Réttarstaða íslenskrar tungu

Þriðjudaginn 09. mars 2004, kl. 19:00:28 (5072)

2004-03-09 19:00:28# 130. lþ. 79.10 fundur 387. mál: #A réttarstaða íslenskrar tungu# þál., Flm. MÁ
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 130. lþ.

[19:00]

Flm. (Mörður Árnason):

Forseti. Ég þakka hv. þm., meðflutningsmanni mínum, fyrir orð hans. Ég skil vel að honum hugnist ekki að geta ekki fengið þýðingar á ræðum. Ég tel að eitt af því sem gæti gerst í framhaldi af þeirri nefndarvinnu sem hér er um að ræða sé að til verði samræmdar reglur um slíka hluti. Þetta á líka við um alþjóðasamninga á heimasíðu utanrrn. og ræður sem ráðherrar og fyrirmenn okkar flytja.

Það er álitamál, þegar menn flytja margar slíkar ræður, hvort leggja á í að þýða hverja og eina ræðu en það á a.m.k. að vera þannig að almenningur geti fengið þær skýrðar og þýddar að einhverju leyti á sitt mál, a.m.k. hvað meininguna varðar. Ég held að þetta sé mikilvægt réttindamál í kerfinu. Það er ekki þannig, þó að menn haldi það og gumi af því í útlöndum, að allir Íslendingar tali reiprennandi eitt, tvö, þrjú, fjögur eða fimm erlend tungumál. Þannig verður það sennilega aldrei.