Evrópska efnahagssvæðið

Þriðjudaginn 09. mars 2004, kl. 15:12:52 (5027)

2004-03-09 15:12:52# 130. lþ. 79.7 fundur 338. mál: #A Evrópska efnahagssvæðið# (ný aðildarríki) frv. 8/2004, BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 130. lþ.

[15:12]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Frú forseti. Ég var einmitt að inna hv. þm. eftir þessu. Stefna Samfylkingarinnar er skýr og hefur legið fyrir allt frá því á haustdögum 2001 eftir að við gengum í gegnum ákveðið ferli. Sú stefna byggir á því að það sé orðið tímabært fyrir okkur Íslendinga að skilgreina samningsmarkmið okkar og sækja um aðild að Evrópusambandinu. Það eru engar vífilengjur um það.

Frú forseti. Það er hins vegar mjög undarlegt að byggja stefnu á samningi sem maður er á móti --- ég verð að segja það. Mér finnst það mjög undarleg stefna --- sem maður staðfestir síðan aftur og enn að rétt hafi verið að vera á móti, byggir sína stefnu á honum en sé síðan með, ég vil segja, einhverja draumsýn um hvað kunni að gerast ef þessi samningur reynist vera að renna sitt skeið á enda. Það er mjög margt sem bendir til þess að svo sé. Samningurinn er vissulega byggður og forsendur okkar varðandi Evrópusamstarfið byggja væntanlega á einhverjum gagnkvæmum samningi. Það er ekki nóg að við Íslendingar munum gjarnan vilja sjá þetta tvíhliða samstarf (Forseti hringir.) þróast. Það verður að vera vilji af beggja hálfu.