallega og er göfugt svo langt sem það nær og að svo miklu leyti sem þetta er raunverulega að gerast. Hins vegar má hafa á því ýmsar skoðanir hvort ekki liggi meira undir. Þarna séu margir fiskar syndandi undir steinum þegar betur er að gáð. Það held ég reyndar að sé en það er annað mál.

Ég er stuðningsmaður þessarar hugsunar og ég hef þarf af leiðandi verið stuðningsmaður þess að vilji og óskir umsóknarríkjanna, nýju aðildarríkjanna sem verða frá og með 1. maí næstkomandi, verði virtar að þessu leyti. Mér finnst það eðlilegt. Mér finnst hins vegar að ríkin sem fyrir eru í Evrópusambandinu komi á ýmsan hátt ekki heiðarlega fram og hreint til dyranna í þessum efnum. Það vekur mikla undrun manns þegar maður skoðar ofan í kjölinn aðildarkostina sem ríkjum frá Austur-Evrópu voru boðnir. Þeir eru á margan hátt býsna harkalegir í garð þessara ríkja enda fór það svo að það kostaði talsverðan barning víða, t.d. í Póllandi og Eystrasaltsríkjunum, að fá aðildarsamningana samþykkta. Þegar á átti að herða tóku aðildarríki Evrópusambandsins, þau sem fyrir eru, sér rétt í hendur til að beita margs konar aðlögunarákvæðum og hleypa nýju aðildarríkjunum ekki nema í mjög smáum skrefum og á býsna löngum tíma inn í Evrópusambandið sem slíkt og að fullu og öllu. Það gildir t.d. um aðild þeirra að landbúnaðarstyrkjum Evrópusambandsins. Það gildir um opnun vinnumarkaðarins og um ýmis önnur svið sem nýju ríkjunum verður haldið algerlega utan við um langt árabil ef að líkum lætur, t.d. Efnahags- og myntbandalagið og jafnvel fleiri þætti, samstarf á sviði dómsmála, öryggismála og annað í þeim dúr.

Hver maður getur reynt að setja sig í spor fátækra pólskra bænda og skilja að þeir eru lítt hrifnir af því að fá sem nemur kannski fjórðungi fyrstu árin af ígildi styrkjanna sem ríku bændurnir í Vestur-Evrópu fá og sæta í viðbót talsverðum takmörkunum hvað varðar aðgang að markaði með framleiðsluvörur sínar. Sama gildir um opnun vinnumarkaðarins sem margir héldu að kæmi til sögunnar strax við inngöngu ríkjanna. Ef ég man rétt voru aðeins tvö ríki sem komu að því leyti, ég leyfi mér að segja það, fullkomlega heiðarlega fram. Það lá strax fyrir fyrir undirritun stækkunarsamninganna að þau ætluðu sér að beita aðlögun. Það voru Finnland og Þýskaland. Kannski hefur Austurríki fljótlega fylgt í kjölfarið. En önnur ríki létu yfirleitt að því liggja að þau hefðu ekki uppi nein sérstök áform um annað en opna vinnumarkað sinn fyrir nýju aðildarríkjunum frá byrjun.

