Nýbygging við Landspítala -- háskólasjúkrahús

Þriðjudaginn 09. mars 2004, kl. 17:59:58 (5063)

2004-03-09 17:59:58# 130. lþ. 79.9 fundur 542. mál: #A nýbygging við Landspítala -- háskólasjúkrahús# þál., SJS
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 130. lþ.

[17:59]

Steingrímur J. Sigfússon:

Frú forseti. Ég vil taka undir það efni tillögunnar að tímabært sé að skipuð verði nefnd sem hafi það hlutverk með höndum að undirbúa frekari framkvæmdir á lóð Landspítala -- háskólasjúkrahúss við Hringbraut, einhvers konar byggingar- eða stefnumótunarundirbúningsnefnd. Ég held að það sé ágæt hugmynd að slík nefnd verði til með umboði samkvæmt erindisbréfi í þá átt sem þarna er mælt fyrir um. Það mundi mér og okkar flokki finnast góð vinnubrögð. Eins og jafnan þegar mikilvæg og stór framtíðarmál eru á ferð, er að sjálfsögðu af hinu góða að menn leiti eftir þverpólitískri samstöðu eða þverpólitískri þátttöku í undirbúningi að slíku. Það mætti auðvitað velta fyrir sér hvort nefndarskipanin ætti að einhverju leyti að vera á breiðari grunni. Það mætti alveg hugsa sér, finnst mér, að fulltrúar starfsmanna og/eða stjórnenda stofnunarinnar kæmu að auk fulltrúa stjórnmálaflokka og ráðuneytis en það er útfærsluatriði sem menn geta velt fyrir sér í nefnd.

Staða málsins er sú eftir því sem ég best veit að mótuð hefur verið sú stefna að framtíðaruppbyggingin verði á lóðinni við Hringbraut. Það hefur að sjálfsögðu ekki verið óumdeilt. Menn þekkja umræður og jafnvel hugmyndir um að byggja frá grunni nýjan spítala á nýju svæði sem auðvitað hefði sína kosti ef menn vildu gerast svo stórhuga því þá væri hægt að byggja algerlega frá grunni, án þess að vera heftir af núverandi húsaskipan og núverandi aðstæðum, glæsilegan nýjan hátæknispítala. En hitt að gera þetta í áföngum og nýta alla þá miklu aðstöðu sem er þrátt fyrir allt á lóðinni við Hringbraut virðist manni vera á flestan hátt raunsærra og raunhæfara. Ég held að það geti varla verið mikill vafi á því að það svæði verður fyrir valinu frekar en Fossvogur. Ég sannfærðist endanlega um að þetta væri vænlegasta leiðin eftir ágætan fund eða ráðstefnu sem við fulltrúar flokkanna vorum á og boðað var til af starfsmönnum og stjórnendum stofnunarinnar í fyrra í aðdraganda síðustu alþingiskosninga. Það er því misskilningur ef samfylkingarmenn halda að þeir séu þeir einu sem hafa heimsótt Landspítala -- háskólasjúkrahús (Gripið fram í.) en vissulega hrósa ég þeim fyrir þessa myndarlegu heimsókn sem þeir fóru í þangað á dögunum. Það er alltaf af hinu góða að menn setji sig vel inn í málin.

Fyrir mitt leyti, og ég held að ég geti talað þar fyrir hönd míns þingflokks, sannfærðist ég nokkurn veginn endanlega um að þrátt fyrir allt væri væntanlega raunhæfasta og vænlegasta leiðin að horfa til uppbyggingar á lóðinni við Hringbraut.

Um þörfina á frekari uppbyggingu og þróun Landspítala -- háskólasjúkrahúss dettur mér ekki í hug eitt augnablik að sé nokkur pólitískur ágreiningur. Landspítali -- háskólasjúkrahús er algert flaggskip í sérhæfðri íslenskri heilbrigðisþjónustu og gæði hennar munu ráðast mjög mikið af því hversu metnaðarfull starfsemin á Landspítala -- háskólasjúkrahúsi verður og hversu vel verður að henni búið.

Það má líka vitna til þess, eins og síðasti ræðumaður gerði, að það hefur engin deila verið um þau áform sem tekin hafa verið í þessum efnum þegar þau hafa loksins komist á koppinn eins og uppbygging K-byggingar á sínum tíma og síðan uppbygging Barnaspítalans eða Barnadeildar Hringsins sem kannski væri að sumu leyti réttara að kalla.

