Nýbygging við Landspítala -- háskólasjúkrahús

Þriðjudaginn 09. mars 2004, kl. 18:10:19 (5065)

2004-03-09 18:10:19# 130. lþ. 79.9 fundur 542. mál: #A nýbygging við Landspítala -- háskólasjúkrahús# þál., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 130. lþ.

[18:10]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Frú forseti. Það eru fyrst og fremst tengingar af þessu tagi sem ég held ekkert sérstaklega upp á og tel að séu yfirleitt ekki skynsamlegar. Þetta hefur margoft verið reynt áður og ég geri grundvallarmun á aðferðum eins og þeim sem menn hafa farið til að tryggja verkefnum langtíma og stöðuga fjármuni með einna mestum tekjustofnum eins og átti við í tilviki Þjóðarbókhlöðunnar. Þar féll til árlegur tekjustofn sem gekk til þess verkefnis um árabil og síðan í framhaldinu til viðhalds og endurbóta á öðrum menningarstofnunum eða verðmætum. Það er dálítið annað en þessi hugsun að við sölu einstakra eigna séu þær tekjur sem í ríkissjóð koma með þeim hætti haldið aðskildum til þeirra verkefna.

Auðvitað má segja að það komi algerlega út á eitt ef við lítum til þess að ríkissjóður skuldar fjármuni og þarf að reka sig á hverju ári, borga af sínum lánum o.s.frv. ef hann ræðst í framkvæmdir og það falla jafnframt til á sama tíma einhverjar sölutekjur af eignum. Þá þarf bara að taka minni lán vegna þeirra framkvæmda eða annað í þeim dúr þannig að þegar upp er staðið skiptir það í sjálfu sér engu máli. Það er bókhaldsatriði eða þjónar einhverjum pólitískum tilgangi.

Það sem ég er líka að segja og veldur minni andstöðu við þennan þátt málsins er að þetta hefur verið notað af þeim sem vilja einkavæða alla skapaða hluti til þess að reyna að selja mönnum þá hugmyndafræði. Það er látið eins og þessir peningar koma af himnum ofan og þeir væru alls ekki til staðar ella. En ef menn einkavæða ekki á ríkið áfram eign sína og það verða ekki til nein ný verðmæti við sölu eigna. Menn selja þær yfirleitt einu sinni. Þvert á móti má færa fyrir því rök að þegar í hlut eiga verðmæt fyrirtæki sem rekin eru með góðum hagnaði og skila árlega miklum tekjum í ríkissjóð eins og Landssíminn, sé einmitt skynsamlegt að eiga hann áfram. Kannski ættum við að ákveða að hagnaður Landssímans renni í þetta á hverju ári í 10 ár.