En núna nokkrum mánuðum áður en stækkunin á að ganga í gildi fer rúlletta af stað og hvert ríkið á fætur öðru, og Ísland að lokum, tínist inn og tilkynnir um aðlögun. Það liggur í loftinu að það verði ekki bara tvö ár heldur kannski tvö plús þrjú og jafnvel tvö ár enn þannig að þegar upp er staðið verði vinnumarkaðir Vestur-Evrópu meira og minna lokaðir fyrir nýju aðildarríkjunum í allt að sjö ár. Þetta er auðvitað annað en látið var í veðri vaka. Þegar verið var að sannfæra menn um mikilvægi þess að gerast aðilar --- ég þekki það vel vegna þess að ég heimsótti mörg af þessum löndum á sínum tíma, bæði sem nefndarmaður í Norðurlandaráði og utanrmn. --- var gjarnan látið í veðri vaka að það sem nýju aðildarríkjunum stæði til boða væri fordæmið Írland. Menn sögðu: Sjáið hvernig Evrópusambandsaðildin hefur gagnast Írum, hversu hratt þeir hafa sótt fram í lífskjörum. Svona verður þetta hjá okkur. Maður bað guð sér til hjálpar, að menn væru ekki með málflutning af þessu tagi. Það er ólíku saman að jafna, aðstöðu Íra eins og hún var á sínum tíma og þeim ríkulega aðgangi sem Írar, sem eitt af aðeins fjórum ríkjum innan Evrópusambandsins sem naut þróunarstyrkja, hafði með enska tungu, menningu og hefðir, og því sem í vændum er hjá Austur-Evrópuríkjunum. Það væri barnaskapur að halda að þeim væru færar allar sömu leiðir og Írum til að snarbæta lífskjör sín með hliðstæðum hætti þó að maður vildi sannarlega að svo væri. Þess vegna var á köflum fullkomlega óábyrgur málflutningur vaðandi uppi um að gullöld og gleðitíð væri handan við þröskuldinn og engin vandamál yrðu því samfara, bara ef menn gengju í Evrópusambandið.

Annað er því miður að koma á daginn. Auðvitað hefðu menn mátt segja sér það fyrir. Það hefði ekki þurft annað en skoða sameiningu þýsku ríkjanna og hvernig hún hefur gengið og erfiðleikana sem enn er við að glíma í gamla Austur-Þýskalandi þrátt fyrir hina gífurlegu fjármuni sem þýska ríkið hefur reitt fram til að smyrja hjólin og láta sameininguna ganga hratt fyrir sig og jafna lífskjörin í öllu Þýskalandi. Ástandið er enn eins og raun ber vitni, atvinnuleysi allt upp í 20% á stórum svæðum í fyrrum Austur-Þýskalandi og umtalsverð óánægja hefur kraumað þar undir með framgang mála.

Í sambandi við þetta, frú forseti, er að síðustu rétt að minna á að stækkun Evrópusambandsins tengjast ýmsar breytingar á því sjálfu sem eðlilegt er að velt sé vöngum yfir. Þá á ég auðvitað við Nice-samninginn, breytingar samhliða honum og í framhaldi af honum hina nýju stjórnarskrá sem nú er í smíðum þó að sú smíðavinna gangi brösótt og hamarshöggin megi greina víða. Þetta er auðvitað allt samhangandi. Menn sjá illa fyrir sér að Evrópusambandið eins og það var, með hinni sterku stöðu framkvæmdastjórnarinnar, framkvæmdastjóra eða kommissera frá öllum ríkjum og jafnútbreiddu neitunarvaldi og áður var til staðar, mundi ganga upp með miklu fleiri ríkjum. Þess vegna var farið út í þessar breytingar sem draga tvímælalaust úr áhrifum smærri ríkja. Umræðan þessar vikurnar er mjög til marks um þá togstreitu og spennu sem þar er uppi.

Að mínu mati gerir þessi þróun Evrópusambandið að sjálfsögðu enn síður fýsilegt fyrir Íslendinga til að ganga í en það var fyrir og var ég þó ekkert sérstaklega upprifinn yfir þeirri hugmynd eins og hún lá fyrir á grunni eldra Evrópusambands. En ég á enn erfiðara með að sjá rökin fyrir því að hagsmunum Íslands yrði sérstaklega vel borgið þarna inni í ljósi þess hvernig Evrópusambandið er að þróast með hinni nýju stjórnarskrá sem auðvitað mun á margan hátt innsigla sambandsríkismyndunina sem þar er á ferðinni. Tilvist sameiginlegrar stjórnarskrár er í sjálfu sér áfangi í þeim efnum. Ein helsta röksemd margra ákafamanna um að ganga í Evrópusambandið er sú að við verðum að gera það til að vera þar inni og hafa áhrif en það blasir við hverjum manni að þróunin er mótdræg því að smáríki hafi áhrif. Það viðurkenndi Guðmundur Árni Stefánsson, að Ísland er smáríki þótt hann sé sjálfur stór og flokkurinn sem hann talar fyrir að eigin áliti.

