Evrópska efnahagssvæðið

Þriðjudaginn 09. mars 2004, kl. 17:06:55 (5049)

2004-03-09 17:06:55# 130. lþ. 79.7 fundur 338. mál: #A Evrópska efnahagssvæðið# (ný aðildarríki) frv. 8/2004, utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 130. lþ.

[17:06]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka utanrmn. fyrir góða afgreiðslu á þessu máli og góða samvinnu í því sem varðar sennilega einn mikilvægasta samning sem við Íslendingar eigum aðild að, þ.e. samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.

Mér finnst þessi umræða endurspegla þá staðreynd að það er enginn flokkur sem situr á Alþingi sem heldur því fram að við getum staðið utan við Evrópusamvinnuna og enginn sem ætlar það að hægt sé að einangra Ísland frá Evrópusamvinnunni. Spurningin er og verður með hvaða hætti við eigum að tengjast henni.

Það má segja að allir þeir flokkar sem sitja nú á Alþingi hafi með einum eða öðrum hætti komið að því að koma þessu samstarfi á. Það er ljóst að þegar umræður um Evrópska efnahagssvæðið byrjuðu árið 1989 þá sat hér ríkisstjórn Framsóknarflokks, Alþýðubandalags og Alþýðuflokks. Það var samdóma álit manna í þeirri ríkisstjórn að ekki yrði staðið utan við Evrópusamvinnuna og að óhugsandi væri að sitja hjá í þeim viðræðum sem væru fram undan um Evrópska efnahagssvæðið. Þegar sú ríkisstjórn fór frá 1991 má segja að allar stærstu línur hafi legið fyrir í því máli um hvernig það mundi þróast. Síðan kom hér til valda ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks sem innsiglaði það mál og gekk frá því. Það má því segja að allir þessir flokkar beri ábyrgð á því ástandi sem nú er og ég fyrir mitt leyti hef aldrei látið mér detta það í hug að staðið verði utan þeirrar samvinnu.

Það er náttúrlega alveg ljóst að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið tryggir okkur aðild að innri markaðnum sem hefur komið hér fram að enginn vill standa utan. Hann tryggir okkur aðild að fjórfrelsinu sem enginn vill standa utan. Og hann er lykilatriði í aðgangi Íslands að alþjóðavæðingunni sem allir hafa verið sammála um í dag að er nauðsynlegur fyrir þróun íslensks samfélags.

Þetta eru að sjálfsögðu helstu kostir samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Við getum líka talið að það sé kostur eins og var þá að við stöndum utan við sameiginlegu landbúnaðarstefnuna og sameiginlegu sjávarútvegsstefnuna. Það eru viðkvæmustu atriðin sem varða Evrópusamvinnuna að því er okkur varðar. En það liggur líka fyrir í dag eins og lá fyrir þegar við gengum til þessarar samvinnu að við njótum ekki, eins og kom fram í ræðu síðasta ræðumanns, hv. þm. Ágústs Ólafs Ágústssonar, fulls tollfrelsis sérstaklega að því er varðar sjávarafurðir og þar hefur ekkert breyst. Og í reynd njótum við minna tollfrelsis en menn áttu von á þegar samningurinn var samþykktur á Alþingi. Það þýðir í sjálfu sér ekkert að tala um hvernig það fór og hvernig það var. Samningurinn er staðreynd og við hann búum við.

Það verður að segjast eins og er að það hefur verið bærilegur skilningur á þessum viðræðum á aðstöðu Íslands þó að það séu vissulega vonbrigði hve lítill áhugi er fyrir samningnum um Evrópska efnahagssvæðið í Evrópu. Þegar samningurinn var til umræðu á Evrópuþinginu tók t.d. enginn þingmaður til máls, sem eru vissulega vonbrigði. Og það eru því miður mjög margir í Evrópu sem vita ekkert um þennan samning eða um hvað hann fjallar.

