Afplánun íslensks ríkisborgara í Texas

Miðvikudaginn 10. mars 2004, kl. 13:45:16 (5082)

2004-03-10 13:45:16# 130. lþ. 80.91 fundur 390#B afplánun íslensks ríkisborgara í Texas# (aths. um störf þingsins), ÁÓÁ
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 130. lþ.

[13:45]

Ágúst Ólafur Ágústsson:

Frú forseti. Ég vil lýsa ánægju með svör hæstv. utanrrh. við spurningu minni áðan. Ég tel að hann hafi tekið hárrétta ákvörðun með afskiptum sínum af málinu sem ég lít á að verði að vera pólitísks eðlis. Það er alveg ljóst að það þarf atbeina ráðherrans sjálfs í þessu máli. Aðkoma embættismanna virðist ekki vera nægjanleg, en ég vil endurtaka þakkir til þeirra embættismanna sem hafa staðið sig eins og hetjur í þessu máli en við erum bara komin að leiðarlokum varðandi þá leið.

Raunveruleikinn er sá að aðkoma stjórnmálamanna getur skipt sköpum í slíkum málum og oft þarf ekki annað en taka upp símtólið. Við höfum fordæmi í máli Sophiu Hansen þar sem stjórnmálamenn reyndu að beita sér gagnvart þarlendum stjórnvöldum þótt það hafi ekki dugað í það skiptið þegar á hólminn var komið. Einnig er rétt að hafa í huga að mál umrædds einstaklings hefur verið á borði skrifstofu ríkisstjóra Texas og þar af leiðandi á pólitískum vettvangi. Það eitt eykur líkurnar á að afskipti hæstv. utanrrh. geti skipt máli.

Aðalatriðið er að sjálfsögðu að hér er um að ræða íslenskan ríkisborgara sem hefur verið beittur miklum órétti. Ég vil því fagna undirtektum hæstv. utanrrh. og ég vona að hann beiti sér af fullum pólitískum krafti til að leysa þetta mál farsællega