Ég vil aðeins nefna, frú forseti, kröfur Evrópusambandsins á hendur Íslandi og Noregi sem urðu að veruleika í viðbótunum sem tengjast stækkun Evrópusambandsins og þá niðurstöðu að við höldum áfram að greiða þær þvinguðu 100 eða 150 millj. kr. sem áður höfðu verið píndar fram af hálfu Evrópusambandsins, sérstaklega Spánverja, að við greiddum í þróunarsjóði Evrópusambandsins án þess að okkur bæri nokkur skylda til þess samkvæmt upphaflegum EES-samningi. Hann var reyndar þannig úr garði gerður að gagnvart þeim greiðslum voru formleg sólarlagsákvæði. Þær áttu að renna út árið 1997 eða 1998, ef ég man rétt, en menn þekkja þá sögu, að Íslendingar og Norðmenn létu undan þrýstingi og héldu þeim greiðslum áfram. En í tengslum við stækkunina og þá sjálfsögðu kröfu okkar að gerðar yrðu ráðstafanir til að viðskiptakjör Íslands og þess vegna Noregs versnuðu ekki við stækkun Evrópusambandsins tók Evrópusambandið upp á borðið kröfuna um áframhaldandi greiðslur af okkar hálfu og mun hærri en áður voru. Þeirri snerru lyktaði með niðurstöðu sem liggur fyrir, greiðslum upp á 500 millj. kr. eða svo, að hálfur milljarður fer af Íslands hálfu á ári hverju inn í þessa sjóði sem sérstaklega eiga að vísu að beinast að uppbyggingunni í Austur-Evrópu.

Ég vil taka sérstaklega fram að það eru ekki þessar greiðslur, ekki þessir fjármunir sem ég gagnrýni nema síður sé. Mér finnst réttlátt og eðlilegt að Ísland sem velmegunarland leggi sitt af mörkum til uppbyggingarinnar í Austur-Evrópu. Ég hefði stutt það hvar sem er og hvenær sem er og hef oft talað fyrir því að Ísland, burt séð frá Evrópska efnahagssvæðinu og samningnum um það, byðist til að leggja sitt af mörkum. En mér leiðist sú aðferð sem þarna var viðhöfð af hálfu Evrópusambandsins, að fara út í hrossakaup, að ég segi ekki hótanir eða þvinganir, til að knýja þetta fram samkvæmt sínum vilja og inn í þessa sjóði í stað þess t.d. að Ísland og Noregur sæju algerlega sjálfstætt um að koma á framfæri framlagi sínu til uppbyggingar á þessum svæðum. Þá hefðum við að sjálfsögðu getað stýrt því og haft á það meiri áhrif hvernig þeim fjármunum yrði varið, t.d. beint þeim eftir atvikum þangað sem við teldum þörfina ríkasta eða okkur, af sögulegum ástæðum og stjórnmálalegum, bæri skylda til að hjálpa, t.d. í Eystrasalsríkjunum og Póllandi.

Það er síður en svo að mér finnist óeðlilegt eða ósanngjarnt að Ísland og Noregur sem tvö af allra ríkustu löndum álfunnar og reyndar heimsins leggi þarna sitt af mörkum. Það er fyrst og fremst þessi aðferð, þau samskipti sem þarna áttu sér stað sem mér finnst ekki skemmtileg og ekki bera réttan svip.

[14:45]

Hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson --- af því að ég er hér þá að hverfa frá tengslunum við EES-samninginn --- spurði um stefnu okkar í þessum efnum. Ég verð að hryggja hv. þingmann með því að hann kemur pínulítið upp um að hann er ekki mjög vel lesinn í þeim málum sem liggja fyrir þinginu úr því að hann spyr svo sem raun ber vitni. Á þskj. 114 liggur fyrir stefna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs í þessum efnum með mjög skýrum hætti. Um hana má lesa í greinargerð ef menn svo kjósa og þurfa þá ekkert að velkjast í neinum vafa um það nægi þeim ekki mín orð og það sem ég hef hér farið yfir í þeim efnum. Stefna okkar er sú að við erum ekki með tillögur um að EES-samningnum verði sagt upp, hann er grundvöllur samskipta Íslands og Evrópusambandsins og á honum höfum við byggt nú í meira en tíu ár. Hann hefur á margan hátt, þ.e. viðskiptaþættir hans, þjónað okkur vel. Samningurinn er gallaður eins og hann var frá byrjun og við höfum skýra stefnu hvað það varðar að að svo miklu leyti sem til breytinga á honum kemur eða þarf að koma á næstu árum vitum við í hvaða átt við viljum þróa þau samskipti. Við viljum þróa þau í átt til einfaldari tvíhliða samskipta og samninga um viðskipti og samvinnu þannig að þá yrði leitað eftir því, af okkar hálfu, eftir því þá sem breytingar eiga sér stað, að stofnanaþátturinn yrði einfaldaður og þetta yrði líkara tvíhliða viðskipta- og samvinnusamningum.

Um þetta atriði segir m.a. í greinargerð ef það er upplýsandi fyrir einhverja sem ekki hafa hirt um að lesa sér til um þessa hluti. Ég les hér upp úr greinargerð með tillögu okkar til þál. um stefnu Íslands í alþjóðasamskiptum, með leyfi forseta:

,,Vissulega er staða Íslands í samskiptum við Evrópusambandið á grundvelli EES-samningsins langt frá því að vera eins og flutningsmenn teldu heppilegasta.`` --- Flutningsmenn eru þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs. --- ,,Við Íslendingar höfum hins vegar aðlagað okkur að þeim aðstæðum sem EES-samningurinn skapar um nokkurt árabil. Tollalækkanir samkvæmt samningnum hafa auðvitað verið til bóta, enda höfum við borgað fyrir með veiðiheimildum og greiðslum í þróunarsjóð sem voru framlengdar með þvingunum. Þá höfum við líka þurft að bera okkar hlut af rekstrarkostnaði þunglamalegs stofnanakerfis o.s.frv. Deilur um hið liðna þjóna hins vegar litlum tilgangi, enda engan samanburð hægt að gera við það sem ella hefði orðið, t.d. samskipti á grundvelli einfaldari viðskipta- og samstarfssamninga í stað EES. Þá getur það tæpast þjónað hagsmunum Íslands að við veikjum tiltrú á eða gröfum með málflutningi undan samskiptum okkar við Evrópusambandið hvað sem um EES-samninginn má segja sem slíkan.``

Þetta vil ég nú láta duga fyrir mína hönd og minna vandamanna. Ég ætla að sæmilega skýrlæsum mönnum sé ekkert að vanbúnaði að átta sig á afstöðu okkar hafi þeir raunverulegan áhuga á því og vilja til þess að kynna sér það án þess að ætlunin sé að snúa út úr eða eitthvað í þeim dúr. Ef annað vakir fyrir mönnum eru þeir líka velkomnir upp á dekk í þeim efnum.

Ég ætla að gera grein fyrir fyrirvara mínum um stuðning við málið. Opnun hins stóra sameiginlega vinnumarkaðar Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins með eitthvað sem menn tala um sem 450 millj. íbúa er kannski eitt einstakasta og stærsta atriðið um hvernig til tekst í þessum efnum. Það er gríðarlega stórt og mikilvægt mál, ekki síst vegna þess að um óskaplegan lífskjaramun er að ræða og hann verður ekki jafnauðjafnaður nú eins og kannski áður var þegar Evrópusambandið stækkaði í áföngum og inn voru að koma eitt eða tvö ríki sem voru þannig sett hvað varðaði lífskjör að þau lágu undir viðmiðunarmörkum um 75% af meðaltekjum innan Evrópusambandsins og áttu þar af leiðandi rétt á þróunarstyrkjum o.s.frv.