Það má segja að skilningur Evrópusambandsins hafi þó komið fram, m.a. í því að það tókst að fá verulega lækkun á þeim miklu kröfum sem komu fram um greiðslur frá okkur. Það tókst líka að fá viðunandi niðurstöðu um viðskipti með síldarflök sem er mikilvæg útflutningsafurð. Og okkur hefur fundist að þau vandamál sem hafa komið upp að undanförnu hafi notið nokkurs skilnings. Ég get nefnt sem dæmi að um það voru deilur hvort við EFTA-ríkin ættum að fá sæti í nefnd um vinnulöggjöf. Lengi vel höfnuðu embættismenn Evrópusambandsins þessari beiðni okkar en sú deila leystist hins vegar nýlega með því að við höfum fengið aðgang að þeirri nefnd.

Annað dæmi er reglugerð Evrópusambandsins um flugvernd, sem var samþykkt fyrir réttu ári, og sú reglugerð og innleiðing hennar hér á landi hefði einfaldlega leitt af sér slíkan kostnaðarauka í innanlandsflugi okkar að það hefði jafnvel kippt fótunum undan rekstrargrundvelli innanlandsflugsins.

Af þessum sökum höfum við staðið í viðræðum við Evrópusambandið um aðlögunarákvæði fyrir Ísland vegna upptökugerðarinnar í EES-samninginn. Þeim viðræðum er vissulega ekki lokið en viðbrögð embættismanna framkvæmdastjórnar í þessu máli hafa þó einkennst af jákvæðni og skilningi á stöðu okkar.

Þannig eru ávallt að koma upp mál og nýjasta málið er því miður það að framkvæmdastjórnin ákvað fyrir stuttu að hefja formlega rannsókn á því hvort grípa eigi til verndaraðgerða gegn innflutningi á eldislaxi vegna erfiðrar rekstrarstöðu fiskeldisfyrirtækja, bæði í Skotlandi og á Írlandi. Þessi ákvörðun kemur í kjölfar beiðni Breta og Íra um að gripið verði til slíkra aðgerða.

Ákvæði um beitingu slíkra verndaraðgerða er að finna í reglugerð Evrópusambandsins frá 1994 og þau ákvæði byggja á samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um verndarráðstafanir. Helstu efnisskilyrði fyrir beitingu verndarráðstafana eru þau að innflutningur vöru á yfirráðasvæði viðkomandi aðila hafi aukist verulega og í öðru lagi að aukinn innflutningur valdi innlendri atvinnugrein alvarlegum skaða eða að hætta sé á slíkum skaða.

Þetta sýnir að í sumum tilvikum er ekki litið á okkur sem hluta af innri markaðnum. Litið er á okkur sem utanaðkomandi aðila í vissum tilvikum og þess vegna fer þessi rannsókn fram núna sem er að okkar mati mjög alvarleg og getur haft mjög slæmar afleiðingar á fyrirtæki hér á landi sem hafa verið í örum vexti. Að sjálfsögðu hefur þetta enn meiri áhrif á frændur okkar í Noregi sem eru eins og allir vita með gífurlega framleiðslu á eldislaxi. Þetta eru staðreyndir sem liggja fyrir þannig að við erum alltaf að vinna á grundvelli þessa samnings, halda á íslenskum hagsmunum, meta hver staða samningsins er og hvernig við getum styrkt hann til frambúðar.

[17:15]

Það var von mín að við gætum fengið þennan samning uppfærðan en ég er miklu svartsýnni á það en oft áður. Því var bærilega tekið en eins og staðan er í dag getum við ekki gert okkur miklar vonir um að slíkar breytingar verði á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið að þær færi okkur eitthvað nær ákvörðunartökunni eða geri það að verkum að við höfum meiri áhrif á stofnanir sem skipta sköpum þegar ákvarðanir eru teknar. Í upphafi var það stofnun eins og framkvæmdastjórnin og við vitum hvernig samningar voru um hana. Síðan hefur ráðherraráðið fengið mun meiri völd og Evrópuþingið sömuleiðis. Það eru engar vonir til þess að við fáum þar einhverja slíka aðild sem skiptir sköpum fyrir áhrif okkar. Þetta eru staðreyndir sem menn komast ekkert fram hjá.

