Nýbygging við Landspítala -- háskólasjúkrahús

Þriðjudaginn 09. mars 2004, kl. 18:12:39 (5066)

2004-03-09 18:12:39# 130. lþ. 79.9 fundur 542. mál: #A nýbygging við Landspítala -- háskólasjúkrahús# þál., MÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 130. lþ.

[18:12]

Mörður Árnason (andsvar):

Forseti. Ég held að þegar til stykkisins kemur sé þetta í raun og veru ekki þannig að allir peningar séu eins á litinn. Við þekkjum það t.d. úr fjárhag fjölskyldna að þegar þær verða fyrir því að einhverjir peningar koma í efnahaginn, vegna einhvers búhnykks eða vegna þess t.d. að arfur hefur fallið til, vilja menn gjarnan taka þá peninga út úr og merkja þá sérstaklega, ekki nota þá í eyðslu og óhóf heldur gera það við arfinn sem hinum látna hefði þótt skynsamlegt.

Ég held að hv. þm. Kristján L. Möller og meðflm. hans séu ekki að reka áróður fyrir sölu Landssímans. Ég dreg þá ályktun því að hér á þinginu er mikill meiri hluti fyrir sölu Landssímans sem skynsamlega væri að staðið og með ákveðnum skilyrðum af hálfu samfylkingarmanna. Hér er því ekki um slíkan áróður að ræða. Hins vegar er um það að ræða að þrýsta mönnum til þess, hv. þm. Jónínu Bjartmarz, hennar flokki og samstarfsflokki hennar að láta sér annt um þetta mikla verkefni sem er að koma Landspítalanum undir einn hatt.

Ég vil, um leið og ég tek undir með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að ekki hafi verið nægilega vel staðið að sameiningu spítalanna tveggja, vekja athygli hans á því og annarra sem skipa þingheim að þessu sinni að ein af ástæðunum var einmitt sú að ekki lá fyrir áætlun um nýbyggingu Landspítalans á þeirri lóð sem hún verður sennilega á núna eða neinni annarri.