Það má vissulega segja Evrópusambandinu til hróss að sú félagslega hugsun sem þar er til staðar og hefur birst í stuðningi við Spán og Portúgal, Írland og Grikkland, eins og það hefur verið á sínum tímum, er af hinu góða. Sama viðleitni er að sjálfsögðu uppi nú við stækkun Evrópusambandsins en það er ákaflega ólíku saman að jafna. Nú man ég ekki nákvæmlega, af því að ég hef ekki rifjað upp nýlega þessar prósentutölur og íbúafjöldatölur, en einhvern veginn er eins og mig minni að íbúafjöldinn sé þarna að aukast um ein 20% eða eitthvað í þeim dúr en tekjurnar ekki nema um 7--8% ef þetta er skoðað frá þeim sjónarhóli. Það segir auðvitað sína sögu um hversu mjög hallar á og hversu mikil hættan er þegar til stendur að stofna einn sameiginlegan vinnumarkað og eitt sameiginlegt atvinnu- og samskiptasvæði með þvílíkum lífskjaramun en sameiginlegum réttindum, þar á meðal sameiginlegum staðfesturétti, þ.e. rétti til að flytja sig búferlum og leita eftir atvinnu.

Þó að Evrópusambandið hafi fyrir sitt leyti ýmislegt gert til undirbúnings stækkuninni hefði maður alveg séð fyrir sér að það hefði mátt vera meira. Mér fannst t.d. margir af sendimönnum Evrópusambandsins sem voru sendir til hinna væntanlegu aðildarríkja og opnuðu þar skrifstofur fyrir fjórum árum eða svo vera þar meira í áróðursskyni en nokkrum öðrum tilgangi. Mér blöskraði að heyra í sendimönnum Evrópusambandsins í Eystrasaltsríkjunum þegar efnahagsnefnd Norðurlandaráðs var þar á ferð og heyrði áróðursræðurnar sem þeir fluttu fyrir stækkun Evrópusambandsins, gylltu þar á meðal fordæmið um Írland en fjölluðu minna um hitt, hvernig í ósköpunum menn ætluðu t.d. að takast á við vinnumarkaðsmálin og hvað ætti að reyna að gera til þess að styðja við uppbygginguna í hinum nýju eða væntanlegu aðildarríkjum þannig að þau væru sæmilega eða betur í stakk búin til að þessi opnun gengi í gegn.

Á vettvangi Norðurlandaráðs hefur þetta verið talsvert rætt. Þar höfum við, fulltrúar vinstri manna, flutt tillögur um aðgerðir af hálfu Norðurlandanna til að styðja við bakið á uppbyggingu skipulagðra vinnumarkaðsstofnana í Eystrasaltsríkjunum. Þær eru ekki til staðar. Fyrir því eru pólitískar ástæður. Það er ekkert feimnismál að nefna það hér að það er ósköp einfaldlega af því að hægri menn hafa blokkerað það, komið meira og minna í veg fyrir að nokkuð yrði gert. Af hvaða ástæðum veit ég ekki en minna hefur orðið úr en til stóð að Norðurlöndin beittu sér og þá stjórnvöld, ekki bara aðilar vinnumarkaðarins heldur stjórnvöld sem slík í þessum efnum. Að vísu er fram undan, þegar líður að haustinu, mjög stór sameiginleg ráðstefna á vegum Norræna ráðherraráðsins og Norðurlandaráðs um þessi vinnumarkaðsmál, um opnunina og hvað Norðurlöndin gætu lagt af mörkum í þeim efnum, sérstaklega með Eystarasaltsríkin og Pólland í huga. Hún verður í haust og auðvitað ekki fyrr en stækkunin verður um garð gengin. Að vísu, vegna þess að nánast öll ríkin beita aðlögun, má segja að enn sé tími til stefnu að ýmsu leyti því að það verður fyrst eftir tvö eða jafnvel fimm ár sem þessi þáttur stækkunarinnar kemur til framkvæmda.