Síðan eru atriði sem skipta máli í mati manna á Evrópusamstarfinu, sameiginlega utanríkis- og varnarmálastefnan. Við tókum þá afstöðu á sínum tíma að verða aðili að Vestur-Evrópusambandinu, þ.e. aukaaðili að því. Nú er búið að leggja það af þó að það lifi kannski sem einhver skúffa á einhverri skrifstofu. Í reynd hefur það verið yfirtekið af Evrópusambandinu. Við gerðumst aðilar að Schengen-samstarfinu sem var umdeilt á sínum tíma. Það hefur að miklu leyti verið yfirtekið líka af Evrópusambandinu. Það var mikið gæfuspor að mínu mati því það er vafasamt að við hefðum fengið aðild að því eins og málum er háttað í dag, enda hefur það verið nánast innlimað meira og minna í Evrópusambandið.

Sameiginlega myntstefnan er að sjálfsögðu atriði sem skiptir okkur miklu máli. Það fylgja því kostir og gallar að standa utan við hana. Það er enginn vafi á því í mínum huga að með aðild að sameiginlegu myntstefnunni væri fjármagnskostnaður lægri hér á landi. Hins vegar er sjálfstæði okkar í efnahagslegum ákvörðunum minna.

Ég held að mjög mikilvægt sé að halda áfram að þróa þá umræðu sem hér hefur farið fram í dag. Mér finnst hún vera ágæt og raunverulega meiri samhljómur í henni en oft áður. Það hefur enginn, eða fáir sagt að aðild að Evrópusambandinu kæmi aldrei til greina. Slík orð hafa ekki verið hátt á lofti í þessari umræðu. Menn hafa sagt sem svo að við yrðum að halda áfram að þróa Evrópuumræðuna og hagsmuni Íslands í sambandi við Evrópuþróunina.

Ég bendi á að við í utanrrn. höfum leitast við að koma á framfæri upplýsingum og starfi um viðkvæmustu málin í þessu sambandi. Svokölluð hnattvæðingarskýrsla kom út, ef ég man rétt, á sl. ári eða árið áður þar sem mikið er fjallað um sameiginlega myntsamstarfið, kosti þess og galla. Skýrsla um EES, Hagsmunir íslenskra sveitarfélaga, er nýlega komin út. Það er ágætt starf þar sem sveitarfélögin hafa lagt mikið af mörkum. Þar er leitast við að meta hagsmuni sveitarfélaga í þessu samhengi. Núna í nóvember kom út skýrsla um íslenskan landbúnað og Evrópusambandið þar sem farið er yfir hagsmuni íslensks landbúnaðar í Evrópusamhengi, m.a. með hliðsjón af hugsanlegri aðild Íslands að Evrópusambandinu þar sem skýrt kemur fram að miðað við óbreytt stuðningskerfi hér á landi til landbúnaðar verði að telja að staða íslensks landbúnaðar verði verri innan ESB en utan þess. Hins vegar er tekið þar líka á þróuninni sem er að verða innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og hún rakin með skýrum hætti.

Þetta samstarf við Bændasamtökin er að mínu mati til fyrirmyndar og ég hvet hv. þingmenn til að kynna sér þessa skýrslu því mjög margt athyglisvert kemur fram í henni. Núna nýlega var hafið samstarf utanrrn. og sjútvrn. við aðila í íslenskum sjávarútvegi, bæði útveginn og sjómenn, um íslenskan sjávarútveg og Evrópusambandið. Þar verður leitast við að leggja mat á stöðu Íslands í þessu samhengi og fara yfir það með rökrænum hætti. Ég vænti þess að það starf geti líka skipt miklu máli í sambandi við þá umræðu sem fram undan er.

Það er nú svo með alla hluti að þótt við viljum ráða mestu um það hvaða stefnu við tökum, og eigum að sjálfsögðu að gera það á allan hátt, verðum við samt ávallt að taka mið af aðstæðum. Það var það sem við gerðum þegar við gerðumst aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu. Við tókum mið af aðstæðum. Sú var ástæðan fyrir því að við tókum þátt í þeim viðræðum frá 1989 og það var að sjálfsögðu ástæða þess að við gerðumst aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu 1992. Með sama hætti verðum við að fylgjast vel með þróuninni í Evrópu og það kemur skýrt fram í stjórnarsáttmála núv. ríkisstjórnar hvað verið er að gera. Þær skýrslur sem ég hef hér vitnað til eru vísbending um það.

Ég vildi svo að lokum þakka fyrir þessa umræðu og þakka fyrir mjög góð störf utanrmn. Ég vænti þess að hægt verði að þróa umræðuna áfram á þeim grundvelli sem hér hefur komið fram í dag.