Auðvitað koma sameiningarmálin aðeins við sögu. Það er rétt sem á er bent og menn hafa rætt m.a. í ljósi skýrslna sem sýnt hafa að sameiningin hefur ekki reynst neitt einfalt lausnarorð í málefnum þessarar stofnunar, þ.e. sameining stóru sjúkrahúsanna sem voru aðskilin á Reykjavíkursvæðinu á sínum tíma. Það gátu menn alveg sagt sér fyrir og því miður ætla Íslendingar að læra af sömu reynslu og ýmsar nágrannaþjóðir hafa gert að slík sameining er mikið vandaverk og eigi hún að heppnast vel og skila fljótt árangri, þarf að vanda til undirbúningsins með alveg gríðarlega markvissum hætti sem ég tel að því miður hafi ekki verið gert. Menn lentu í því að lokum að flýta sér talsvert mikið sem hefur leitt til þess að það er enn við ýmsa hluti að glíma í rekstrinum sem menn héldu kannski að yrði einfaldara að leysa úr.

Ég hygg að vísu að það sé rétt, vona það a.m.k., sem menn hafa talið sig geta lesið út úr úttektum og skýrslum að faglega hafi Landspítali -- háskólasjúkrahús komið tiltölulega vel út úr þessari sameiningu, en hvað varðar ýmsa rekstrarþætti er enn margt óunnið og mætti svo sem segja ýmislegt af því sem maður heyrir þaðan í umræðum um andrúmsloft í deildum sem hafa verið sameinaðar o.s.frv.

En einu atriði í tillögunni er ég algerlega ósammála og það er að tengja þessi þörfu og brýnu uppbyggingaráform á nokkurn hátt við fyrirhugaða einkavæðingu Landssímans. Það held ég að sé misráðið. Í fyrsta lagi er ég andvígur því að selja Landssímann, einkavæða hann. Verði hann einkavæddur, a.m.k. af núverandi stjórnarflokkum, liggur því miður fyrir að það verði gert með sölu grunnnetisins og þar með fellur sú forsenda tillögunnar sem byggir á þeirri stefnu Samf. að halda eigi grunnnetinu eftir. Ég hef heldur aldrei séð neinn sérstakan tilgang í æfingum af því tagi að eyrnamerkja tilteknar krónur sem koma inn í ríkissjóð til eins verkefnis frekar en annarra. Þetta reyndu einmitt stjórnarflokkarnir að gera og sætta þjóðina við fyrirhugaða einkavæðingu bankanna að fjármunir úr þeim mundu renna til ýmiss konar átaksverkefna í atvinnumálum á landsbyggðinni, samgöngumálum o.s.frv. og var jafnvel bætt eitthvað í þá hluti til að byrja með. En hvað gerðist við afgreiðslu næstu fjárlaga? Þeir voru að verulegu leyti skornir niður aftur og þannig æfingar þjóna engum tilgangi. Ég hef aldrei séð að menn mundu geta merkt krónurnar og þær þekktust í sundur í kassanum hjá Geir H. Haarde eða hver sem kynni að verða fjmrh., hvort þær koma inn vegna almennra skatttekna eða vegna sölu ríkiseigna er erfitt að greina. Auðvitað er sala ríkiseigna, komi hún til, ósköp einfaldlega eins og hverjar aðrar tekjur að vísu þá tímabundnar sem falla til ríkissjóðs og þar af leiðandi alltaf álitamál hvort það er tæknilega og pólitískt eitthvað sem þjónar tilgangi að binda þetta saman. Ég hefði því frekar viljað að menn reyndu að safna liði um það sem tillagan gengur út á, sem er mjög þarft, að skipa þverpólitíska nefnd og reyna að ná þverpólitískri samstöðu um að koma hreyfingu á þessa hluti á nýjan leik.

Ég hygg að það sé nokkuð til í því sem hér var sagt af hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni að málið er svolítið á floti í augnablikinu. Eftir að uppbyggingu Barnaspítalans lauk hafa ekki beinlínis verið teknar nýjar ákvarðanir um framhaldið nema að þessu leyti að skipulagsmál í höfuðborginni og stefnan gengur út á að uppbyggingin verði við Hringbraut. Mér er ekki kunnugt um að teknar hafi verið neinar beinar ákvarðanir um hver næstu skref í þeim efnum verða þó örugglega sé verið að vinna þar ýmiss konar undirbúningsvinnu, en það væri tvímælalaust gott fyrir málaflokkinn að að henni kæmu fulltrúar allra flokka því ekki veitir af að skapa sem víðtækasta og pólitíska samstöðu um heilbrigðismálin, mikilvæg sem þau eru, og í þeim erfiðleikum sem menn eiga í þeim efnum að veita til þeirra nóga fjármuni.