Eftir ferðalög um Eystrasaltsríkin þar sem við í efnahags- og atvinnumálanefnd Norðurlandaráðs og sérstakur starfshópur á vegum þeirrar nefndar höfum virkilega reynt, með stuðningi fulltrúa frá norrænu verkalýðshreyfingunum og víðar að, að setja okkur inn í ástandið og kortleggja það bregður manni auðvitað í brún þegar maður áttar sig á því hversu ákaflega vanþroskaðir --- a.m.k. á þann mælikvarða sem okkur væri tamt að leggja á það, frá norrænum sjónarhóli --- vinnumarkaðsinnviðirnir eru í þessum löndum. Þannig er t.d. aðild að verkalýðsfélögum hverfandi lítil. Það er helst hægt að segja að samtök opinberra starfsmanna séu til sem slík með þokkalega útbreiddri félagsaðild og sæmilegu skipulagi en þegar kemur út á almenna vinnumarkaðinn er það meira og minna í molum og þátttakan allt niður í engin til 5--10% af vinnuaflinu í hverri atvinnugrein fyrir sig. Ekki síður er skipulagið brotakennt vinnuveitendamegin og þar kvörtuðu þeir fáu starfsmenn og talsmenn sem til staðar voru til að ræða við mjög undan því að ákaflega erfiðlega gengi að fá atvinnurekendur til að bindast samtökum og að fá menn til að vera í forsvari fyrir slíku. Af hvaða ástæðum það sérstaklega er skal ég ekki segja, og vil kannski ekki segja það sem stundum er nefnt sem möguleg skýring í þeim efnum, en a.m.k. er staðreyndin sú að það gengur mjög erfiðlega.

Þetta þýðir að það er engum aðilum til að dreifa í hefðbundnum skilningi til að gera kjarasamninga, til að ræða um gagnkvæm réttindi og skyldur á vinnumarkaði, til að koma upplýsingum á framfæri, til að upplýsa menn um rétt þeirra og skyldur o.s.frv. Þetta er gríðarlegt vandamál. Ef menn ætla að láta þetta ganga sæmilega fyrir sig er lykilatriði að til staðar sé skipulag sem hægt sé að fara í gegnum. Barátta gegn ólöglegu vinnuafli, félagslegum undirboðum og öðru slíku verður algerlega vonlaus, eins og við Íslendingar sjáum á nýlegum dæmum, ef ekki eru til staðar vel skipulagðar sveitir frá báðum hliðum, vinnuveitenda og verkalýðshreyfingar, til að fara í gegnum. Slík barátta er vonlaus ofan frá.

Eitt af því sem t.d. norræna verkalýðshreyfingin hefur lagt mikla áherslu á og lagt til að yrði gert er að leggja miklu meiri krafta í aðstoð við aðila vinnumarkaðarins í þessum löndum, að sjálfsögðu á þeirra forsendum. Ekki er ætlunin að menn komi frá Norðurlöndunum og segi mönnum fyrir verkum, segi þeim hvernig allt eigi að vera, heldur er hægt að bjóða stuðning, aðstoð, ráðgjöf og jafnvel bara ósköp einfaldlega hreinlega fjárframlög til að byggja upp og reka slíkar einingar á einhverju aðlögunartímabili. Það ætti að vera í boði.

Síðan væri þá hitt mikilvæga atriðið, að miðla upplýsingum um réttindi og skyldur eins og mögulegt er í aðdraganda þess að vinnumarkaðurinn opnaðist þannig að menn væru sér meðvitaðir um þá hluti. Þá minnkar hættan á því að menn láti fara með sig eins og réttlausar og skynlausar skepnur í formi einhvers konar þrælahalds gegnum starfsmannaleigur eða hvernig sem það nú gerist. Á því er auðvitað mikil hætta, mjög mikil hætta. Þegar sá tími kemur að menn þurfa ekki lengur atvinnuleyfi, þurfa ekki lengur að uppfylla þær kröfur sem nú eru gerðar, verður miklum mun erfiðara að koma við eftirliti ef menn geta ekki sjálfir, vegna þess að þeir eru ómeðvitaðir um rétt sinn, tryggt að sæmilega sé að hlutunum staðið.

Ég sem sagt verð því miður að segja, forseti, að ég get ekki sagt að mér finnist tíminn hafa verið vel notaður að þessu leyti. Út af fyrir sig þýðir ekki fyrir okkur að vera mikið að röfla um Evrópusambandið og hvað það hefur vel gert, og miður vel. Við hefðum sem hluti af Norðurlöndunum og okkar sjálfra vegna getað að mínu mati lagt þarna meira af mörkum.

Fyrir Ísland er auðvitað Pólland alveg sérstaklega mikilvægt í þessum efnum. Langstærsti einstaki hópurinn á íslenskum vinnumarkaði af erlendu bergi brotinn er pólskur. Pólverjar hafa komist upp í að vera hér upp undir 2 þús. við störf þannig að það eitt og sér að Ísland hefði reynt að keyra sérstakt samstarfsverkefni með Póllandi í aðdraganda stækkunarinnar að þessu leyti, hvað vinnumarkaðinn snertir, hefði átt fullan rétt á sér. Mér finnst það enn koma til greina, og ég beini því til hæstv. utanrrh. að það verði hugleitt, að sérstaklega verði reynt að rækta sambandið við Pólland nú í aðdraganda þess að þetta opnast sem væntanlega verður þá, í einhverjum áföngum, að tveimur eða fimm árum liðnum eða hvað það nú verður.

Það má kannski segja að úr því sem komið er sé viss kostur að þessi aðlögunartími gefst þó að mér finnist að mörgu leyti miður að við skulum enda með því að þurfa að beita honum. Á hinn bóginn gefst þó e.t.v. tími til að reyna að vinna að því að þessar breytingar geti svo átt sér stað með farsælli hætti en ella hefði orðið.

Í þessu sambandi þurfum við líka að muna að málið er virkt í báðar áttir. Stækkun Evrópusambandsins felur m.a. í sér að allar reglur einfaldast og réttindi fyrirtækja til að flytja starfsemi sína verða bara eins og um innanlandstilflutning væri að ræða. Auðvitað er enginn vafi á því að margir atvinnurekendur, ekki síst á Norðurlöndunum, munu horfa til hins ódýra vinnuafls í Eystrasaltsríkjunum í ríkari mæli en hingað til hefur verið þegar það verður miklu einfaldara en áður að flytja t.d. vinnuaflsfreka starfsemi og nýta sér lægri laun í þessum löndum, og er nú reyndar þegar gert í talsverðum mæli. Ég veit ekki betur en að stórum hluta til sé það sem eftir var af innréttingaiðnaði og öðru slíku hér í landinu komið þarna austur. Þá hafa menn sagt, og það er held ég alveg fullgilt, að mjög miklu máli skipti að báðir aðilar séu sér meðvitaðir um og upplýstir um réttindi sín og skyldur. Við getum ekki horft fram hjá því að sú hætta er fyrir hendi að norræn fyrirtæki geri út á lág laun, eymd og atvinnuleysi í þessum löndum eins og önnur í harðri samkeppni í alþjóðavæddum viðskiptaheimi.

Norðurlandabúar eru engir sérstakir englar í þessum efnum. Það verður að horfast í augu við að það fer býsna blandað orðspor af sumum norrænum fyrirtækjum í ákveðnum greinum iðnaðar í Eystrasaltsríkjunum þar sem þau hafa hreiðrað um sig og jafnvel lagt hann undir sig, eins og trjávöruiðnaðinn í Eistlandi og víðar þar sem sænsk og finnsk fyrirtæki hafa nánast lagt þann iðnað að fótum sér. Hættan er þá sem sagt sú að ef á hinum endanum eru mjög veikburða innviðir á vinnumarkaði, menn illa upplýstir um rétt sinn og stöðu, skapar það auðvitað aukna hættu á félagslegum undirboðum. Á því er enginn minnsti vafi.

Herra forseti. Ég læt þetta þá nægja um fyrirvara minn. Ég hef sem sagt ekki valdið hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni vonbrigðum a.m.k. að einu leyti, að ég hef haldið þá löngu ræðu sem hann gat sér til um að ég mundi halda, (GÁS: Ég styð það.) sjálfsagt leiðinlegu líka að hans mati og það verður þá bara að hafa það. Ég mun sofa rólegur í kvöld hvað sem líður áliti hv. þm. Guðmundar Árna Stefánssonar á ræðuflutningi mínum.